17.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Það er dregið í efa, það sem ég sagði í ræðu minni, að það væri ekki heimilt af hálfu ríkisstj. að semja um endurskoðun aðalkjarasamnings BSRB og ríkisins með verkfallsrétti á tveggja ára gildis­ tíma aðalkjarasamnings. Í tilefni af þessu vil ég leyfa mér að lesa upp — með leyfi forseta — 18. gr. þeirra laga sem um þetta fjalla, um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, en þar stendur:

„Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 33 frá 1915, um verkfall opinberra starfsmanna, er Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja heimilt að gera verkfall í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í deilu um aðalkjarasamning með þeim skilyrðum og takmörkunum sem sett eru í lögum þessum og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“

Hér er um takmarkaðan verkfallsrétt að ræða, og það gerðu allir hv. alþm, sér ljóst, þegar þessi lög voru samþykkt. Og hvernig er þessi grein skýrð í aths. um hetta lagafrv.? Þar stendur um 18. gr., með leyfi forseta:

„Hér er gert ráð fyrir að BSRB sé heimilt að gera verkfall, þó eingöngu við gerð aðalkjarasamnings. Ekki er gert ráð fyrir heimild fjmrh. til verkbanna þar sem verkfallsréttur er eingöngu í höndum heildarsamtaka, en ekki einstakra félaga, auk þess sem önnur heildarsamtök hafa ekki verkfallsrétt. Réttur til verkbanna er því óraunhæfur.“

Ég vildi lesa alla aths. um greinina upp, þannig að það kæmi ljóst fram að hér er alveg ótvírætt tekið til orða, að verkfallsrétturinn er bundinn við gerð aðalkjarasamnings, verkfallsrétturinn er bundinn við að verkfall sé ekki boðað oftar en á tveggja ára fresti.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, alþm., og tala ekki eins og við munum ekki aðdraganda þessarar lagasetningar. Um þessa lagasetningu var mikill ágreiningur á Alþingi Íslendinga þótt víðtæk samstaða tækist að lokum, en þó ekki alger eins og kunnugt er. Og vegna hvers tókst þessi víðtæka samstaða? Vegna þess að verkfallsrétturinn var takmarkaður lögum samkvæmt. Það voru margir hv. alþm. sem greiddu atkv. með þessum verkfallsrétti einmitt á þeim grundvelli að hann kæmi ekki til greina nema á tveggja ára fresti. Við vildum koma til móts við óskir opinberra starfsmanna um verkfallsrétt, en þó með ákveðnum takmörkunum. Þetta var Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og forráðamönnum þess vel ljóst. Það var ekki farið á bak við þá, eins og sést af grg. þeirri sem hæstv, fjmrh. las upp úr blaði opinberra starfsmanna sjálfra. Hér er einnig sönnun að því leyti, að Bandalag háskólamanna átti kost á samsvarandi takmörkuðum verkfallsrétti og BSRB, en Bandalag háskólamanna hafnaði þeim takmarkaða verkfallsrétti og vildi heldur óbreytt ástand en þá takmörkun sem í því felst að verkfallsréttur er bundinn við að honum verði ekki beitt nema einu sinni á tveim árum.

