05.05.1978
Sameinað þing: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4578 í B-deild Alþingistíðinda. (3928)

328. mál, Kröfluvirkjun

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það er með hálfum hug sem ég tek til máls. Klukkan er orðin rúmlega hálftvö og boðuð eru þingslit á morgun, reyndar fundir strax kl. 10, svo að það er kannske varla von að þm. tolli hér í húsinu til þess að hlusta á umr. um þetta mál. Ég hafði þó hugsað mér að gera nokkrar almennar aths. við málið, því að ég tel að hér sé um stórt mál að ræða, — mál sem vissulega hefði átt að taka fullan tíma til þess að ræða og það við eðlilegar aðstæður.

Ég verð að finna í fyrsta lagi að þeim vinnubrögðum sem höfð eru á í sambandi við þetta mál. Það er rétt, sem hér hefur verið sagt, að það liðu um 6 mánuðir frá því að ósk kom fram um þessa skýrslu og þar til skýrslan kom fram á Alþingi. Þess hafði verið óskað sérstaklega, að umr. yrðu hér á þinginu um skýrsluna. Auðvitað sjá allir að umr. um skýrsluna geta ekki farið fram með eðlilegum hætti. Það má segja að nokkurn veginn sé útilokað að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þetta eru auðvitað vítaverð vinnubrögð og satt að segja eru þau að mínum dómi alveg óskiljanleg.

Ég mun ekki fara í að rekja sérstaklega ýmislegt af því, sem þó verður að teljast athyglisvert í þessari skýrslu, um einstök framkvæmdaatriði. Það er líka búið að gera það býsna rösklega, því að það er langleiðina búið að lesa 221 bls. af þessari skýrslu. Reyndar dugði það ekki til, því að ræðumaður hafði aðra álíka þykka bók og las hana líka. Það má því ætla að komið sé talsvert mikið fram af því sem máli skiptir um ýmsa framkvæmdaþætti þessa máls. Ég vil þó segja það strax í tilefni af því sem síðasti ræðumaður ræddi um í sambandi við þessa virkjun, að nokkur atriði fóru mjög afvega hjá honum, að mér fannst, í sambandi við upphaf málsins.

Þegar lögin um Kröfluvirkjun voru sett vorið 1974 voru allir alþm. sammála um þá lagasetningu, að veita heimild til þessarar virkjunar, — allir, Alþfl.-mennirnir ekki síður. Þá lágu þær upplýsingar einar fyrir, að allir þeir, sem áttu helst að vita um þessi mál, töldu að þarna væri um úrvalsvirkjun að ræða. Ráðunautar ríkisstj. í þessum málum, þeir sem réðu fyrir Orkustofnun, gáfu upplýsingar í þá átt. Að vísu höfðu þeir gert ráð fyrir því, að rannsóknum yrði haldið áfram og undirbúningurinn málsins yrði með eðlilegum hætti. Ég vek athygli á því, að þegar þessi lög voru sett datt engum manni í hug að hér væri aðeins um virkjun fyrir Norðlendinga að ræða. Það var alltaf gengið út frá því, að hér væri um allstóra virkjun að ræða eða gæti orðið um allstóra virkjun að ræða sem tengdist landskerfinu, enda kemur það skýrt fram í þessari stóru bók. Það segir t. d., svo að ég fari nú að lesa úr henni til viðbótar við það sem áður hefur verið lesið, á bls. 17, en þar er haft eftir Orkustofnun frá þessum tíma: „Gerð hefur verið rekstrareftirlíking (með rafreikni) á samrekstri jarðgufustöðvar við önnur orkuver, er sendu ráforku sína inn á sameiginlegt raforkukerfi.“ — Og síðan er gerð grein fyrir því, hversu hagstæð slík virkjun gæti verið. Þarna í skýrslunni er sagt að reikna megi með 55 mw. gufuaflsvirkjun og framleiðslukostnaður raforku frá henni gæti verið 35 aurar á kwst. Þess er getið um leið, að á sama tíma sé áætlað að orkuverðið frá Sigölduvirkjun sé 70 aurar á kwst. Þetta voru þau gögn sem lágu fyrir Alþ. og alþm. um það leyti sem heimildarlögin voru sett. Ég tel því að það sé gersamlega út í hött að setja dæmið um Kröfluvirkjun þannig upp að reikna út að hún hafi í rauninni aldrei átt rétt á sér vegna þess að Norðlendingar hafi ekki þurft á þessari orku að halda og hún hefði orðið óhagstæð í reynd vegna þess að það hafi ekki verið til orkumarkaður. Ég lít á þetta mál frá allt öðrum sjónarhól.

