10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

318. mál, verðlag

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í fjárlagaræðu minni gerði ég nokkra grein fyrir þeirri ákvörðun ríkisstj., sem áður hafði fram komið í ræðu hæstv. forsrh., að upp yrði tekin staðgreiðsla skatta hinn 1. jan. 1979 og í kjölfarið yrði tekinn upp virðisaukaskattur í stað söluskatts eins og hann er í dag. Ég gerði enn fremur grein fyrir kostum og göllum virðisaukaskattsins og vék sérstaklega að þeim göllum, sem iðnaðurinn telur að þar sé um að ræða. Ég gat þess í þeirri ræðu að uppsafnaður söluskattur, sem endurgreiddist þar sem virðisaukaskatturinn væri, hefði á árinu 1974 verið endurgreiddur útflutningsiðnaðinum, öðrum en fiskiðnaði, og grundvallaðist það á því að útflutningsiðnaðurinn, þ.e.a.s. samkeppnisiðnaðurinn, hefði búið við mjög óhagstæða gengisskráningu svo til allt það ár. Upprunalega var ákvarðað að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt til ágústloka 1974, en þeirri ákvörðun var breytt og uppsafnaður söluskattur endurgreiddur út árið 1974. En gengisbreyting var aftur gerð á árinu 1975, í upphafi þess árs, og þá gengisskráningin orðin með þeim hætti að ástæða var ekki talin til endurgreiðslu á þeim uppsafnaða söluskatti sem um hafði verið rætt.

Á þessu ári hefur fjmrn. beitt sér fyrir því, að Þjóðhagsstofnun mæti uppsöfnun söluskatts að nýju miðað við forsendur ársins 1977. Þá kom í ljós að uppsafnaður söluskattur er að meðaltali 3.6% af heildarrekstrargjöldum útflutningsiðngreina, þá er fiskiðnaðurinn ekki meðtalinn. Hlutfallið er nokkuð mismunandi fyrir hinar ýmsu greinar, og gerði ég í fjárlagaræðu minni grein fyrir þeim mismun. En uppsafnaður söluskattur í þessum greinum nemur á árinu 1977 að dómi Þjóðhagsstofnunar 235 millj. kr. eftir vísbendingum sem fyrir lágu um afkomu þessara útflutningsgreina 1977. Af þeim sökum ákvað ríkisstj. að endurgreiða á árinu 1978 áætlaðan uppsafnaðan söluskatt af útflutningsvörum samkeppnisiðnaðarins vegna EFTA-aðildar á árinu 1977 og er söluskattsáætlun 1978 við það miðuð.

Afkoma þessara atvinnugreina ræðst mjög á hverjum tíma af gengisskráningu og almennum aðstæðum í efnahagsmálum. Því er ekki unnt að segja á þessu stigi hvort ráðlegt sé að halda greiðslum af þessu tagi áfram. Á það var bent, að áform eru um að taka upp virðisaukaskatt sem frambúðarlausn í þessum efnum.

Svar mitt er því að ríkisstj. hefur ákveðið að endurgreiða á árinu 1978 áætlaðan uppsafnaðan söluskatt á útflutningsvörum samkeppnisiðnaðarins vegna EFTA-aðildar á árinu 1977, en það er ekki gert ráð fyrir að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt 1975 og 1976.