06.05.1978
Efri deild: 103. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4608 í B-deild Alþingistíðinda. (3938)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Varðandi það sem hv. þm. Ragnar Arnalds sagði hér, þá hefur verið reynt að reikna út eftir bestu getu það sem hann bar hér fram, og það hafa verið reiknaðir einnig teknaliðir eins og hækkun á tekjuskattstiga einstaklinga og félaga. Hins vegar hefur ekki verið reiknaður einn gjaldaliður, sem er frádráttarliður vegna húsaleigu. Þetta eru þau ákvæði sem lúta að framtíðinni. Það er því alveg ljóst að brtt. hans hafa gífurleg áhrif í sambandi við tekjuskattinn í framtíðinni og nánast niðurfellingu á honum. En hitt er svo alveg rétt, að brtt. hans vegna áranna 1978 og 1979 er mjög erfitt að gera sér grein fyrir. Ég vil á engan hátt áætla áhrif af þeim vegna þess að það væri áætlun út í loftið. Þess vegna vil ég ekki leggja neinn dóm á áætlun hans, þótt mér þyki hún nokkuð í hærra lagi. En það er hins vegar ljóst, að ég held að það sé vart raunhæft að gera breytingu á álagningunni núna, 1978. Þessi álagning er þegar hafin og menn eru búnir að skila inn framtölum í stórum stíl, þannig að framkvæmdalega séð held ég að sé vart hægt að hugsa sér að breyta þar um. En ekki meira um það.

Varðandi það, sem hv. þm. Albert Guðmundsson sagði varðandi viðmiðunartekjurnar, þá vil ég taka það fram, að nauðsynlegt þótti að setja sérreglur í sambandi við landbúnaðinn, vegna þess að það er afskaplega erfitt að finna þar viðmiðun. Út af fyrir sig er ekki erfitt að finna viðmiðun hjá skipstjóra á bát, en það hlýtur að vera sá aflahlutur sem honum er reiknaður. Það er ekki heldur eins erfitt að finna viðmiðun, ja, við skulum segja hjá kaupmanni. Það hljóta að vera þau laun sem eru venjuleg og eðlileg við slík störf sem fjöldi manns vinnur við. Svo mætti lengi telja. En hins vegar er það svo í landbúnaði, að þar er enga slíka viðmiðun að finna. Það eru að vísu til örfá ríkisbú. Og spurningin er: Ætti að reikna bændum svipuð laun og forstöðumenn á þeim búum, sem ríkið rekur, fá til tekna? Ég held að það geti allir verið sammála um að slíkt getur vart gengið. Þess vegna þótti sérstök ástæða til þess, að sett yrði sérstök regla um landbúnað. Hins vegar vil ég endurtaka það, að ég held að ekki sé ástæða til þess að óttast þessar reglur. Þær viðmiðunarreglur, sem eru í gildi t. d. varðandi launaskatt og reiknað er með að yrðu svipaðar í þessu sambandi, eru fremur lágar. En þetta ákvæði hefur þýðingu varðandi hugsanlegan tapsfrádrátt frá launum. T. d. hafa komið upp nokkur dæmi þess, að menn með mjög góðar tekjur eru kannske með búrekstur og reka hann með tapi, m. a. vegna fyrninga o. fl. Í þeim tilfellum mundu viðkomandi aðilar ekki hafa heimild til þess að draga tap af þessum hliðarrekstri frá launum sínum.

Hv. þm. Albert Guðmundsson spurði hvað þetta mundi hafa í för með sér mikinn kostnaðarauka og hvað starfsliði mundi fjölga mikið, og hann spurði, hvað margir einstaklingar og hjón teldu fram. Ég held að ég hafi það nokkurn veginn, hvað þessi framtöl eru mörg. Ég hygg að einstaklingsframtöl séu um 70 þús. og framtöl hjóna um 45 þús. Það, sem gerist, er einfaldlega það, að þessi 45 þús. hjón munu nú telja fram sitt í hvoru lagi þannig að framtölunum fjölgar um 45 þús. Þetta mun að sjálfsögðu hafa nokkurn kostnaðarauka í för með sér, ég held að það liggi ljóst fyrir. En hitt er svo annað mál, að ekki er víst að hann yrði mikill þegar hann er metinn í staðgreiðslukerfi, því að hvort eð er þyrfti að innheimta af hvoru hjóna um sig þann skatt sem á að innheimta í staðgreiðslukerfinu. Ég held að það sé engin leið að gera sér fulla grein fyrir því, hvað þetta mun hafa í för með sér mikinn kostnaðarauka og hvað starfsliði þurfi að fjölga. Það er ljóst að ýmsar reglur í þessu frv. munu verka mjög til einföldunar, t. d. sá 10% staðalfrádráttur sem gert er ráð fyrir í frv. Hann mun sennilega gera það að verkum, að allt að 70% af framteljendum muni velja þann frádrátt og mun þá ekki þurfa að tíunda hina einstöku frádráttarliði. Þetta hefur mjög mikla einföldun í för með sér sem léttir á skattyfirvöldum. Á þennan hátt má telja ýmis atriði sem verka þarna til mótvægis. En kostnaðaráhrifin verða náttúrlega ekki að fullu metin fyrr en frv. til laga um staðgreiðslu skatta hefur verið afgreitt og farið betur yfir það. Þessi löggjöf miðar við að tekið verði upp staðgreiðslukerfi skatta. Það frv. hefur ekki fengið meðferð hér í þinginu, en ég held að meta þurfi áhrif þessara frv. saman.

Varðandi það að ég hafi talið að alls ekki væri hægt að nota þetta frv. nú, það væri alls ekki tilbúið, þá finnst mér það vera á misskilningi byggt. Það, sem má kannske fyrst og fremst um þetta segja, er að eins og ég sagði áðan byggir þetta frv. á því, að frv. til 1. um staðgreiðslukerfi skatta verði afgreitt síðar. Þess vegna er náttúrlega ljóst að frv. í núverandi mynd verður ekki tilbúið til notkunar fyrr en það frv. hefur verið samþ. og afgreitt héðan. En hitt er svo annað mál, að ef það tekst ekki og t. d. sú yrði niðurstaðan, að menn tækju alls ekki upp staðgreiðslukerfi skatta, þá er tiltölulega mjög einfalt mál að breyta þessu frv. Það, sem þarf fyrst og fremst að breyta, eru skattprósentur og nokkur önnur atriði, sérstaklega innheimtukaflinn í frv. Ég hef einnig sagt að rétt sé að vinna að frekari athugun á nokkrum atriðum í þessu frv. En hitt er svo annað mál, að það er ekki sama og það sé ekki út af fyrir sig tilbúið til notkunar.

Ég sé svo ekki ástæðu til herra forseti , að fjölyrða meir um þetta mál. Það hefur hlotið tiltölulega stutta meðferð á þessu þingi og ég get tekið undir það. En ég vil svo leggja áherslu á það sem ég sagði hér fyrr við umr., að í þetta frv. hefur verið lögð mjög mikil vinna og í sambandi við tölvuvinnslu við gerð svona frv. hafa skapast gífurlegir möguleikar og gerir það möguleg mun vandaðri og nákvæmari vinnubrögð. Það er nú svo, að vart er hægt að hugsa sér að ganga frá slíkri löggjöf sem þessari nema hafa yfir að búa þeirri tækni, sem tölvurnar hafa við útreikning á hinum ýmsu valkostum, til þess að geta gert grein fyrir áhrifum þeirra og metið hvað skuli valið og hvað sé til mestra hagsbóta fyrir sem flesta í landinu.