05.05.1978
Sameinað þing: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4583 í B-deild Alþingistíðinda. (3929)

328. mál, Kröfluvirkjun

Jón Sólnes:

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svokölluð Kröflumál eru á dagskrá á hinu háa Alþ., og hvað sem um mig verður sagt og mína auðvirðulegu persónu, þá hef ég ekki tafið tíma hins háa Alþingis með þátttöku í umr. um þetta vandræðabarn. Og satt best að segja hafði ég fyrir fram hér í kvöld ákveðið að trufla ekki endakappleik sólómannsins, hv. 8. landsk. þm., Sighvats Björgvinssonar, í þessum mikla lokaþætti sem hann var búinn að undirbúa svo vel, æfa svo vel og setja sig í svo stórkostlegt prímadonnuhlutverk til þess nú að fullkomna prófið úr þeim leikskóla sem hann hefur stundað á þessu háa Alþingi s.l. kjörtímabil. En þessum ágæta hv. þm. varð það á að fara að vitna í og slíta úr samhengi örstutta ræðu sem ég hélt hér þegar ég kom eins og hvert annað aðskotadýr — sem varaþm. — um það leyti sem verið var að afgreiða lög um Kröfluvirkjun, — lög sem voru afgreidd í því andrúmslofti innan þessa háa Alþ., að þar komst ekkert annað að, þar var einn vilji, ein ósk öllu ofar, allir voru sammála um nauðsynina. Það var aðeins eitt sem skyggði á: hversu fljótt væri hægt að byggja þessa virkjun. Og herra forseti, með tilliti til þess, hve mikið er búið að lesa, þá leyfi ég mér að vonast til þess að ég megi eyða í það örfáum mínútum úr því að svefndrunginn er farinn úr mér. Ég er oft nokkuð góður, ef ég get haldið mér vakandi fram yfir klukkan eitt, þá er mér nokkurn veginn sama. Ég átti dálítið erfitt á tímabili undir ræðu hv. þm., en nú er allt í lagi. Og nú langar mig — með leyfi hæstv. forseta — að fá að lesa svolítið úr ævintýrasögu grýlubarnsins Kröfluvirkjunar. Og hefst þá lesturinn. Ég byrja á því herrans ári 1974,18. mars. Þá er til umr. jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall, frv. á þskj. 292, nál. 503, 468, 2. umr., frsm. Steingrímur Hermannsson. Í þessari ræðu er þessi hv. þm. að mæla fyrir nál. iðnn., sem hafði haft til meðferðar frv. til l. um jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall í Suður-Þingeyjarsýslu. Og um leið og hann hefur mál sitt þarf hann svolítið að hnýta í Halldór Blöndal, sem þá sat á þingi og hafði verið með aðfinnslur, og nú hefst orðrétt tilvitnun — með leyfi hæstv. forseta — það er verið að lýsa umsögnum:

„Ég get þessa sérstaklega, þar sem hv. þm. Halldór Blöndal gerði hér aths. við drátt á afgreiðslu þessa máls. Ég get ekki samþykkt það, og sýnist mér satt að segja, að málið hafi haft þarna eins skjóta afgreiðslu og hægt var að gera ráð fyrir.“ — Þarna er verið að minnast hvernig málið hafði farið fram í n. Hv. þm. skýrir í þessari ræðu frá því, að umsagnir hefðu borist frá ýmsum aðilum, sem leitað var til, en það voru Laxárvirkjun, Fjórðungssamband Norðurlands og sýslumaðurinn í Þingeyjarsýslu. Og orðrétt segir í umsögn stjórnar Laxárvirkjunar, sem er skrifuð 10. jan.:

„Í tilefni af fram komnu stjfrv. um lagaheimild til virkjunar gufu við Kröflu til raforkuframleiðslu vill stjórn Laxárvirkjunar lýsa því yfir, að hún telur eðlilegt, að umrædd virkjun verði reist og rekin af Laxárvirkjun, þar eð Krafla er á orkusvæði Laxárvirkjunar.“ — Og Steingrímur heldur áfram: „N. taldi sér ekki fært að fallast á þetta sjónarmið, hins vegar sjálfsagt og eðlilegt, að Laxárvirkjun geti orðið aðili að væntanlegri Norðurlandsvirkjun eða því fyrirtæki öðru, er falið yrði að reisa og reka jarðgufuvirkjun við Kröflu.“

