06.05.1978
Efri deild: 103. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4615 í B-deild Alþingistíðinda. (3950)

299. mál, jöfnunargjald

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta það koma fram, að fylgi mitt við þetta frv. er ákveðið í trausti þess, að jöfnunargjaldið verði notað eins og reyndar hefur komið fram mjög ákveðið í framsöguræðu talsmanns meiri hl. í fjh.- og viðskn. og sömuleiðis kom fram í ræðu í Nd. hjá frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. þar.

Ég varpaði fram þeirri spurningu við 1. umr., hvernig þessu gjaldi yrði ráðstafað og því miður fannst mér ég ekki fá greið svör. Ég legg áherslu á að gjaldinu verði ráðstafað til þess í fyrsta lagi að greiða uppsafnaðan söluskatt áranna 1975 og 1976 og síðan uppsafnaðan söluskatt þau ár sem þetta gjald er lagt á. Í öðru lagi legg ég áherslu á að hluta af þessu gjaldi verði ráðstafað til eflingar iðnaðinum, eins og fram hefur komið í tillögum frá Félagi ísl. iðnrekenda.

Það er í trausti þess, að svo verði gert, sem ég fylgi þessu frv.

Ég fagna því, að í framsöguræðum meiri hl. hefur þessi sami skilningur komið fram.