05.05.1978
Sameinað þing: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4591 í B-deild Alþingistíðinda. (3930)

328. mál, Kröfluvirkjun

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég hef ekki tekið þátt í umr. á hv. Alþ. um Kröfluvirkjun undanfarið. Ég hef ekki gert það, því að mér hafa þótt þær umr. á satt að segja heldur lágu plani. Mér hafa þótt þær umr. einkennast annars vegar af því, að reynt hefur verið að finna einhvern sökudólg, einhvern til að hengja, ef ekki hv. þm. Jón Sólnes, þá hæstv. iðnrh. eða þá hæstv. ríkisstj., eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. áðan.

Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, Jóni Sólnes, að 1974 voru allir hér á þingi sammála um að rétt væri að ráðast í virkjun Kröflu. Það var ég. Ég fagnaði því árið 1974, að ákveðið var að ráðast í gufuvirkjun, og ég fagna því enn. Ég er enn þeirrar skoðunar sem ég var þá, og raunar veit ég að jarðgufa landsins er ein okkar mesta orkulind. Við hljótum að nýta þá orkulind, og raunar tel ég að við hefðum fyrr átt að ráðast í slíka framkvæmd.

Ég verð hins vegar að segja það, að ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram. Þegar fsp. komu fram frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um Kröfluvirkjun, þá var ég ákveðinn í því að taka til máls, en ég hvarf frá því þegar ég hafði lesið skýrsluna. Mér fannst skýrslan vera hlutdræg og ekki þannig úr garði gerð, að auðvelt væri að byggja á henni ákveðnar niðurstöður, ekki þannig að auðvelt væri að læra af rannsóknum sem orðið hafa við þessa meginframkvæmd á sviði orkuöflunar með jarðgufu.

Nú hefur hins vegar orðið svo í kvöld, að töluvert er vísað til þess sem ég sagði 1974, svo að mér þykir ég varla geta setið þegjandi hjá. Það er allt saman rétt eins langt og það nær. Ég sagði þá að ég fagnaði því að ráðist væri í slíka virkjun, og ég sagði áðan og ég endurtek það, að ég geri það enn. Ég sagði hins vegar þá, að ég teldi ekki ástæðu til að hraða þessari virkjun svo mjög sem fram kom í grg. með því frv. sem þá var lagt fyrir, m. a., eins og ég hygg að ég hafi orðað það, vegna þess að ég efaðist um að afgreiðslutími gæti orðið svo stuttur og reyndar fleira. Og í ræðum, sem ég flutti svo í Ed. með nál. um þessa framkvæmd, rakti ég nokkuð, eins og hér hefur reyndar komið fram, orkuspá sem þá var í vinnslu, og ég taldi ekki þörf á Kröfluvirkjun fyrr en 1979 og þá að sjálfsögðu ekki nema annarri vélinni og seinni vélinni 1980–1981. Þetta eru staðreyndirnar um það sem ég sagði þá. Ég fagnaði því, að ráðist var í þessa virkjun, en ég varaði við þeim hraða, sem mér sýndist ráð fyrir gert, og gerði mér grein fyrir því einnig, að rannsóknir á svæðum sem þessum eru ákaflega umfangsmiklar og margt getur komið í ljós sem óljóst er eftir nánast yfirborðskönnun sem þarna hafði verið framkvæmd.