Orðrétt heldur áfram með leyfi forseta:

„Ég vil að gefnu tilefni af orðum hv. þm. Halldórs Blöndals hér í deildinni nýlega geta þess, að ég sat s. l. fimmtudag fund með orkumálastjóra, og voru þar ýmsir aðrir þm. mættir. Þar spurðist ég fyrir um það hvort nokkuð væri hæft í því, að undirbúningur að Kröfluvirkjun hefði tafist vegna meðferðar málsins hér á Alþ. Orkumálastjóri fullvissaði mig og aðra, sem þar voru, um, að það væri algerlega úr lausu lofti gripið,“ — menn taki eftir, þetta er í mars 1974, — „undirbúningurinn væri í þeim gangi, sem hann gæti frekast verið, og alls engin töf væri af þeim sökum fram komin. Satt að segja væri fróðlegt að vita, hvaðan hv. þm. hefur haft þessar upplýsingar.“

Ég held áfram — með leyfi forseta — að lesa upp úr ræðu þessa hv. þm. Þar stendur orðrétt:

„Þetta sýnir okkur einnig, að það þarf að hraða virkjunum, m. a. Kröfluvirkjun að sjálfsögðu. Telja sérfræðingarnir mér aðspurðir að ekkert eigi að vera því til fyrirstöðu, að hún geti hafið starfrækslu 1979 í síðasta lagi, jafnvel fyrr. Á það er bent, að erfiðleikar, sem kynnu að koma í ljós á Kröflusvæðinu, gætu orðið til þess, að talið yrði hyggilegra að reisa slíka virkjun við Námaskarð, en sérfræðingarnir fullyrða að á því séu ákaflega litlar líkur ef meta má af þeim mælingum og upplýsingum, sem þeir hafa þegar safnað.“

Ekki var nú sá ljóti maður Jón Sólnes kominn í málið þegar þessi ummæli féllu.

Enn er málið til umr. hinn 20. mars, og þá er það enn hv. þm. Steingrímur Hermannsson sem er á ferðinni. Og hann er enn að stríða við hv. þm. Halldór Blöndal. Með leyfi forseta langar mig til að lesa eftirfarandi úr umr.:

„Herra forseti. Ég skal vera stuttorður enda er ekki rétt að vera að tefja tímann hér í þessari hv. d. með því að svara þeim furðulegu fullyrðingum, sem fram komu hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, sem er nú ekki viðstaddur. Hann svaraði ekki fsp. minni þess efnis, hvar hann hefði fengið þær upplýsingar, að meðferð Alþ. á þessu máli tefði eðlilegan undirbúning, enda er það ekki von, því að það er uppspuni einn. Í staðinn kennir hann mér það nú, að ég hafi tafið Kröfluvirkjun um eitt heilt ár. Ég verð að segja, að meiri er minn máttur en ég gerði mér grein fyrir.“

Enn stendur í sömu ræðu — með leyfi hæstv. forseta — orðrétt:

„Ég las upp úr orkuspá, sem verið er að vinna að, ítarlegri orkuspá, sem fljótlega verður birt, taldi það vera upplýsingar, sem hv. þm., m. a. þessi hv. þm., hefðu fróðleik af að heyra. Þar gat ég um samanlagða orkuvinnslugetu Norðurlandsvirkjana og virkjana á núv. svæði Landsvirkjunar, og ég gat þess, að árið 1978 væri umframorkugeta þeirra virkjana, sem nú eru komnar í gang, þar með talin Sigölduvirkjun, á þessu svæði samtals 82 gwst., en 1979 yrði hún 134 að meðtalinni Kröflu, sem þá yrði þar með að vera komin í gagnið. Án Kröflu yrði orkuskortur. Vitanlega segir þetta ekki nokkurn skapaðan hlut um það, að Krafla geti ekki verið komin fyrr í orkuframleiðslu. Ég sagði ekkert um það. Ég efast persónulega um að það geti orðið 1976, og met það fyrst og fremst af þeim langa afgreiðslufresti, sem er á vélum. Ég held, að 1977 sé það fyrsta, og það væri ágætt, ef hún yrði tilbúin 1977.“

Þm. heldur áfram:

