05.05.1978
Efri deild: 101. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4521 í B-deild Alþingistíðinda. (3912)

217. mál, tollskrá o.fl.

Jón Helgason:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði áðan að það mundi ekkert þýða að tala við framsóknarmenn um leiðréttingu á tollamálum landbúnaðarins, því að þar hefðu þeir ekkert gert, sagði þó að vísu í lokin í ræðu sinni, að það væru kannske hér í deildinni til einhverjir slíkir sem vildu eitthvað gera, og það sýnir samræmið í ræðum. En ég held að þetta bendi til þess, að hann viti lítið hvað hefur verið að gerast og er að gerast í þessum málum.

Hv. þm. taldi að landbúnaðurinn væri sérstaklega hart leikinn. En svo fór hann að telja upp ýmislegt fleira: sjávarútveg og ýmis tæki til hans, og svo kastaði þó alveg tólfunum þegar kom að búsáhöldum, hreinlætistækjum, heimilistækjum og slíku, þannig að ranglætið virtist þá í lokin vera orðið víðar en hjá landbúnaðinum.

Ég vil vitanlega ekki draga úr því, að landbúnaðurinn hafi þörf á að tollar séu lækkaðir á rekstrarvörum hans. Hins vegar vil ég benda á það sem gerst hefur í þessum málum og hv. 5. þm. Norðurl. v. virðist alls ekki vita um. Hann virtist ekki vita um það, að í árslok 1976 var tollur af öllum jarðyrkju- og heyvinnuvélum 7%. Hann virðist ekki vita um það, að í ársbyrjun 1977 voru þessir tollar lækkaðir niður í 4%. Og hann virðist ekki vita um það, að í ársbyrjun 1979 eiga þessir tollar að lækka niður 2% þ. e. a. s. verða aðeins rúmlega 1/4 af því sem þeir voru fyrir tveimur árum. Og svo liggur fyrir í þessu frv., sem við erum nú að fjalla um, leiðrétting á nokkrum tækjum til viðbótar til landbúnaðarins sem urðu eftir við breytinguna í árslok 1976, en fá nú sömu tollmeðferð. Þar eru ámoksturstækin, sem eiga nú þegar að lækka úr 7%, og niður í 4% og síðar niður í 2% í byrjun næsta árs, enn fremur allar hjóladráttarvélar og svo heyhleðsluvagnar. Og þetta telur hann að sé ekki neitt, þeir, sem standa að þessum lækkunum, séu ekki að gera neitt. Ég held að hv. þm. þurfi að fara að vita eitthvað hvað hann er að segja hér í ræðustól.

Svo tók hv. þm. sérstaklega heyblásarana, það væti farið illa með landbúnaðinn af því að tollur á heyblásurum væri of hár. Hann virðist ekki vita, að þeir heyblásarar, sem henta íslenskum bændum langbest, eru smíðaðir hér á landi. Það er því ekki af umhyggju fyrir íslenskum bændum sem hann vill lækka toll á innfluttum heyblásurum, þar eru það heildsalarnir sem flytja inn og kannske fá þá möguleika til að selja íslenskum bændum lakari vöru ef tollar eru lækkaðir. Ég held að svona málflutningur eins og hv. þm. hafði hér í frammi sé ekki skynsamlegur, og það er ekki annað en staðfesting á því, að því miður eru umr. hans og hans flokksmanna um íslenskan landbúnað, sem þeir hafa haft í frammi að undanförnu, á mikilli vanþekkingu byggðar.