05.05.1978
Efri deild: 101. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4523 í B-deild Alþingistíðinda. (3915)

217. mál, tollskrá o.fl.

Jón Helgason:

Herra forseti. Það var misskilningur hjá hv. 5. þm. Norðurl. v., að það væri till. hans um lækkun sem ég væri að mótmæla. Ég var að mótmæla þeim ósannindum að framsóknarmenn hefðu ekki staðið að neinum lagfæringum í tollamálum fyrir landbúnaðinn. Það var hann sjálfur að tala um hér síðast og játaði að það hefði ýmislegt gerst. En í ræðu sinni áðan sagði hann að það þýddi ekkert að tala við framsóknarmenn, þeir stæðu þar aldrei að neinum lagfæringum. Þess vegna stendur algerlega það sem ég sagði. (RA: Ég á kannske eftir að taka það aftur. ) Já, vonandi eins og fleira sem hv. þm. hefur lært hér síðustu dagana að taka aftur.

En það var annað atriði sem hann minntist hér á, þ. e. söluskatt á kjöti. Og vegna þess að hann minnist hér á það get ég ekki annað en bent aðeins á að ég var nú ekki einn af Stéttarsambandsfulltrúunum sem hann talaði um. Ég er ekki fulltrúi á Stéttarsambandsfundi, en samt sem áður stend ég að því að vinna að þeim málum það sem ég get. Og sakir standa þannig núna eftir ráðstafanir ríkisstj., að niðurgreiðsla á hverju kg af dilkakjöti í smásölu í heilum skrokkum er 363 kr., vegna þess hvað hún hefur verið aukin núna á síðasta einu ári. Söluskatturinn af þessu sama kjöti er hins vegar 149 kr. Það hefur sem sagt verið farin sú leið að endurgreiða söluskattinn, sem af skattheimtuástæðum hefur verið talið æskilegra og vitanlega kemur það í sama stað niður fyrir bændur, hvort söluskatturinn er endurgreiddur eða aldrei lagður á. Aðalatriðið er fyrir þá, að verðið lækki eitthvað, ef það verð kynni að verða til að auka söluna. En því miður hefur salan ekki vaxið eins og bjartsýnustu vonir stóðu til. En það er annað mál. Það hefur verið valin sú leið að endurgreiða söluskattinn, og af algengustu tegund kjöts, 1. verðflokki í heilum skrokkum, er söluskatturinn um það bil tvisvar og hálfum sinnum endurgreiddur með niðurgreiðslunni.