„Ég get fullyrt, þó að aðrir geti betur um það upplýst, að af hálfu stjórnvalda er ekki nokkur minnsta tilraun gerð til þess að tefja þetta mál, enda trúi ég því satt að segja ekki, að hv. þm. hafi mælt það af alvöru frekar en flest annað, sem hann lét sér um munn fara hér í þessari deild um þetta mál. Það er unnið að þessu af öllum þeim krafti sem hægt er. Það verður borað í sumar. Ákveðið er, hvaða bor það verður, og það er unnið að kaupum á nýjum jarðbor til landsins. Það er vitanlega orðið langtum meiri spenna í þessu heldur en áður var, það vita allir, vegna þeirrar skyndilegu olíuhækkunar, sem orðin er um heim allan. En það hafa einnig verið veittar meiri fjárveitingar til slíkra framkvæmda en áður hefur þekkst í okkar landi, og ég veit, að þeir sérfræðingar, orkumálastjóri og hans menn og aðrir, vinna að þessu máli með forgangshraði, ef ég má orða það svo, með þeirri þekkingu og þeim krafti, sem þeir geta. Þetta hefur verið upplýst í viðræðum við orkumálastjóra, svo að allar fullyrðingar um allt annað eru úr lausu lofti gripnar, eins og það, sem hann hefur látið sér fleira um munn fara, m. a. fsp. í síðustu viku utan dagskrár.“

Það var unnið að Kröfluvirkjun og undirbúningi þeirrar virkjunar með forgangshraði löngu áður en Kröflunefnd, sú auma nefnd, kom nálægt þessu máli.

Enn vildi ég-með leyfi hæstv. forseta-halda áfram og vitna í þessa sömu ræðu Steingríms Hermannssonar. Þar stendur orðrétt:

„Sem sagt, ég vildi fyrst og fremst leiðrétta, að í þessu felist nokkur tilraun til þess að fresta Kröfluvirkjun, alls ekki, og ég vil sömuleiðis enn ítreka það, sem fram kom í umr. við orkumálastjóra, að meðferð þingsins á þessu hefur ekki á nokkurn máta tafið þetta mál. Ég vil benda hv. þm. á að tala við flokksbróður sinn, hv. þm. Ingólf Jónsson, um þetta, sem sagði á fundi nýlega, að raunar mætti helst gagnrýna þetta frv. fyrir það að sækjast eftir heimild til virkjunar, áður en nauðsynlegum rannsóknum væri lokið, því að venjulega ættu rannsóknir að vera á undan og heimildin síðan að koma á eftir. Það var hins vegar vilji stjórnvalda að gera þetta á þennan máta, til þess að þarna þyrfti engin töf á að verða og panta mætti vélar þegar á næsta hausti, jafnvel áður en þing kemur saman að nýju.“

Þetta er hugarfarið í Alþ. 20. mars 1974. Og ekki heyrist aukatekið orð frá einum einasta þm. Alþfl. um að fara nú að með gát, ekki spurt eftir því, ekki ýjað að því að spyrja um rekstrarlán eða kostnað né minnsta aðvörun um að fara nú að með gát. Mann furðar, eftir allt sem á eftir er gengið, hvað hefur þarna verið á ferðum. Voru mennirnir svona hlaðnir af dópi — eða hvað var að?

Af því, sem ég hef þegar lesið, vona ég að hv. alþm. skiljist, að það, sem fyrst og fremst réð verkunum, var almenn sannfæring þingsins um að þarna væri málefni sem þyrfti að leysa og þyrfti fyrst og fremst að leysa fljótt. Og aðaláhyggjurnar, sem menn höfðu, voru einmitt að afgreiðslufrestur á vélum gæti orðið of langur og tafið fyrir. Þá ske þau ósköp, að persónan Jón G. Sólnes lendir inni á þingi, kemur sem varamaður fyrir Lárus Jónsson, þáv. þm., sem átti sæti í Nd., og einhverra hluta vegna hefur hann áhuga á þessu máli og tekur til máls. Og nú skal ég lesa upp úr þeim orðum sem ég sagði í sambandi við þetta mál. Það er 27. mars 1974 sem þær umr. fara fram.

