06.05.1978
Efri deild: 103. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4614 í B-deild Alþingistíðinda. (3949)

299. mál, jöfnunargjald

Fram. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Við í minni hl. skilum á þskj. 909 sérstöku nál. Það hljóðar svo:

„Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins, en við, sem skipum minni hl., viljum fella það. Samkv. frv. er lagt til að upp verði tekið nýtt innflutningsgjald — 3% — á svonefndar EFTA — vörur, þ. e. a. s. vöruflokka sem innflutningstollar hafa verið lækkaðir á í samræmi við EFTA-samning og viðskiptasamninginn við Efnahagsbandalagið. Talið er að gjald þetta muni nema um 1080 millj. kr. á ári og leiða af sér hækkun verðlagsvísitölu um 0.7–1% þegar bein víxlverkandi áhrif eru höfð í huga. Samkv. frv. er gert ráð fyrir „að hluti“ af gjaldinu renni til eflingar iðnþróun. Ljóst er þó fyrirhugaða jöfnunargjald veldur verulegum ágreiningi við launþegasamtökin og er enn einn vottur þess, hvernig að málum er staðið af hálfu núv. ríkisstj. Þá hefur Verslunarráð Íslands einnig varað við samþykkt gjaldsins.

Minni hl. viðurkennir réttmæti þess, að ríkissjóður endurgreiði svonefndan uppsafnaðan söluskatt í því skyni að jafna samkeppnisaðstöðu iðnaðarins. Frv. fjallar hins vegar ekki um endurgreiðslu ríkissjóðs á of innheimtum söluskatti, heldur það, að lagt verði á nýtt innflutningsgjald sem óhjákvæmilega mundi leiða til verðlagshækkana og síðan kaupgjaldshækkunar sem að sjálfsögðu yki á útgjöld iðnaðarins eins og annars atvinnurekstrar. Minni hl. telur réttlætanlegt að tekið sé til athugunar að lágt gjald yrði sett á sama grunn og frv. gerir ráð fyrir til eflingar íslenskum iðnaði, iðnþróun, og til að skapa ný atvinnutækifæri í iðnaði, ásamt því að styrkja verkþjálfun frá iðnverkafólki.

Minni hl. er andvígur frv. og leggur til að það verði fellt.“

Undir þetta rita Jón Árm. Héðinsson, Ragnar Arnalds og Albert Guðmundsson.

Ég vil í tilefni af orðum frsm. meiri hl. fjalla aðeins nánar um málið. Það er rétt, að um áhrif þessa gjalds eru nokkuð skiptar skoðanir. Það sem hann greindi frá, að Hagstofan mundi meta heildaráhrifin um 0.3%, er mjög varlega metið og aðeins hin fyrstu árin eða eins og hagstofustjóri orðaði það, hin „prímeru“ áhrif, hann fór ekki lengra. En hverjum dettur í hug, að áhrifin verði aðeins á fyrsta stigi? Þau hljóta að veltast áfram. Hverjum dettur í hug, að þetta komi ekki fram — fyrr eða síðar — í einhverri verðhækkun þegar frá líður? Þess vegna undirstrikum við það, að líta verði á málið í heild. Þetta snertir fatnað, þetta snertir hreinlætisvörur, þetta snertir leikföng, rafgeymi bíla, kex, súpur, tómatsósu, snyrtivörur og margt og margt fleira og allt margfaldast þetta inn í verðlagið. Hverjum dettur í hug að aðrir íslenskir framleiðendur í iðnaði muni ekki eiga svigrúm og þá nota það til að hækka eilítið hjá sér?

Það er alveg rétt, að hagstofustjóri sagði að þetta væri lítil hækkun í þeirri óðaverðbólgu sem hér ríkir. En þetta er þó einn þáttur í því að halda henni við — því miður — og jafnvel auka hana nokkuð. Og því hefur ekki verið móti mælt, að svo kann að fara að þegar full áhrif eru komin fram, eftir tvö ár, þá þýði þetta gjald í innheimtu um eða yfir 2 milljarða kr. Það liggur fyrir af hendi forsvarsmanna iðnaðarins, þeir hafa gert fjh.- og viðskn. grein fyrir því, að þeir vilja fá samtals um 457 millj. kr. í sinn hlut af þessum fyrstu 660 millj. kr. sem nú muni innheimtast. Ríkissjóður fær sem sagt um 220 millj. strax í sinn vasa. Forsvarsmenn iðnaðarins töldu að það væri réttlætanlegt, án þess að gera nánari grein fyrir því, að þessar 457 millj. hækkuðu samfara verðbreytingum í landinu. E. t. v. kunna þær að hækka í 600–700 millj. á komandi ári, en þá verða líka innheimtar um 1100 millj. kr., þannig að ríkissjóður mun örugglega fá hátt í milljarð af þessu gjaldi þegar öll áhrifin eru komin fram og endanlega verður staðið upp.

Við erum andvígir þessu í minni hl. Hins vegar vorum við tilbúnir að leggja á gjald sem samkomulag hefði verið um bæði af hálfu iðnverkafólks, Verslunarráðs og fleiri aðila, er næmi t. d. um 1% eða jafnvel minna, og því yrði ráðstafað eins og forsvarsmenn iðnaðar óskuðu eftir. Ég tel að slíkt hefði átt að gera og þá hefði allt runnið í gegn og menn verið ánægðir. Það, sem við erum óánægðir með og einnig kemur fram af hendi Verslunarráðsins og í ályktun sem við fengum og ég mun ekki lesa hér, var að þeir vöruðu við áhrifum af þessu og því sem grundvallaratriði að vera að taka upp slíka verndartolla. Iðnaðurinn á í vök að verjast, það viðurkenna allir, og menn eru sammála um að rétt sé að rétta iðnaðinum hjálparhönd, en við teljum hér verið að innheimta bakdyramegin, ef svo má segja, handa ríkissjóði og það er þessu máli ekkert skylt að tryggja honum þannig tekjur. Við áttum að tryggja honum tekjur með því frv., sem við vorum að afgreiða rétt á undan, skattalagafrv., til þess er það, en ekki með svona gjaldtöku.

Það er ekki æskilegt heldur að vera að skapa meiri togstreitu, svo að ekki sé meira sagt, við ríkjandi aðstæður á vinnumarkaðinum. Ég tel og við í minni hl. í n., að hér hafi þess vegna verið gengið of langt, leggjum til að þetta frv. verði fellt, eins og fram kemur í nál. okkar. — Ég hef lokið máli mínu.