06.05.1978
Efri deild: 103. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4610 í B-deild Alþingistíðinda. (3939)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. frsm. fjh.- og viðskn. þessarar hv. d., 5. þm. Austurl., fyrir hans ágætu svör sem staðfestu það sem ég vildi fá inn í þingbækur, að ekki er vitað annað en það þurfi að „prufukeyra“ þetta frv. miklu meira áður en það getur orðið að lögum og þá brúklegt. Og það verða um 45 þús. fleiri skattseðlar sendir út heldur en í því kerfi sem við búum við, ef ég hef skilið hann rétt. Þetta hlýtur að verða talsverður kostnaðarauki. Og svo þarf starfsfólk og skrifstofur, og því fylgir allur sá kostnaður sem er við starfsfólk, ekki bara launagreiðslur, heldur má segja launtengd gjöld og vinnuaðstaða, svona tvisvar sinnum launin, sem greidd eru.

Það er talað um að þetta frv. verki ekki rétt fyrr en staðgreiðslukerfi er komið á. Svarið var, að kostnaðarauki væri óljós, það væri ekki hægt að geta sér til um kostnaðinn. Þá erum við komnir að því, að frv. þarf að endurskoða áður en það getur tekið gildi eða haft notagildi. Það þarf að koma staðgreiðslukerfi á, áður en kerfið í heild verkar. Kostnaðurinn við þetta er óljós. Það er sem sagt óljóst hvort það verkar, hvort það er nothæft og hvað þetta kostar.

Við erum alltaf að tala um staðgreiðslukerfi miðað við það kerfi sem við höfum í dag. En að breyta úr venjulegu innheimtukerfi í staðgreiðslukerfi er alls ekki það sem við erum að gera. Við hlaupum alltaf yfir eitt atriðið og það atriði er að við höfum ekki venjulegt innheimtukerfi í dag á okkar sköttum. Við höfum fyrirframgreiðslur. Við erum að breyta úr fyrirframgreiðslukerfi í staðgreiðslukerfi og það er dálítið annað.

En sem sagt, það liggur þá ljóst fyrir að framkvæmd þessara laga er verulega miklu dýrari en framkvæmd þeirra laga sem við störfum eftir nú, kostnaðurinn er óljós, það er ekki hægt að geta sér til um hann, og það þarf að athuga þetta frv. verulega mikið áður en heppilegt er að það taki gildi.