Ég byrja á því að láta í ljós áhuga minn á því, að Laxárvirkjunarstjórn verði falið að vera framkvæmdaaðili í sambandi við þetta mál. En af því að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var að vísa til ummæla minna í þessu, þá vildi ég gjarnan að það kæmist til skila að hann sleit þau úr samhengi. Orðrétt sagði ég, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir því sem ég tel heppilegast, þá held ég og hef nokkurn grundvöll til að byggja á um það, að slíkar stöðvar sem þessar sé hægt að fá fullhannaðar hjá erlendum aðilum. Það eru margir framleiðsluaðilar, t. a. m. á Ítalíu, sem taka að sér að hanna algerlega slík verk sem þessi frá byrjun og gera tilboð í þau. En a. m. k. vildi ég leggja áherslu á eitt, sem er aðalatriðið í þessu máli, en það er, að nú þegar sé hafist handa að koma pöntun á vélum í væntanlega gufuvirkjun í svokallaða afgreiðsluröð með pöntun á nauðsynlegum vélakosti. Það tekur óskaplega langan tíma að afgreiða vélar og öll tæki, sem þarf til virkjunar sem þessarar, og það er engin áhætta tekin, þó að þeirri framkvæmd verði komið á að koma okkur í svokallaða afgreiðsluröð. Ég er svo bjartsýnn á, að ef vel tækist til um að tilnefna framkvæmdaaðila að þessu verki, þá ætti verkið ekki að taka lengri tíma en svo, að það ætti að geta haldist í hendur, að þegar afgreiðsla liggur fyrir á vélum og tækjum, þá sé annað til frá okkar hendi hér innanlands.“

Þessi ummæli mín byggjast á því, að samkv. frv., sem er til umr., er ráðgert að fela Norðurlandsvirkjun eða einhverjum öðrum aðila framkvæmdir í þessu máli, og með þessu er ég að benda á að nauðsynlegt sé til þess að verða við þeim almenna vilja sem ríkir innan þingsins um afgreiðslu þessa máls og koma því í framkvæmd, að tilnefna einhvern framkvæmdaaðila, a. m. k. til bráðabirgða, til þess að hægt sé að hefja nauðsynlegan undirbúning í sambandi við þessa fyrirhuguðu virkjun. Og ég enda þessi fáu orð — þetta er ekki löng ræða, — með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Sem sagt, ég styð þetta frv. heils hugar, en vildi beina þeim tilmælum til þeirrar hv. n., sem fær málið til afgreiðslu, að leggja ber umfram allt áhersluna á, að byrjunarframkvæmdum verði flýtt eins og fært er, þannig að það verði ekki farið að deila um keisarans skegg, um það, hver eigi að vera framkvæmdaaðilinn, en við getum fundið einhvern þann aðila, sem hefði það til samkomulags að verða kallaður bráðabirgðaaðili, til að hefjast nú handa um nauðsynlegar byrjunarframkvæmdir hið allra fyrsta. Það skiptir höfuðmáli.“

Enn langar mig til — með leyfi hæstv. forseta — að fá að vísa til umr. Sama dag segir þáv. hæstv. heilbr.- og trmrh., Magnús Kjartansson:

„Ég held, að það sé ákaflega nauðsynlegt að reyna að þoka málum þannig, að landsfjórðungurinn allur telji sig hafa hag af myndarlegri framkvæmd og landsfjórðungurinn allur eigi þá lýðræðislega aðild að slíkri framkvæmd. Um hitt er ég alveg sammála hv. þm. Jóni Sólnes, að framkvæmdatöf á þessu skipulagi má ekki verða til þess að draga úr þeim undirbúningshraða, sem hafa þarf til þess, að þessi virkjun geti sem allra fyrst komið að gagni. Og ég skal vissulega huga að því að reyna að finna leiðir til þess, að hægt sé að flýta þeim framkvæmdum, þannig að þær tefjist ekki, þó að ekki verði endanlega búið að ganga frá Norðurlandsvirkjun. Eftir að þetta er orðið að lögum hér á Alþ. og heimildin er komin, er hægt að fara að hefja ýmsan undirbúning„.ég mun fyrir mitt leyti reyna að beita mér fyrir því, að á þessu verði hafður sem mestur hraði, eins og hv. þm. Jón Sólnes lagði áherslu á.“

Þetta voru ummæli hæstv. þáv. orkumálaráðh. Þó að leitað sé með logandi ljósi í öllum umr. á hv. Alþ. vorið 1974, þegar var verið að afgreiða þetta mál, þá finnast engin ummæli hæstv. þáv. orkumálaráðh. um að þessa virkjun ætti að vinna í smáskrefum.

