06.05.1978
Efri deild: 105. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4637 í B-deild Alþingistíðinda. (4008)

Starfslok efri deildar

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar þdm. þakka forseta hlýjar óskir í garð okkar þdm. Eins og hann minntist á eru hér ekki einungis venjuleg þinglok, heldur eru það einnig lok kjörtímabils okkar til starfa hér á hv. Alþingi. Ég vona einnig að það verði ekki talin helgispjöll eða mér virt til verri vegar þó að ég víki örlítið frá hinum hefðbundnu kveðjuorðum þegar ég þakka öllum hv. þdm. þessarar d. fyrir samveruna, en hér hef ég átt lengst af setu á þingtíma mínum sem varað hefur nú um 25 ára skeið eða samtals 27 þing. Það fer ekki hjá því, að á slíkri stundu verði manni hugsað til ýmissa atvika sem skeð hafa á jafnlöngum starfsferli á sama vinnustað og jafnáhrifaríkum vinnustað og Alþingi er og á að vera um ókomna tíð Íslandsbyggðar. Ég get sagt það af fullri hreinskilni, að ég vík úr þessu starfi ókalinn á hjarta. Hitt er langtum ofar í mínum huga: allar þær ánægjulegu stundir sem ég hef átt hér í sölum Alþingis og þá kannske reynsluríkustu um leið í störfum mínum hér. Ég vil sem sagt nota þetta tækifæri, þar sem ég mun af ástæðum, sem öllum þdm. eru kunnar, ekki taka þátt í þeim bardaga sem fram undan er hjá velflestum ykkar, þ. e. a. s. kosningabaráttunni, sem hæstv. forseti hefur þegar minnst á að fram undan er á næsta leiti.

Ég óska ykkur persónulega öllum gæfu og gengis í lífi ykkar og störfum um leið og ég ítreka þakklæti mitt til ykkar fyrir samveruna þessi ár. Ég ítreka einnig þakklæti mitt fyrir hönd okkar þdm., herra forseti, til fjölskyldu þinnar og þín persónulega fyrir réttláta og góða fundarstjórn á þessu þingi sem og áður á þessu kjörtímabili og reyndar lengur og ánægjuleg samskipti í störfum við okkur þdm. og réttsýni í hvívetna. Ég bið hv. þdm. að taka undir þessi orð mín með því að rísa úr sætum. — [Deildarmenn risu úr sætum].