En það var ekki ætlun mín með þessum fáu orðum mínum, því að ég ætla ekki að tala langt mál úr því sem komið er, að fara í það sem ég kalla í rauninni þras um ýmsa framkvæmdaþætti í sambandi við þetta stóra mál, — þras sem hægt væri að halda endalaust áfram með. Auðvitað er engin aðstaða til þess að ætla að gera þá reikninga upp hér á Alþ. og allra síst við þessar aðstæður, eins og spurninguna um það, hvar einhverjir tilteknir Japanir, sem voru að bjóða vélar, hafi verið staddir í febrúarmánuði 1975, eins og hér var spurt um, eða alls konar samanburð á bréfum, sem gengu á milli Orkustofnunar og annarra sérfræðinga á hinum ýmsum tímum, eða deilur um borunaraðferðir, hvort þær voru réttar eða rangar, eða verkútboð eða val á verktökum, að ég tali nú ekki um að fara að ræða um öll þau óhöpp sem hafa stafað af dugnaði Jóns Sólness. Þetta eru mál sem ekki verða gerð hér upp, og ég tel út af fyrir sig að þras um þetta fram og til baka sé heldur gagnslítið.

En staðreyndir þessa máls eru þær, að komið hafa fram margvíslegar aðfinnslur í sambandi við það, hvernig staðið hefur verið að Kröfluvirkjun. Og ég skal svo sem ekki fara að telja þær allar upp. En á það hefur verið bent, að teknar hafi verið alvarlega rangar ákvarðanir varðandi framkvæmdir. Einnig hefur verið á það bent, að ekki hafi verið farið í öllum greinum að ráðleggingum sérfræðinga ríkisstj., eins og Orkustofnunar. Svo hefur verið deilt á ýmislegt í störfum Kröflunefndar, einkum þann hraða sem hún hefur haft á sínum verkum. Að sjálfsögðu hafa líka komið fram aðfinnslur varðandi margvíslegan undirbúning í sambandi við verkið. Ég skal ekki fara að leggja dóm á þessi atriði, en vil þó segja, að mér sýnist að ákvarðanir, sem teknar voru í upphafi árs 1975 um að hraða öllum framkvæmdum, þrátt fyrir að ljóst var að undirbúningur sá, sem hafði verið ráðgerður, hafði ekki getað farið fram, hafi vægast sagt verið hæpnar. Þar hafa menn hreinlega treyst á að lukkan væri með þeim og allt gengi að óskum. Mér sýnist líka að varla þurfi um það að deila, að ríkt hefur mikið skipulagsleysi í sambandi við þær stórframkvæmdir sem þarna hafa farið fram. Ljóst er að sjálft iðnrn. hefur verið framkvæmdaaðill í sambandi við Kröfluvirkjun og það hefur falið ýmsum aðilum hina ýmsu þætti málsins: Orkustofnun að sjá um gufuöflun, Kröflunefnd að sjá um byggingarframkvæmdir og Rafmagnsveitum ríkisins að sjá um ýmsar stofnlínur frá virkjuninni. Það er að mínum dómi enginn vafi á því, að þarna hefur verið ríkjandi skipulagsleysi og það hefur valdið allmiklu um hvernig til hefur tekist. En fyrst ég leiði nú hjá mér að mestu leyti að ræða um það, hvernig til hefur tekist með hina ýmsu framkvæmdaþætti þessa máls, þá ætla ég að eyða þessum fáu mínútum í að ræða nokkuð um hvernig ástandið er í dag í þessum málum.

