06.05.1978
Sameinað þing: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4645 í B-deild Alþingistíðinda. (4032)

178. mál, uppbygging strandferðaþjónustunnar

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það væri vissulega ástæða til þess að setja á nokkra ræðu til þess að ræða um Skipaútgerð ríkisins og nauðsynina á því að efla strandferðaþjónustuna við dreifbýli landsins, en ég ætla ekki að gera það við þetta tækifæri. Ég vildi þó aðeins nefna þrjú atriði sem ég álít að þurfi að hafa í huga alveg sérstaklega þegar þessi málefni eru reifuð og rædd.

Í fyrsta lagi það, að öll aðstaða sumra landshluta er með þeim hætti, að ekki er hægt að tryggja í raun og veru öruggar samgöngur við þá nema frá sjó. Veturnir eru þannig og samgöngur á landi og í lofti með þeim hætti, að ekki er hægt að tryggja öruggar samgöngur við suma landshluta hér í landinu öðruvísi en frá sjó.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að minna á, að vöruverð úti um landsbyggðina er yfirleitt dýrara en hér í Reykjavík og grenndinni að því er varðar vörur sem eru fluttar inn frá útlöndum, vegna þess að þær fara yfirleitt í gegnum Reykjavíkurhöfn og þarf að flytja þær út á land. Ég held að það sé samdóma álit manna, að erfitt sé að jafna þennan mun, sérstaklega að því er snertir þungavörur, nema með því að efla strandferðaþjónustuna og flytja vörurnar með þeim hætti til afskekktari landshluta.

Í þriðja lagi er svo atriði sem væri vissulega ástæða til þess að gera athugun á, hvað það mundi spara mikið á afnotum þjóðvegakerfisins í landinu að efla Skipaútgerðina. Við vitum að með stórkostlega auknum vöruflutningum um þjóðvegina hefur þjóðvegakerfið brostið í raun og veru. Ekki hafa verið tök á því að halda því nægilega vel við til þess að mæta stórauknum þungavöruflutningum á landi. Ég er ekki í neinum vafa um að ef Skipaútgerðin yrði efld mundi létta á þungaumferð á þjóðvegunum og það mundi verða til mikils sparnaðar.

Til viðbótar vil ég svo segja að í raun og veru er það samfélagsleg skylda að sjá öllum landshlutum fyrir öruggum samgöngum. Við erum ekki eina þjóðin sem ver verulegu fjármagni í þessu skyni. Það gera mjög margar þjóðir, eins og t. d. Norðurlandaþjóðirnar. Ég vil sérstaklega nefna Norðmenn sem verja stórkostlegum fjármunum til þess að tryggja samgöngur á sjó við alla landshluta í Noregi.

Ég vil svo þakka n. fyrir góðar undirtektir undir þetta mál og vonast til þess, að sú ríkisstj., sem tekur við völdum að loknum kosningum, sinni þessu máli af miklum dugnaði.