En í raun og veru finnst mér allt þetta vera heldur tilgangslítið að rifja upp. Spurningin er náttúrlega sú, hvað við getum lært af — ég vil leyfa mér að segja: þeim mistökum sem þarna hafa orðið, því að þarna hafa að sjálfsögðu orðið mistök, ég held að enginn efist um það. Og þegar ég ræði um mistök er ég ekki að tala um gosið. Það er náttúrlega fásinna, eins og mér sýnist stundum vera gert, að kenna Kröflunefnd, Jóni Sólnes eða Ingvari Gíslasyni um gosið. Ég mun ekki einu sinni minnast á það meira. Ég vil ræða um Kröfluvirkjun sem framkvæmd við eðlilegar aðstæður. Ég ætla sem sagt ekki að standa hér og áfellast einn eða neinn, hvorki Jón Sólnes, Kröflunefnd, Orkustofnun, Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens né Rogers Engineering og hvað þeir heita. Mig langar aðeins til þess að fara nokkrum orðum um það, hvernig framkvæmd var háttað.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að Alþ. heimilaði þessa virkjun 1974. Alþ. er síðan oft kennt um það sem þarna hefur farið á annan veg en við allir væntum og vonuðum. Kröflunefnd var skipuð af fyrrv. hæstv. ríkisstj. og henni var sagt þá strax að hún ætti að virkja, sem sagt að byggja virkjunina eins fljótt og unnt væri. Þetta liggur skjalfest fyrir. Sama rn., þ. e. a. s. iðnrn., fól Orkustofnun að afla þeirrar orku sem nauðsynleg er til þess að snúa þeim hverflum sem þarna átti að setja upp, og það má nefna að Rafmagnsveitum ríkisins var falið að byggja línur þarna frá, sem kannske skiptir minna máli. Allt var óljóst með rekstraraðila. Talað var um væntanlega Norðurlandsvirkjun í því frv. sem hér var samþykkt. Hvað getum við í raun og veru af þessu lært?

Ég held í fyrsta lagi, að það sé ákaflega vafasamt fyrir Alþ. — og það eru mín mistök engu síður en allra annarra sem hér eru inni, að veita heimild til virkjunar áður en meiri rannsóknir liggja fyrir. Ég vil ekki kenna Alþ. beinlínis um þetta þó. Við treystum því sem á eftir kæmi, að þess yrði gætt, en ég held að við eigum í fyrsta lagi að hafa ljóst, þegar við samþykkjum slíka virkjunarheimild, og skiptir engu máli hvort það er Blanda, önnur Krafla, Hengill eða hvað það er, að ítarlegar grundvallarrannsóknir liggi fyrir. Þetta er það fyrsta sem ég vil af þessu læra.

Í öðru lagi held ég að það verði að liggja ljóst fyrir, hver á að reka slíka virkjun, hver á að selja orkuna frá slíkri virkjun. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég er sannfærður um að t.d. Kröflunefnd hefur unnið af mikilli samviskusemi að þessari virkjun og gert það sem hún þekkti best. En hún var ekki ábyrg fyrir sölu orkunnar frá þessari virkjun. Henni var bara falið að virkja eins fljótt og unnt væri. En er nokkuð vit í því? Það á ekki að virkja hraðar en unnt er að selja orkuna: Engar áætlanir voru fyrirliggjandi þá um að byggja orkufrekan iðnað fyrir norðan. Rætt var um norðurlínu. Búið var að ákveða að virkja Sigöldu, og eins og ég rakti í framsöguræðu með nál. lá ljóst fyrir að Sigalda átti að fullnægja orkuþörf landsins fram til 1979. Þetta er annað sem mér finnst við geta lært. Við eigum að gera okkur grein fyrir því, hver á að reka slíka virkjun, hver á að selja orkuna.

