06.05.1978
Neðri deild: 103. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4638 í B-deild Alþingistíðinda. (4013)

Starfslok neðri deildar

Forseti (Ragnhildur Helgadóttir):

Háttvirtir þingdeildarmenn. Þar sem nú líður að þinglokum og að lokum kjörtímabils hef ég sérstakar þakkir fram að færa. Ég þakka ykkur öllum gott samstarf og umburðarlyndi við mig sem forseta. Þetta á jafnt við um hæstv. ráðh., þm., sem stjórnina styðja, og þm. stjórnarandstöðunnar. Skrifstofustjóra Alþingis og starfsliði Þess öllu færi ég þakkir fyrir mikið starf og liðsinni við okkur þm. Varaforsetum og skrifurum deildarinnar þakka ég mikilsverða aðstoð við mig.

Nú í lok þessa kjörtímabils er það vitað, að fimm þm. þessarar deildar gefa ekki kost á sér til þingframboðs á ný. Allir eiga þeir langan og litríkan þingferil að baki. Ég leyfi mér fyrir hönd annarra þm. í deildinni að þakka þeim öllum fyrir samstarfið hér á Alþingi. Mörg okkar hafa lengi unnið á þingi með þessum mönnum og eiga um þá minningar sem ekki mást. Í þessum hópi eru tveir, sem hafa ekki verið á þingi um skeið sökum veikinda. Þeim sérstaklega sendum við hlýjar kveðjur héðan úr deildinni þar sem þeir hafa lengi unnið. Öllum þessum hv. alþm., sem eru að láta af þingstörfum, óska ég gæfu og friðar á þeim vettvangi, sem við tekur nú.

Ég vona að mér fyrirgefist þótt ég freistist til þess að láta hugann einnig hvarfla til hv. Ed. Þar eru einnig nokkrir þm. sem hætta þingmennsku og gefa ekki kost á sér til þingframboðs á ný og hafa einnig að baki langan þingferil. Öllum þessum hv. þm. vil ég fyrir hönd okkar deildar þakka samstarfið og þá ekki síst hæstv. forseta Sþ. sem nú lætur af löngu þingstarfi.

Ég óska svo öllum hv. þdm, góðs sumars og utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og góðrar heimkomu svo og öllum þdm. og þeirra fjölskyldum velfarnaðar.