Afskiptum mínum af þessu máli við þessa meðferð í þinginu var ekki lokið. Með leyfi hæstv. forseta verð ég að fá að vísa til umr. 4. apríl. Jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall er til 2. umr. í Nd. Og nú kemur orðrétt:

„Jón G. Sólnes: Herra forseti. Það hefur fallið í minn hlut í fjarveru frsm. n., Jónasar Jónssonar alþm., að mæla fyrir nál. frá iðnn. í sambandi við þetta frv. N. ræddi þetta á fundi og hefur verið sammála um að gefa út svo hljóðandi nál.:

N. hefur athugað frv. og mælir með samþykkt þess óbreytts, eins og það er á þskj. 292 og 549.

ATKVGR.

1. gr. samþ, með 23 shlj. atkv.

2.–6. gr. samþ. með 24 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frv. vísað til 3. umr. með 22 shlj. atkv.

Og þá var þætti Jóns Sólness lokið á þessu þingi af þessu dekurbarni hans.

Enn verð ég að reyna á þolinmæði manna og með leyfi hæstv. forseta verð ég að fá að vísa til umr.: „Neðri deild 101. fundur.

Fimmtudaginn 4. apríl, að loknum 100. fundi. Jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall, frv. (þskj. 549). — 3. umr.

Of skammt var liðið frá 2. umr. — Afbrigði samþ. með 28 shlj. atkv.

Enginn tók til máls.

ATKVGR.

Frv. samþ. með 33 shlj. atkv. og afgr. sem lög frá Alþ. (þskj. 607).“

Geta menn ekki verið sammála mér um það, að miðað við alla þá meðferð, sem þetta virkjunarmál við Kröflu fær í meðförum á þessu háa Alþ., hafi menn sannarlega verið innilega sammála? Það voru ekki úrtölurnar. Þetta flýgur í gegn með afbrigðum. Menn voru allir svo innilega sammála um að það eina, sem okkur vantar, væri tími. Það eina, sem menn voru sammála um að hafa áhyggjur af, var að tíminn væri of naumur til þess að geta leyst úr því hroðaástandi sem ríkti á orkumarkaðinum á orkusvæði Laxárvirkjunar og okkar Norðlendinga. Og ég held að það sé ekkert ofsagt af öllum þeim ábendingum og öllu því samráði sem haft var við ráðandi menn hjá Orkustofnun, alla vísindamennina, að það hafi verið samhljóða álit þeirra allra og hjá þeim ríkt fyllsta bjartsýni með að þarna væri óhætt að fara af stað. Og þegar núv. hæstv. ríkisstj. var sett á laggirnar í ágúst 1974 var það einmitt eitt ákvæðið í stjórnarsáttmálanum að fullgerð skyldi rafmagnsvirkjun á Norðurlandssvæðinu. Hún var ekki nefnd Kröfluvirkjun, en allir vissu við hvað var átt. Það stóð í stjórnarsáttmálanum að ljúka ætti við þessa virkjun.

Og mig langar til að benda á að hæstv. þáv. orkumálaráðh., Magnús Kjartansson, lét ekki standa við orðin tóm. Eitt af hans síðustu embættisverkum sem orkumálaráðh. þessa lands var að skipa svokallaða Kröflunefnd, af því að hann vildi ekki skiljast svo við ráðherrastólinn að hann væri ekki búinn að ganga frá því, að kominn væri á stofn einhver ábyrgur bráðabirgðaaðili, sem ætti að sjá um nauðsynlegan undirbúning framkvæmda að Kröfluvirkjun. Og nú langar mig til að spyrja: Er einhver af hv. alþm., er einhver, sem er á áheyrendapalli, þeirrar skoðunar, að það hafi verið af kærleiksfúsri ást til Jóns G. Sólness að hæstv. þáv. orkumálaráðh. skipaði hann í þessa nefnd? Ég held að enginn sé í vafa um að slíkt hafi ekki verið. Ég held að það hafi ráðið gerðum hæstv. þáv. orkumálaráðh., að honum var mjög umhugað um að reyna að skapa sem besta og víðfeðmasta samstöðu um þann bráðabirgðaaðila sem hann ætlaði að fela undirbúning þessa mikla þarfaverks, sem hann alveg sérstaklega lagði áherslu á að kæmist fljótt í gagnið.

