10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

318. mál, verðlag

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Það skort dálítið á það að hv. fyrirspyrjandi og hæstv. ráðh, gerðu grein fyrir orsökum þessa máls.

Það var svo í tíð fyrrv. ríkisstj. að í árslok 1972 blöstu við líkur á efnahagsvandkvæðum, og það leiddi til þess að fulltrúar stjórnmálaflokksins Samtaka frjálslyndra og vinstri manna báru fram þá till. í ríkisstj. að gengið yrði fellt af þessum sökum. Það var vitað að þessi hugmynd var runnin undan rifjum forustumanna í þessum samtökum, sem aldrei höfðu viljað taka þátt í fyrrv. ríkisstj. og vildu hana feiga, eins og síðar kom greinilega í ljós. Þeir ætluðust til að við ráðh. Alþb. tækjum þetta svo óstinnt upp að við slitum stjórnarsamvinnunni. Við lýstum andstöðu við þessa ráðstöfun, gengislækkunina, í árslok 1972, en við vildum ekki slita stjórnarsamvinnunni því að við töldum hana miklu mikilvægari en það mál.

Það kom í ljós næstu mánuði á eftir, að þessi ráðstöfun hafði verið ekki aðeins óþörf, heldur algerlega röng. Verðlag á íslenskum útflutningsvörum fór hækkandi, og það kom í ljós snemma á árinu 1973 að forsendur voru fyrir sjávarútveginn til þess að hækka gengið. Það er kannske ástæða til þess að rifja það upp hér á hinu háa Alþ. að gengið var hækkað snemma árs 1973. Það er í eina skiptið sem það hefur gerst síðan núverandi verðbólguþróun hófst á árum síðustu heimsstyrjaldar. En það varð ljóst þá að þetta kæmi útflutningsiðnaðinum í vanda því að hann hafði ekki notið sömu verðhækkana á erlendum mörkuðum og afurðir sjávarútvegsins. því var farið í það að tryggja útflutningsiðnaðinum jafnrétti.

Iðnaðurinn á Íslandi býr við það kerfi að þurfa að greiða meiri söluskatt en aðrir. Hann verður að greiða söluskatt af mörgum aðföngum sínum og auk þess söluskatt af heildarupphæðinni að lokum, þannig að þarna verður um hærri upphæð að ræða en í annarri framleiðslu. Þetta takmarkar að sjálfsögðu mjög getu iðnaðarins til útflutnings. Ég man eftir því, að þáv. hæstv. fjmrh. átti dálitið erfitt með að átta sig á þessu á þeim tíma og taldi sig verða að halda í þá upphæð sem þarna var um að ræða, en eftir nokkrar umr. tókst að sannfæra hann um að það væri hagur fyrir ríkissjóð að sleppa þessari aukaskattheimtu ef það yrði til þess að auka útflutning á iðnaðarvörum og auka þannig gjaldeyrístekjurnar sem gæfu ríkissjóði allmiklu meiri tekjur en þessi aukasöluskattur sem iðnaðurinn varð að borga af útflutningsvörum sínum. Því var farið í það að endurgreiða upphæð sem var talin jafngilda þessari aukagreiðslu útflutningsiðnaðarins af iðnaðarframleiðslu. Þessi upphæð nam árið 1973, ef ég man rétt, um 37 millj. kr. og á árinu 1974 um 50 millj. En það var raunar hægt, eins og fram kom áðan, að endurgreiða þennan aukasöluskatt 1. sept., eftir að ný ríkisstj. hafði verið mynduð, því að hæstv. núv. iðnrh. hefur haft það sem fasta mælistiku að haga öllum málum helst eitthvað öðruvísi en fyrirrennari hans. Það tókst að knýja fram endurgreiðslu fjóra mánuði fyrir árið 1974, en síðan hefur þessi baggi legið á íslenskum útflutningsiðnaði: það er innheimtur af honum meiri söluskattur en af öðrum, og þetta takmarkar að iðnaðurinn geti tryggt sér markaði erlendis.

Ég tel þetta vera mikið alvörumál. Þarna er um að ræða, eins og fram kom í ræðu hv. fyrirspyrjanda, yfir 500 millj. kr. árunum 1975–1977, og það er upphæð sem munar um þegar iðnaðurinn er að reyna að brjótast inn á markaði erlendis. Þetta er iðngrein sem allir alþm. þykjast hafa áhuga á. En ef þannig er búið að henni að torvelda að hún geti framleitt til útflutnings, þá er verið að tefja óhjákvæmilega og eðlilega þróun hér á Íslandi.