Þegar við hugleiðum málið, þá er ekkert undarlegt þótt opinberir starfsmenn, með mikilli virðingu og einmitt vegna mikillar virðingar fyrir verkefnum þeirra, hafi ekki samsvarandi verkfallsrétt og aðrir launþegar í landinu. Ég vil aftur á móti segja það sem staðreynd, að opinberir starfsmenn, jafnvel þótt þeir njóti ekki æviráðningar, jafnvel þótt þeir njóti nú þess atvinnuöryggis sem núv. ríkisstj. hefur sem betur fer tekist að tryggja á umrótatíma í efnahagsmálum, þá hafa almennir launþegar í landinu ekki það atvinnuöryggi sem opinberir starfsmenn hafa. Ég veit að hv. 7. þm. Reykv., Eðvarð Sigurðsson, gerir sér manna best grein fyrir því. Hann jafnar ekki öryggi umbjóðenda sinna í Dagsbrún við öryggi þeirra sem í opinberri þjónustu eru. Þetta verður að meta og vega, og þetta verður að meta og vega m.a. líka í tengslum við verkfallsrétt opinberra starfsmanna. Það var ekki ætlun Alþingis að verkfallsréttur opinberra starfsmanna væri algerlega án takmarkana, það vitum við allir, hver og einn, sem í þessum sal sitjum. Og við vitum hvernig lögin eru orðuð, við vitum hvernig aths. eru orðaðar, og þess vegna er alveg ljóst að það væri verið að fara á bak við hv. Alþ. ef fallist væri á þá samningskröfu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja að verkfallsréttur fylgdi endurskoðun einstakra ákvæða samningsins. Ég vil vekja athygli á því, að samninganefnd ríkisins hefur ekki hafnað endurskoðunarrétti sem slíkum. Samninganefnd ríkisins eða ríkisstj. hefur ekki hafnað því að taka til umr. og afgreiðslu réttmætar kröfur á samningstímanum miðað við breyttar forsendur. Samninganefnd ríkisins hefur þvert á móti lofað opinberum starfsmönnum að þeir hvað snertir vísitöluuppbætur skuli halda jafnrétti á við aðra launþega í landinu. Hvað meira er unnt að gera, og hvaða áhættu taka þá opinberir starfsmenn miðað við þetta samningstilboð ríkisins?

Ég vil láta þetta koma hér fram að gefnu tilefni. En ég vil líka bæta því við, að vitaskuld hlusta ég og ráðh. og sjálfsagt ekki síst samninganefnd ríkisins, svo erfitt hlutverk sem slík samninganefnd hefur með höndum, með athygli á ábendingar hv. þm. að þessa deilu verði að leysa. Við erum allir sömu skoðunar í þeim efnum. En á veltur auðvitað að báðir aðilar, sem að þessari deilu standa, hafi vilja til þess að leysa deiluna. Við, sem förum með umboð ríkisins, verðum annars vegar að gera okkur grein fyrir því, hvort þau tilboð, sem af hálfu ríkisins eru gefin eða samþykkt, séu í samræmi við launakjör í landinu. Hv. þm. hafa fengið skýrslu um það, hvað tilboð ríkisins er talið munu valda miklum útgjaldaauka fyrir ríkið sem atvinnuveitanda miðað við útgjaldaauka vinnuveitenda almennt í landinn. Ég tel ummæli þessara hv. þm. því bera vitni um að þeir telji að rétt sé að ganga nokkru lengra til móts við opinbera starfsmenn en gengið var til móts við almenna launþega í landinu, vegna þess að mismunur hafi verið á kjörum þeirra áður en til samninga var gengið. A.m.k. vil ég strax hér og nú vísa á bug aths. annaðhvort hv. þm. eða utan þingsala, að of langt sé gengið til móts við opinbera starfsmenn, miðað við þær ábendingar sem við höfum hér fengið innan þingsala og raunar utan einnig. Það er kjarasamanburður við launþega utan samtaka opinberra starfsmanna sem okkur ber skylda til að hafa í huga. Okkur ber skylda til að hafa í huga útgjöld ríkisins sem slíks, vegna þess að almennir skattgreiðendur greiða hann reikning, bæði þeir opinberu starfsmenn, sem kjarabæturnar fá, og þar með er hluti þeirra tekinn aftur, og svo aðrir launþegar sem þegar hafa samið um kjör sín. Við erum hér á Alþingi Íslendinga og í ríkisstj, í samningsforsvari fyrir allan almenning í landinu. Hér er það breytt viðhorf, að atvinnuveitandinn er fjölmennari að höfðatölu heldur en launþegarnir, gagnstætt því sem á við um hina almennu kjarasamninga. En með því að vekja athygli á þessari staðreynd er ég ekki að draga þá ályktun eða gefa nokkuð í skyn í þá átt, að vegna þess að launþegarnir séu í minni hluta og atvinnuveitandinn í meiri hl. með þjóðinni, þá eigi ekki minni hlutinn sinn rétt. Minni hlutinn á sinn rétt í lýðræðisþjóðfélagi, og meiri hlutinn á aldrei að sitja yfir hlut minni hlutans og það verður ekki heldur gert í þessari kjaradeilu.