05.05.1978
Efri deild: 101. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4524 í B-deild Alþingistíðinda. (3916)

217. mál, tollskrá o.fl.

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það er auðvitað ekki viðkunnanlegt að fara nú að upphefja hér langar umr. um söluskattsmál, sem er allt annað mál, en ég vil að gefnu tilefni sérstaklega mótmæla því sem fram kom hér áðan í ræðu hv. þm. Jóns Helgasonar, að með auknum niðurgreiðslum sé í raun og veru búið að afnema söluskatt á kjötvörum. Það, sem hefur gerst, er ekkert annað en það, að niðurgreiðslur voru verulega lækkaðar í tíð þessarar ríkisstj. og þær hafa verið hækkaðar aftur. Söluskatturinn stendur áfram. Og þó að menn geti vitnað til þess, að niðurgreiðslur hafi nokkuð hækkað í krónum talið á seinustu 12 mánuðum, þá verður auðvitað að hafa í huga að dýrtíð hefur líka aukist stórkostlega á þessu tímabili. Við erum nýbúin að fá yfir okkur enn eina gengisfellinguna, og auðvitað hlaut að koma til þess, að niðurgreiðslur yrðu hækkaðar, sérstaklega þegar haft er í huga hvað þær lækkuðu mikið á árunum 1975 og 1976. Það er alveg ljóst, að niðurgreiðslur á kjöti eru hlutfallslega ekkert meiri nú heldur en þær voru árið 1974. Það er ég alveg viss um að hv. þm. getur verið mér innilega sammála um. Aðalatriðið er þá að söluskatturinn hefur enn ekki verið afnuminn. Niðurgreiðslur hafa hins vegar hoppað upp og niður og við stöndum núna frammi fyrir niðurgreiðslum sem ættu það eitt réttnefni að nefnast kosninganiðurgreiðslur eins og við þekkjum frá gamalli tíð, þar sem reynt er að demba sem mestum niðurgreiðslum fram rétt fyrir kosningar, en menn geta svo átt á einhverju verra von að þeim loknum.