Við stöndum frammi fyrir því eftir allt sem á undan er gengið, að búið er að verja í Kröfluvirkjun, eftir því sem upplýsingar liggja fyrir um, á milli 7 og 8 milljörðum kr. Það er auðvitað lítill vandi að reikna það út, ef allt er sett á verðlag dagsins í dag. Og okkur er sagt að virkjunin fullbúin kosti a. m. k. 11.2 milljarða kr., — já, og reyndar er hægt að reikna þetta allt til verðlagsins eins og það er nú, sem gerði enn þá hærri fjárhæð. Hitt vitum við svo, að um síðustu áramót var sú ákvörðun tekin af hæstv. ríkisstj. að yfirgefa þetta allt saman eins og það stendur. Frá því var gengið við ákvörðun fjárl. um áramótin að verja ekki einni einustu krónu til viðbótar því sem orðið er við frekari gufuöflun. Tekið var fram að það fjármagn, sem til væri, skyldi ganga til þess að standa við ákveðnar skuldbindingar, greiða umsamin lán. Allálitleg upphæð átti að fara í það á fjárl. En ákvörðun var tekin um það við fjárlagaafgreiðslu, að mannvirkið með öllu tilheyrandi skyldi skilið eftir þar sem það er og í því ástandi sem það er í. M. ö. o.: um óákveðinn tíma, enginn veit hversu langan tíma, eigum við að eiga þetta þar sem það stendur og eins og það er og hafa aðeins af því útgjöldin ein.

Við vitum að upp kom það sjónarmið, að um það leyti sem gos varð í Leirhnjúk, í desembermánuði 1975, hefði verið rétt að stöðva framkvæmdir með öllu. Þá var þó komið allmikið fjármagn í þetta fyrirtæki og ýmsum þótti illt að stöðva verkið þar sem komið var þrátt fyrir þau óhöpp sem dundu yfir, og það ráð var tekið að halda áfram og frekara fjármagni var eytt í þetta mannvirki. Ég skal ekkert um það segja, hvort það hefði verið rétt að stöðva framkvæmdir á þessum tíma. En ég skil þá mætavel sem völdu þá leið að halda áfram og reyna að ljúka verkinu í von um að þarna gæti orðið um raforkuframleiðslu að ræða. En hvað vakir fyrir þeim mönnum, sem taka þá ákvörðun eins og nú er komið að hverfa frá öllum framkvæmdum, stöðva allar framkvæmdir, nema þá eitthvað minni háttar fikt við einstakar holur sem menn eru að glíma við þar fyrir norðan nú? Þetta er að mínum dómi mjög alvarlegt mál og þarf að gaumgæfa sérstaklega.

En með þessu er ekki sagður nema hluti af alvöru þessa máls. Það er ekki aðeins að þessi mikla framkvæmd við Kröflu er að stöðvast með þessum hætti, heldur er það, sem hefur gerst við Kröflu, nú að stöðva Orkustofnun ríkisins líka. Við alþm. fengum bréf í hendur í dag eða gær þar sem Orkustofnun gerir alþm. grein fyrir því, hvernig ástatt er orðið á því heimili. Þar er okkur skýrt frá því, að ríkisstj. hafi skyndilega tekið ákvörðun um að ráðstafa 150 millj. kr. af framkvæmdafé Orkustofnunar, sem áætlað hafði verið af Alþ. sjálfu til tiltekinna framkvæmda sem Orkustofnun hefur með að gera, en þessi fjárhæð skyldi tekin af fjárveitingu Orkustofnunar til þess að greiða óreiðuskuldir sem safnast höfðu upp vegna Kröfluvirkjunar. Auðvitað segja þeir Orkustofnunarmenn: Við verðum að vona að þetta sé aðeins til bráðbirgða af því að ríkisstj. sé að leita að peningum til þess að borga sínar skuldir, því að vitanlega eigi ekki að taka þær fjárveitingar, sem Alþ. hefur ákveðið í allt aðrar framkvæmdir, til þess að borga skuldir vegna framkvæmda við Kröflu. — Ég skal ekki lýsa því öllu frekar. Menn vita mætavel hversu alvarlegt ástandið er orðið hjá Orkustofnun.

Það er ekki það einasta. Á sama tíma og þetta gengur yfir, þá er sá aðili, sem einnig tengist Kröfluframkvæmdunum, þ. e. a. s. Rafmagnsveitur ríkisins, kominn í þrot líka. Þar er allt að springa. Það er satt að segja ekki sjáanlegt að Rafmagnsveitur ríkisins geti heldur staðið við skuldbindingar sínar. Og þar er líka gripið til örþrifaráða.