Og í þriðja lagi vil ég segja, að ég held að það sé ákaflega mikilvægt í öllum slíkum stórum framkvæmdum að þær annist aðili með víðtæka reynslu. Ég er alls ekki með þessu að segja að þeir verkfræðingar, sem þarna komu við málin, Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens, Rogers Engineering o. s. frv., hafi ekki víðtæka reynslu út af fyrir sig, en ég held að heildarábyrgð á slíkri framkvæmd verði að vera í höndum aðila sem hefur víðtæka reynslu, aðila sem einnig á að reka slíkt orkuver, á að selja orkuna. Eins og ég sagði áðan, þá var aðeins um það talað að væntanleg Norðurlandsvirkjun væri eðlilegur aðili til þess að starfrækja slíka virkjun, ef á fót yrði sett. Ég tel að það hafi verið mikil mistök hjá okkur hér að ganga ekki betur frá þeim þætti áður en ákveðið var að ráðast í slíka virkjun, — virkjun sem er brautryðjendastarf og mjög mikilvægt og áríðandi að vel takist. Ég álít að slíkur aðill eigi að hafa alla ábyrgð á byggingu virkjunarinnar og rekstri á eftir. Hann á að hafa alla tauma í sinni hendi. Ég álít að það hafi verið skakkt að fjármagna annars vegar byggingu orkuversins sérstaklega, kaup vélanna á ég þar að sjálfsögðu við með byggingu orkuversins, og hins vegar borun. Ég held að þetta hefði átt að fjármagnast allt í gegnum einn ábyrgan aðila, sem annaðist framkvæmdir og sæi um rekstur. Þetta kemur átakanlega fram í því ástandi, sem nú er hjá Orkustofnun, og ég get tekið undir það sem hér hefur verið sagt um það. Orkustofnun tók við þessu sem sérstökum samningi sem átti að fjármagnast fyrir utan hennar eðlilega rekstrarfjármagn — fjármagn sem við höfum ákveðið til þeirrar stofnunar til annarra framkvæmda, til ýmiss konar rannsókna. Framkvæmdin fór langt fram úr áætlun, e. t. v. að einhverju leyti vegna mistaka hjá Orkustofnun, en áreiðanlega að verulegu leyti vegna náttúruhamfara sem þarna urðu og engum er hægt um að kenna, engan hægt að hengja fyrir, a. m. k. sem við náum til. Mér verður ljóst, að þarna hafa orðið enn ein mistök, mistök okkar og mistök þeirra sem hlutu þá heimild sem við samþykktum hér.

Mér finnst þannig, að það sé í raun og veru ákaflega margt og mjög mikilvægt af þessum framkvæmdum að læra. Hvernig ætlum við að standa að slíkum málum á næstunni? Vitanlega er það einnig stórt mál út af fyrir sig, hvað á að gera nú. Þó finnst mér það næstum því vera aukaatriði hjá hinu, hvernig við eigum að haga okkur í framtíðinni, því að við hljótum að halda áfram virkjun þessarar mikilvægu orkulindar okkar, jarðgufunnar. Ég vil þó segja það, að persónulega er ég þeirrar skoðunar að við eigum að hinkra aðeins við. Nú er búið að leggja línuna norður og við höfum orku fyrir Norðurland fyrst um sinn, að vísu ekki lengi, en mér sýnist ákaflega óljóst í raun og veru hvar á að bora núna á næstunni. En ég skal taka það fram og viðurkenna, að þarna tala ég algerlega sem leikmaður og það má vel vera að þeir, sem fróðari eru um þessi atriði, hafi aðrar skoðanir.

Mývatnseldar hafa staðið lengi og þeim er áreiðanlega ekki lokið, og ég held að enginn maður geti sagt fyrir nú, hvar þeir kunna að koma upp næst, og þeir gætu auðveldlega eyðilagt borholur sem við réðumst í nú. Því hygg ég að við eigum að nota þann tíma, sem skapast með byggingu norðurlínu, og fara okkur rólega. Það er raunar engu tapað. Ef við kæmum Kröflu nú í fullan gang svo umframorka yrði í landskerfinu, þá yrði að draga úr Sigölduframleiðslu eða annarri framleiðslu hér sunnanlands og flutningi norður. Ég held að við megum því fara okkur rólega

