10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

318. mál, verðlag

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós þá skoðun að hæstv. ríkisstj. hafi farið mjög óheppilega og óhyggilega að ráði sínu í þýðingarmiklu máli við meðferð endurgreiðslunnar á uppsöfnuðum söluskatti útflutningsiðnaðarins. Það liggur fyrir að þessum vaxtarbroddi í atvinnulífi landsins er bráðnauðsynlegt að fá jafnaða samkeppnisaðstöðu við erlenda samkeppnisaðila. Það liggur fyrir að ein greiðasta og fljótvirkasta leiðin til þess er að létta af útflutningsiðnaðinum þessum uppsafnaða söluskatti. Það liggur fyrir og er viðurkennt af öllum að heppilegast sé að virðisaukaskattur komi til framkvæmda. En meðan það er ekki gert er þetta sú leið sem allir eru sammála um, að heppilegust sé, og þegar hún hefur komið til framkvæmda, að hlaupa frá henni allt í einu, um leið og ný ríkisstj. kemur til valda, er að mínum dómi bæði óheppilegt og óhyggilegt. Annaðhvort er þetta réttlætismál eða ekki, og það er út í hött að tala um að það gildi einu fyrir útflutningsiðnaðinn að fá gengið skráð öðruvísi vegna þessa. Það er algerlega röng leið. Gengið á að skrá almennt. Hefði verið haldið áfram að endurgreiða hinn uppsafnaða söluskatt, þá hefði gengislækkunin getað orðið þeim mun minni.

Herra forseti. Ég þarf næstum að biðja um tvöfaldan ræðutíma, því að ég tel mig þurfa að bera af mér sakir. Ég vísa gersamlega á bug af minni hálfu þeirri fullyrðingu hv. 3. þm. Reykv., að till. um mjög hóflega gengisbreytingu í árslok 1972 hafi verið tilræði við þáv. ríkisstj. (Gripið fram í.) Þvert á mótt var sú tillaga gerð að ráði allra sérfræðinga sem nálægt málinu komu. Það sýndi sig líka að þessi breyting, sem fyrst og fremst var í því falin að hverfa frá hinni rígbundnu gengisskráningu til færanlegrar gengisskráningar, var rétt ráðin, því að hún gerði fært að hækka gengið skömmu síðar, þegar skilyrði höfðu breyst, og nú dettur engum lifandi manni í hug að hverfa aftur til þess bundna fyrirkomulags sem áður ríkti.