06.05.1978
Efri deild: 103. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4616 í B-deild Alþingistíðinda. (3951)

299. mál, jöfnunargjald

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég harma að hæstv. fjmrh. skuli ekki heiðra þessa hv. d. með nærveru sinni við þessar umr., en hann telur óþarft að fylgjast með þeim, svo öruggur er hann um meðferð og afgreiðslu þessa tvísköttunarfrv. Ég hefði gjarnan viljað fá það staðfest hjá hæstv. ráðh., sem fram kom hjá hv. formanni fjh.- og viðskn. þessarar d., en hann hóf mál sitt með því að telja sjálfsagt að hluti af þessum tekjum, sem myndast með álagningu þessa jöfnunargjalds, yrði notaður til að greiða uppsafnaðan söluskatt. Ég beindi fsp. til ráðh. fyrir ekki löngu úr ræðustól og bað hann um að svara því afdráttarlaust og ekki loðið; hvort uppsafnaður söluskattur fyrir 1975 og 1976 yrði greiddur. Hæstv. ráðh. kom sér undan því að svara, þessi ríkisstj. ætti eftir að taka ákvörðun um hvernig þessir peningar yrðu notaðir.

Ég er á móti þessu frv. m. a. vegna þess að ríkissjóður fær jafnvel meiri tekjur en iðnaðurinn sem frv. er þó lagt fram til að hjálpa. Það kemur fram að þetta 3% jöfnunargjald er lagt á m. a. til að bæta ríkissjóði tekjumissi við niðurfellingu tolla vegna aðildar Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu. Ég hélt, þegar við gengum í Fríverslunarsamtökin, að tollar mundu lækka og sú lækkun kæmi fólkinu í landinu til góða, en að ríkissjóður legði ekki á nýja og nýja skatta undir öðrum nöfnum sem kæmu í staðinn fyrir tollana. Fólkið í landinu nýtur ekki þess, sem ég hélt að væri stefnt að með lækkandi verði.

Það er furðulegt, að ekki skuli vera lengra liðið síðan ríkisstj. gerði ráðstafanir sínar í efnahagsmálum og lækkaði þá m. a. vörugjald úr 18% niður í 16%. Þessi ráðstöfun hleypti upp Alþýðusambandi Íslands og verkalýðshreyfingunni undir forustu Verkamannasambandsins og af stað aðgerðum sem við sjáum ekki fyrir endann á enn þá. En hér er önnur aðgerð sem er eins, þar sem kemur 3% jöfnunargjald í staðinn fyrir 2% sem tekin voru af með ráðstöfun ríkisstj. í efnahagsmálum þegar vörugjaldið var lækkað úr 18% í 16%, nú kemur bara 3% verðjöfnunargjald í staðinn. Fulltrúi Alþýðusambands Íslands, sem kom á fund hv. fjh.- og viðskn., sagði að þetta hefði nákvæmlega sömu áhrif og ráðstafanir ríkisstj. í efnahagsmálum þó í minna mæli væri. Af hverju er verið að storka verkalýðshreyfingunni hvað eftir annað með svona lögum. Ég lagði fyrir fulltrúa Alþýðusambandsins þá spurningu, hvort þeir hefðu ekki getað sætt sig við lægra gjald til þess að fullnægja því framlagi sem iðnaðurinn fer fram á til iðnþróunar og hagræðingar, og til að skapa ný atvinnutækifæri. Hann taldi það ekki útilokað.

Nú er ekkert víst, þó að iðnaðurinn fari fram á 457 millj. af þessum rúmum 600 millj., sem innheimtar verða á þessu ári, að hann fái þær, það getur vel verið að hann fái þessar 457 millj. mínus söluskattinn sem hann reiknar með að fá fyrir árin 1975 og 1976. Þá verður þetta orðin miklu meiri tekjulind fyrir ríkissjóð sjálfan heldur en aðstoð við iðnaðinn.

Ég þarf ekki að taka það fram, það kemur fram í nál. okkar minnihlutamanna, að ég mun greiða þessu frv. mótatkv.