En eins og ég sagði áðan er þetta nánast aukaatriði. Aðalatriðið finnst mér nú vera það, hvað eigum við að læra, hvaða lærdóm við getum dregið af því sem þarna hefur skeð. Þá vil ég nefna í fyrsta lagi, að slík framkvæmd í orkumálum á að vera á einni hendi í landi okkar alveg tvímælalaust. Öll rök benda til þess, að einn aðili eigi að annast alla meginorkuöflun í þessu landi og sá aðili eigi að selja orkuna til allra landshluta, og ég get bætt við: á jafnaðarheildsöluverði. Við eigum að tryggja að sú reynsla, sem næst í framkvæmd, nýtist bæði við allar okkar framkvæmdir og einnig í rekstri. Í raun og veru held ég að þetta sé það mál sem er langmest aðkallandi fyrir okkur hér á Alþ. nú, að skipa þessum málum betur í framtíðinni en við höfum gert til þessa. Og mér finnst að ótalmargt megi læra af því sem þarna hefur farið úrskeiðis og kannske jafnvel víðar. Ég gæti nefnt aðrar virkjanir, sem ég hef ákaflega litla trú á, sem hafa verið samþykktar og ég held að séu þjóðhagslega vafasamar. Og ég held að ef einn aðili ætti að annast framkvæmdir og sölu á orkunni og skila orkunni á lægsta verði sem hægt er til allra landshluta mundi ekki ráðist í þær. Ég er ekki þar með að segja að við eigum ekki að ráðast í gufuaflsvirkjanir, því að þær geta fallið ákaflega vel inn í nýtingu vatnsafls okkar á ýmsan máta sem ég fer ekki nánar út í hér.

Ég ætla ekki að tala lengi. Mér finnst raunar varla rétt að fjalla lengi um þetta mál svo síðla nætur og undir morgun. Ég harma það, ef niðurstaða af þessari skýrslu og þessari umr. getur ekki orðið lærdómur. E. t. v. ættum við að setja á fót einhverja nefnd til þess að athuga þessi mál öll, ekki til þess að hengja hv. þm. Jón Sólnes, Ingvar Gíslason eða hæstv. ráðh. og ríkisstj., heldur fyrst og fremst til þess að læra af því, sem þarna hefur verið gert, og leggja betri áætlanir um virkjanir í framtíðinni. En ég vil segja það fyrir mitt leyti, að mér finnst að ég hafi lært það af þessu og fleiru slíku, að ég efast mjög um að ég muni standa oftar hér á Alþ. fyrir einskonar óútfylltri ávísun til virkjana fyrir hæstv. ríkisstj., hver sem hún er.

Það er miklu fleira en þetta. Árið 1971 var samþykkt heimild til að virkja Sigöldu og Hrauneyjafoss. Ekki var talað við hv. Alþ. þegar Hrauneyjafossvirkjun var ákveðin. Til hvers á að nota þá orku? Veit það nokkur hér? Það er helst komið til okkar þegar vantar ríkisábyrgðir. Ég held að við hljótum að krefjast þess að einn ábyrgður aðili á landinu hafi allar slíkar framkvæmdir með höndum og þær séu fjármagnaðar í gegnum þann aðila. Ég legg ákaflega mikla áherslu á að við hér á Alþ. fáum að sjá langtímastefnu í orkumálum. Hvað ætlum við að gera með orku okkar? Við eigum töluvert mikla orku. Við höfum ekki nýtt nema svona í kringum 12% af vatnsafli nú og minna af jarðvarma, sem að vísu er óljósara, og þetta getur nýst okkur nokkuð langt fram á næstu öld. En það er út af fyrir sig ekki langur tími. Hvernig ætlum við að nýta þá orku? Ætlum við fyrst að ákveða virkjanir og síðan setjast niður og segja til hvers við eigum að nota þá orku? Þetta höfum við í raun og veru gert. Ég vil að ábyrgur aðili fyrir virkjunum ásamt t.d. Orkustofnun, sem er eðlilegur ráðgjafi ríkisstj., leggi fram till. langt fram í tímann um það, hvernig við eigum að nota þessa orku okkar þannig að þjóðarbúinu nýtist sem best.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Eins og ég sagði áðan, þá var ég satt að segja í vafa um hvort ég ætti að taka til máls um Kröflu, því mér finnst umr. hafa beinst inn á heldur vafasamar brautir. En mér fannst ég ekki geta annað, því töluvert er vitnað til orða minna frá 1974 og allt þar út af fyrir sig rétt, og ég ætti e. t. v. að fagna því, að bæði sækjendur og verjendur, ef ég má kalla þá svo, virðast nota það til sóknar og varnar. Það hljóta að hafa verið nokkuð góð orð, sem ég sagði þá. En þó fannst mér, eftir að svo mikið var til þeirra vitnað, að ég gæti ekki annað en sagt þessi fáu orð.