06.05.1978
Efri deild: 103. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4619 í B-deild Alþingistíðinda. (3957)

217. mál, tollskrá o.fl.

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hefja efnislegar umr. um þetta, en þegar við heyrum þá framsóknarmenn koma hér upp í stólinn einn af öðrum og ræða um sína gífurlegu þekkingu á landbúnaðarmálum og þeir einir viti og þeir einir kunni og þeir einir skilji, þá get ég ekki stillt mig, því að ég tel mig hafa sæmilegan kunnugleika á landbúnaði á borð við ýmsa af þeim, t. d. ritara Framsfl. sem situr hér beint fyrir framan mig. En einkenni þessara umr. allra þeirra framsóknarmanna eru í raun og veru fólgin í þessum setningum sem mér duttu í hug núna:

Við eigum bændur einir

og erum skjannahreinir

þó himin hranni ský.

Við elskum þá og unnum

og allar þarfir kunnum

og aðrir þegi því.