10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

318. mál, verðlag

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Fyrir nokkrum vikum var frá því skýrt í dagblöðum, að sú venja tíðkaðist hjá allmörgum íslenskum skipafélögum að veita afslætti af farmgjöldum eflir á, þannig að afslættirnir væru reiknaðir af ársviðskiptum og veittir í einu lagi. Um þetta urðu nokkur skrif og kom fram í viðtölum við embættismenn a.m.k. tveggja skipafélaga, að þeir játuðu þessu, sögðu, að talið væri sjálfsagt að veita slíkan afslátt, og töldu ekkert óeðlilegt við það. Þá var einnig fullyrt að þessi afsláttur næmi mjög oft 5%, sérstaklega þegar um mikið magn er að ræða, en gæti í tilvikum verið mun hærri.

Nú er það alkunna, að margvísleg opinber gjöld, raunar flestöll innflutningsgjöld, eru reiknuð ofan á farmgjald vörunnar eftir að hún er komin hingað til lands, og ennfremur, að álagning er reiknuð ofan á allt þetta. Verður því ljóst að bæði opinber gjöld og álagning á vörum hljóta að hafa verið reiknuð af of háum grunni í allstórum stíl ef þessar frásagnir eiga við rök að styðjast. Hér hefur því bæði ríkið tekið meira fé af vöruinnflutningi en efni standa til og eins hafa neytendur orðið að greiða mun hærra verð en efni standa til, vegna þess að ekki er reiknað af hinu rétta farmgjaldi sem er að sjálfsögðu ekki hægt að kalla svo nema tekið sé tillit til þeirra afslátta sem veittir eru, þó að þeir komi ekki fyrr en eftir árið. Ástandið í verðlagsmálum hér er nógu slæmt, með sífelldum hækkunum þannig að neytendur hafa ekki við að fylgjast með, hvað þá að borga nauðsynlegustu vörur sem þeir kaupa, þó að ekki séu slík brögð í tafli, ef rétt er að þetta kerfi, að veita afslætti af farmgjöldum eftir á, sé notað á þennan hátt. Ég tel því ríka ástæðu til að óska eftir upplýsingum hæstv. viðskrh. um þetta efni og hef því leyft mér að leggja fyrir hann fsp. í þremur liðum sem eru á þessa lund:

„1. Hafa verðlagsyfirvöld kannað, hvort skipafélög veita innflytjendum afslátt af farmgjöldum eftir á?

2. Ef svo er, hefur vöruverð ekki verið of hátt, bar sem ekki hefur varið tekið tillit til afsláttarins við verðlagningu?

3. Hvað hyggjast verðlagsyfirvöld gera til að koma í veg fyrir of háa verðlagningu af þessum sökum í framtíðinni?“