En Kröflunefnd hafði ekki starfað lengi þegar maður varð var við að það var hlaupin einhver fýla í einn af stjórnmálaflokkum landsins. Það fer allt í einu að skjóta upp hinum og þessum títuprjónasendingum í blöðum Alþfl. Byrjuðu í blaði þeirra á Akureyri, sem í almennu talið er kallað „Amen“, hinar og þessar dylgjur, glósur og skætingur í garð okkar Kröflunefndarmanna og þá náttúrlega alveg sérstaklega í garð Jóns G. Sólness. Og hvernig svo sem á því stendur, — ég hef aldrei getað fengið neina skynsamlega skýringu á því, — þá fór þessi fýla og úlfúð síversnandi og vaxandi með hverju árinu sem leið og á seinni tímum með hverjum mánuði, viku og degi. Það var allt talið ómögulegt, allt óábyrgt, allt fjas og allt glapræði. Og það var ekki hægt að velja. Allt byggðist þetta á einhverri óráðsíu. Mönnum var brigslað um mútuþægni og kallaðir öllum illum nöfnum. Það mundi taka marga klukkutíma, og ég er ekki viðbúinn því og ég mundi ekki hafa vilja til þess, að fara að lesa upp í hinu háa Alþ. allt það skítkast, sem birst hefur á prenti í blöðum Alþfl. í sambandi við þetta mál.

Kröflunefnd taldi sig vera að gera skyldu sína með því að reyna að búa að málum í sem fyllstu samræmi við það erindisbréf, sem henni hafði verið fengið, og reyndi af fremsta megni að haga svo störfum sínum, að hún gæti uppfyllt þá meginkröfu, sem til hennar var gerð, og hún var sú, að þessi virkjun gæti komist sem fyrst í gagnið. Hvert var svo fyrsta verk Kröflunefndar? Fyrsta verk Kröflunefndar var að reyna að fá sér þá hæfustu hönnuði sem völ væri á í sambandi við þessa framkvæmd. Hér var um frumframkvæmd að ræða í þjóðfélagi okkar og okkur var öllum ljóst, sem skipuðum Kröflunefnd, að ákaflega mikið riði á því, að vel tækist til um þessa fyrstu brautryðjendaframkvæmd á því sviði að virkja jarðgufu í stórum stíl. Það varð úr, að gerður var hönnunarsamningur við íslenskt fyrirtæki, sem vann í nánu sambandi við amerískt fyrirtæki, sem við vorum búnir að afla okkur upplýsinga um hjá aðilum sem við höfðum ástæðu til þess að treysta að væru þess umkomnir að segja rétt álit á málinu og taldir sérlega hæfir sem hönnunaraðilar við slíka framkvæmd sem við vorum að vinna að. Og ég vil til upplýsingar geta þess, að einn af aðalforstjórum þessa fyrirtækis, þessa erlenda fyrirtækis, sem Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens valdi sér til samstarfs, hr. Kuwada, er mjög fær og menntaður verkfræðingur einmitt á þessu sviði. Er hægt að sanna það með því, að hann var valinn í framkvæmdanefnd á alþjóðaráðstefnu sem Sameinuðu þjóðirnar stóðu að um jarðgufuvirkjanir og haldin var í San Francisco í maímánuði 1975. Var ráðstefnan sótt af mjög mörgum þjóðum heims og kannske var tiltölulega fjölmennust sendinefnd okkar Íslendinga. Við teljum því að ekki hafi verið í kot vísað þegar við vorum að velja þessa aðila okkur til ráðgjafar.

Ég get í þessu sambandi upplýst að ákvarðanir um allar framkvæmdir, hverju nafni sem nefnast, hafa ekki verið teknar af Kröflunefnd nema fyrst hafi verið fjallað um þau mál af þessum ráðgefandi aðilum. En hins ber náttúrlega að geta, að vegna þess skamma tíma, sem var vissulega til stefnu, varð okkur öllum ljóst að það varð að standa að þessu að mörgu leyti með öðrum hætti en við hefðum kosið ef við hefðum ekki haft of skamman tíma til umráða. En það fullyrða þó margir sem hafa mjög góða þekkingu á þessum málum, að samningar þeir, sem Kröflunefnd gerði um kaup á vélbúnaði og tækjum til þessarar virkjunar, hafi verið mjög góðir og hagstæðir. Hugleiðingarhv. þm. Sighvats Björgvinssonar um að þetta hafi verið einhverjar vandræðavélar, sem einhver einræðisherra og fjölskylda á Filipseyjum hafi þurft að losna við, held ég að hafi við lítil rök að styðjast.

