06.05.1978
Sameinað þing: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4647 í B-deild Alþingistíðinda. (4033)

178. mál, uppbygging strandferðaþjónustunnar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Á döfinni eða til athugunar eru merkilegar skipulagsbreytingar á vöruflutningum og strandferðaþjónustu. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að vekja athygli á því, að ég held að það þurfi að athuga skipulagsbreytingar á strandferðaþjónustunni í samhengi við samgöngur á landi. Þungavöruflutningar með bifreiðum hafa nú farið sívaxandi og sanna það, þrátt fyrir að sums staðar sé erfitt að koma þeim við, að þeir eiga mikinn rétt á sér og henta sums staðar engu síður. Þetta þarf allt saman samræmingar við, þannig að fólkið í landinu geti átt við sem bestar aðstæður að búa.

Hvað viðvíkur þessum till., sem hér eru á döfinni frá Skipaútgerð ríkisins, þá þykir mér á þeim nokkur galli, því að gert er ráð fyrir að þjónusta minnki við fáein byggðarlög. Ég treysti því, að þegar til kastanna kemur verði reynt að sjá fyrir þeirra hlut ekki síður en annarra.