06.05.1978
Sameinað þing: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4643 í B-deild Alþingistíðinda. (4019)

67. mál, atvinnumöguleikar ungs fólks

Frsm. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir hönd atvmn. fyrir nál. um till. til þál. um atvinnumöguleika ungs fólks. N. fjallaði um þetta mál á nokkrum fundum og hún mælir með því að till. verði samþykkt. Við afgreiðslu málsins voru fjarverandi þeir hv. þm. Sverrir Hermannsson og Karvel Pálmason, en báðir þessir þm. eru því meðmæltir, að till. verði samþ., og styðja hana eindregið.

Rétt er að geta þess, að leitað var umsagnar þriggja aðila varðandi tillöguna, þ. e. Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Reykjavíkurborgar. Barst aðeins ein umsögn til n., frá Reykjavíkurborg, og var hún mjög jákvæð.

Eigi þarf að fjölyrða frekar um efni till., það var gert í mjög ítarlegu máli, þegar hún var lögð fram, en eins og hv. þm. muna eftir er lögð áhersla á það í þáltill., að gerðar verði athuganir á því og gengið úr skugga um hvort eðlilegt og æskilegt jafnvægi sé milli menntunar ungs fólks annars vegar og eðlilegra þarfa atvinnuveganna hins vegar í þeim efnum. Að vísu höfum við Íslendingar búið við það góða ástand á undanförnum árum, að hérlendis hefur ekki verið neitt atvinnuleysi. En ekki er ráð nema í tíma sé tekið til þess að sú þróun megi verða áfram.