Ég verð nú að segja það, að þegar sá ágæti þm. var með hugleiðingar sínar um vandræði Filipseyinganna, að þeir hefðu þurft að losna við þessi tæki sín, þá fannst mér eiginlega ekkert vanta í ræðu hv. þm. annað en að einhvers staðar hefði Sólnesfjölskyldan verið tengd forseta Filipseyja, þessari Marcos-fjölskyldu, þannig að hann hefði nú getað komið því einhvern veginn að. Og af því að hv. þm. og öðrum Alþfl.-mönnum hefur verið svo tamt að reyna að tengja Sólnesfjölskylduna við allar þessar Kröfluframkvæmdir —og þetta eru að mínu mati mjög hæfir og góðir menn sem skipa Alþfl. og mér er annt um þá, — þá held ég að ég verði að koma honum svolítið til hjálpar og bæta við allar þær upplýsingar sem þeir hafa raunar aflað sér, því að ég get bætt svolitlu við fyrir þá.

Hv. þm. minntist á einn aðilann sem hefði fengið verkefni við Kröflu, og hann hefur gert því ákaflega góð skil. Það fyrirtæki heitir Rafafl, samvinnufélag rafverktaka. Það er búið að gefa í skyn að við í Kröflunefnd hefðum einhvern veginn getað komið aurum í gegnum Rafafl handa þeim til þess að kaupa fasteign hérna í bænum. En viti menn, Sólnesfjölskyldan kemur víða við. Fyrir tveimur eða þremur dögum var mér sagt, að einn er maður í stjórn Rafafls, samvinnufélags rafverktaka, sem heitir Einar Kristinsson. Nú mundi einhver segja: Hvað kemur Einar Kristinsson Sólnesfjölskyldunni við? Jú, bíðið þið svolítið rólegir. Ég held nú meira en það. Þessi Einar Kristinsson — ég vil upplýsa hv. Alþfl.-menn sem hér eru inni — er bróðir Margrétar Kristinsdóttur sem er skólastýra við Húsmæðraskólann á Akureyri, og sú ágæta kona er tengdadóttir mín. Hún er gift Gunnari Sólnes hdl. á Akureyri. Finnið þið ekki lyktina af þessu? Þarna komust þið í feitt. Segið svo að Jón G. Sólnes sé ekki vel uppalinn í kristilegu hugarfari og líferni og elski ekki óvini sína og geri þeim gott sem honum bölva.

Hv. ræðumaður, Sighvatur Björgvinsson, gerði mikið úr því hvernig við í Kröflunefnd hefðum staðið að skuldbindingum í sambandi við kaupin á vélum og búnaði. Það er alveg sama hvernig það yrði skýrt og hversu menn séu sér þess vel meðvitandi, að við fylgdumst með væntanlegri skýrslu Orkustofnunar, sem hún gaf í febr. 1974, jöfnum höndum og hún var samin. Og þetta fræga „letter of intent“, sem hv. ræðumaður, Sighvatur Björgvinsson, minntist á, sem gefið. var út 7. febr., sem hann sagði að hefði verið skuldbindandi fyrir nefndina og ekki hefði hlotið samþykki ríkisstj. fyrr en 10. apríl,— ég vil upplýsa að fyrr greint kauploforð var gefið út með þeim fyrirvara, að samþykki ríkisstj. Íslands, — það var ekki samþykki eins rn., heldur samþykki ríkisstj. Íslands, — svo og seðlabanka landsins fengist fyrir þessu kauploforði. Fyrr tók það ekki gildi gagnvart seljanda vélbúnaðarins. Þannig var frá þessum málum gengið.

