06.05.1978
Sameinað þing: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4645 í B-deild Alþingistíðinda. (4027)

252. mál, atvinnu- og félagsmál á Þórshöfn

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég skal lofa því að vera afar stuttorður um þessa till., enda er það sannast sagna um hana, að henni fylgir mjög ítarleg grg. og 8 fskj. og í þessu máli er að finna allan rökstuðning fyrir þessari till. Ég ætla að leyfa mér þó að lesa hér tillgr., en þessi till. er, eins og menn sjá, flutt af öllum þm. Norðurl. e., 6 að tölu.

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta nú þegar kanna ástand og horfur í atvinnu- og félagsmálum Þórshafnar í Norður-Þingeyjarsýslu. Athuga skal, hvaða ráðstafanir sé nauðsynlegt að gera til þess að tryggja þar eðlilega byggðaþróun. Sérstaklega skulu kannaðir möguleikar að koma upp loðnuvinnslu á Þórshöfn, t. d. með því að Síldarverksmiðjur ríkisins kaupi síldarbræðsluna á staðnum og breyti henni í loðnuverksmiðju.“

Eins og sjá má af þessari tillgr. er þrjú aðalatriði í henni að finna, þ. e. almenn könnun á ástandi og horfum í atvinnu- og félagsmálum á Þórshöfn, í öðru lagi hvað þurfi að gera til þess að tryggja þar eðlilega byggðaþróun og í þriðja lagi að kannaðir verði sérstaklega möguleikar til þess að koma þar upp loðnuvinnslu, m. a. á þann hátt að Síldarverksmiðjur ríkisins kaupi síldarbræðsluna á staðnum. Eins og ýmsum hv. þm. er kunnugt hafa töluverðir erfiðleikar gengið yfir Þórshöfn, það má segja undanfarin missiri, jafnvel undanfarin tvö ár, og þessir erfiðleikar stafa fyrst og fremst af þeim miklu vandræðum, sem orðið hafa í sambandi við útgerð togara staðarins, sem reyndist mjög gallað skip þegar það var keypt og hefur kostað miklar þrautir að reka og koma í rekstrarhæft horf, sem þó er að vísu nú orðið, en hins vegar er skuldahallinn eftir þetta erfiðleikatímabil ákaflega langur og erfitt við að ráða.

Ég skal ekki fjölyrða, herra forseti, um efni þessarar till. vegna þess hversu ítarlega hún er rökstudd í grg. og í fskj. Ég vil gera það að till. minni, að umr. verði nú frestað og málinu vísað til hv. allshn.