Í tilefni af þessu spyr ég: Hvað er að gerast í þessum málum? Ég get ekki séð annað en hæstv. ríkisstj. hafi tekið ákvarðanir um að taka af hæstv. iðnrh. öll völd í þessum málum. Það er ríkisstj., sem ákveður við fjárlagaafgreiðslu og segir við iðnrh.: Þú færð ekki eyri í meiri boranir. Þú skalt hafa Kröflu þar sem hún er. — Síðan eru þeir fjármunir, sem Orkustofnun ræður yfir, teknir til þess að borga vandræðaskuldir vegna Kröflu og iðnrh. auðvitað settur þar í hin herfilegustu vandræði í sambandi við þá stofnun sem einnig er undir hans stjórn. Og svo þekkjum við alþm. mætavel söguna af Rafmangsveitum ríkisins og því ástandi. Er það svo að hæstv. ríkisstj. hafi tekið ákvörðun um að frysta gersamlega hæstv. iðnrh. og læsa þar öllu? Mér dettur ekki í hug að halda að það sé vilji hæstv. iðnrh. að svona sé að þessu farið.

Í þessum efnum hlýt ég að benda á að hvað svo sem líður mistökum sem kunna að vera frá hálfu iðnrh. í sambandi við þessi mál, þá fer ekki á milli mála að hæstv. ríkisstj. hefur sem heild tekið á sig ábyrgð af öllum þáttum þessara mála. Ríkisstj. hefur staðið að því við afgreiðslu fjári., svo lengi sem framkvæmdir við Kröflu hafa átt sér stað, að ákveða fjárveitingar í: þá framkvæmd. Hæstv. iðnrh. hefur ekki verið nema eins og hver annar framkvæmdastjóri hjá hæstv. ríkisstj. í sambandi við þennan verkþátt. Ríkisstj. getur því ekki sem slík skotið sér undan þeim vanda sem þessu öllu fylgir.

Að mínum dómi er um að ræða hneyksli í sambandi við allar þessar framkvæmdir í orkumálum. Ég vildi sérstaklega vekja athygli á þessum þætti málsins, því að auðvitað er það sú alvara, sem við stöndum frammi fyrir í dag, hvað á að gera í þessari stöðu. Hvað er það sem á að gera? Ég tek eftir því, að þeir, sem tala hér mest um Kröflumálið, eru mjög ákafir í að finna einn ákveðinn sekan aðila og vilja hengja hann sem fyrst. Oftast nær er það hæstv. iðnrh. sem þeir vilja hengja og kenna honum um allt saman. Hann á kannske stóran þátt í þessu öllu. Ég get ekki dæmt um það. En fyrir mér er þetta mál miklu stærra en svo, að ég treysti mér til þess að bera þessa sök á einn aðila. Ef einhvern á að hengja, þá á að hengja ríkisstj. alla. Það er hún sem ber ábyrgð á því sem hefur verið að gerast í þessum málum. Og hafi verið rétt að freista gæfunnar og halda áfram eftir að gosið hafði dunið yfir við Leirhnjúk, þá ber í rauninni skylda til að halda áfram og reyna að afla gufu til þessa dýra mannvirkis sem komið er upp þar fyrir norðan. Það er auðvitað það vitlausasta af öllu vitlausu að hlaupa frá verkinu á því stigi sem það er. Og það er aðeins að bæta gráu ofan á svart að ætla síðan að gera starf Orkustofnunar óvirkt á öðrum sviðum og brjóta þar í rauninni í bága við það sem Alþ. hefur ákveðið um verkefni orkuráðs og Orkustofnunar.

Það er enginn tími til þess að þessu sinni að ræða í ítarlegri ræðu um þessi mál í heild. En ég vildi láta þessar aths. mínar koma fram. Þær skipta fyrst og fremst þann þátt málsins sem snýr að því, hvað á að gera við þær aðstæður sem upp eru komnar. Hvað meinar hæstv. ríkisstj. með því að loka fyrir framkvæmdir sem ekki verður annað séð en séu óhjákvæmilegar eins og komið er? Auðvitað getur ríkisstj., sem veit hvað hún c;r að gera, losað sig við einn ráðh., ef hún er óánægð með ráðh. Það er enginn vandi. Mér var hótað því á sínum tíma af forsrh., sem ég var í stjórn með, að hann gengi á fund forseta og afmunstraði mig. Ég veit að núv. hæstv. forsrh. veit alveg hvernig hann á að fara að því að rétta ákveðnum ráðh. pokann sinn, ef hann vill það. En ástæðulaust er að gera það með þeim hætti, að allt landið eigi að líða fyrir það. Við eigum ekki að stöðva Orkustofnun og við eigum ekki að taka á okkur ómældar skuldir vegna þess að e. t. v. séu uppi ákvarðanir um að losa sig með þeim hætti við tiltekinn ráðh. Ég sé enga ástæðu til þess að fara þá leið.