Andstæðingar Kröfluvirkjunar fengu ágætan liðsmann sem var eldgosið 20. des. 1975. Ég verð að segja það, — og hef þá fyrir mér ummæli eins ágæts vinar míns sem býr á þessu umbrotasvæði, að í landi okkar, sem er fyrst og fremst eldfjallaland og af þeim ástæðum gefur möguleika á að afl er til ráðstöfunar þar sem jarðgufan er, — að það má kannske út af fyrir sig segja að það sé áhætta sem þjóðin tekur á hverjum tíma. Öllum er kunnugt um að allar stærstu virkjanir landsins eru á umbrotasvæðum, og jafnvel þessi staður, sem ég stend nú á, skilst mér að sé á gömlu umbrotasvæði. Hitt skal svo fúslega viðurkennt, að af því að þetta svæði hafði verið kyrrt í s.l. 250 ár hefði komið sér betur fyrir okkur, a. m. k. þessa aumingja sem eru í Kröflunefnd, að það hefði verið kyrrt næstu 10 árin.

Ég veit það ekki, það getur vel verið að það sé ósanngirni, en einhvern veginn finnst mér sem leikmanni að ef ég hefði haft til umráða þá ágætu menntun sem okkar frábæru vísindamenn eiga á sviði jarðvísinda og jarðvarmaorku, þá hefði ég tilhneigingu til þess að segja að ég tæki eldgosið 20. des. 1975 sem sendingu af himnum ofan, sem verðugt verkefni fyrir mig til þess að nota menntun mína og hæfni til þess að bregðast við á sem hagkvæmastan hátt fyrir þjóðina þegar vandræði sem þessi steðjuðu að henni. Ég er ekki menntaður maður og ekki langskólagenginn, en ég hef komið inn fyrir dyr Háskóla Íslands, og vissulega þykir mér sem Íslendingi vænt um að við skulum eiga jafnágæta stofnun og Háskóli Íslands er. Þegar maður kemur þar inn fyrir dyr, standa stórum stöfum kjörorð Háskóla Íslands, sem eru, ef ég fer rétt með: „Vísindin efla alla dáð.“ En ég verð að segja, að dáðlausari ræfla heldur en suma af vísindamönnum þjóðarinnar, sem hafa verið að fást við verkefni uppi á Kröflusvæðinu, hef ég ekki hitt. Og ég held að ef við hefðum ekki átt dugmeiri einstaklinga í þjóðfélagi okkar á tímum þeirra þrenginga, sem gengið hafa yfir íslenska þjóð frá örófi alda til að bjarga okkur yfir hörmungar og erfiðleika en virðast vera margir af þessum svokölluðu vísindamönnum sem þarna hafa verið að verki, þá hefði orðið lítið úr framsóknaranda í öllu því sem við höfum brotist í gegnum. Það hefði orðið lítið um þá sigra, sem við höfum unnið á harðgerum náttúruöflum, og lítið orðið úr þeim sigrum, sem við höfum unnið undir hinum erfiðustu kringumstæðum.

Nei, það virðist vera svo, að það hafi verið seiglan, þessi meðfædda seigla alþýðunnar, sem kannske háfi dugað okkur hvað best. Og ég verð að segja um allt það mikla fjaðrafok, sem hefur verið í sambandi við framkvæmdirnar við Kröflu, að ég er stoltur af því. Ég er Vestfirðingur að ætt. Ég er alinn upp á fátæku sjómannsheimili þar sem ekki var atvinna nema part úr árinu, þar sem það dugði að bjargast af litlu. En þar var alltaf ríkjandi nógu mikið dugnaðaratgervi og umfram allt trú á það, að með þolgæði og árvekni og æðruleysi væri hægt að komast áfram í lífinu. Ef við tökum með því hugarfari á þeim erfiðleikum, sem við er að etja á hverjum tíma, og ef við tökum með slíku hugarfari á þeim erfiðleikum, sem hefur verið og á eftir að stríða við í sambandi við Kröfluvirkjun, þá er ég ekki í nokkrum vafa um að vel muni til takast. Það er spá mín, þrátt fyrir það að hér eigi eftir að verða mikið raus og mikilli prentsvertu verði eytt í að skamma og svívirða þá aðila sem staðið hafa fyrir framkvæmdunum við Kröflu, að þá eigi eftir að renna upp sá tími þegar í framtíðinni verður farið að glugga í allt það moldviðri sem búið er að þeyta upp í sambandi við þetta mál, að hvað erfiðast eigi menn með að skilja hvað eiginlega hafi verið að ske, hvað hafi valdið þessu, þegar Kröfluvirkjun verður búin að veita þjóðinni orku, birtu og yl um áratugi — og það gerir hún áreiðanlega.