10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

318. mál, verðlag

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. þm. Benedikts Gröndals óskaði ég eftir því, að verðlagsstjóri gæfi umbeðnar upplýsingar, og fara svör hans hér á eftir.

Fyrst er spurt: „Hafa verðlagsyfirvöld kannað, hvort skipafélög veita innflytjendum afslátt af farmgjöldum eftir á?“

Þessu er svarað svo: Verðlagsyfirvöldum hefur verið kunnugt um að skipafélög veita innflytjendum afslátt af farmgjöldum og að hann er oft veittur eftir á.

Í öðru lagi er spurt: „Ef svo er, hefur ekki vöruverð verið of hátt, þar sem ekki hefur verið tekið tillit til afsláttarins við verðlagningu?“

Svarið við þessu er á þessa lund: Við ákvörðun álagningar á innfluttum vörum taka verðlagsyfirvöld m.a. mið af afkomu innflutningsfyrirtækja, og hafi fyrirtækin fært afslátt til tekna af farmgjöldum eða öðru er tekið tillit til þess við endurskoðun á álagningarreglum. Almennt tíðkast það nú að skipafélögin veiti innflytjendum 5% afslátt af farmgjöldum. Afsláttur þessi var fyrst tekinn upp fyrir nokkrum áratugum vegna harðrar samkeppni við erlend skipafélög. Þegar hins vegar hagur íslenskra skipafélaga versnaði mjög um 1960 var þessi afsláttur lagður niður, en tekinn upp að nýju árin 1962 og 1963 og hefur tíðkast síðan. Það má því til sanns vegar færa að það ár, sem afslátturinn var tekinn upp að nýju, eða næsta ár á eftir hafi verðlag verið of hátt. En strax við næstu endurskoðun á álagningarreglum var tekið tillit til hans og hefur það verið gert síðan.

Af þessu svari við 2. lið fsp. leiðir, að svar við 3, lið verður á þá lund, að verðlagsyfirvöld sjái ekki sérstaka ástæðu til aðgerða vegna þessa, þar sem talið er að tekið hafi verið tillit til afsláttarins þegar álagningarreglur voru ákveðnar.