06.05.1978
Sameinað þing: 77. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4658 í B-deild Alþingistíðinda. (4038)

Þinglausnir

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Hæstv. ríkisstj. Háttvirtir alþingismenn. Ég mun gefa yfirlit um störf Alþingis. Þingið hefur staðið yfir frá 10, okt. til 21. des, og frá 23. jan. til 6. maí 1978, alls 177 daga.

Þingfundir hafa verið haldnir:

Í neðri deild

103

Í efri deild

105

Í sameinuðu þingi

77

Alls

285

Þingmál og úrslit þeirra:

I. Lagafrumvörp:

1.

Stjórnarfrumvörp:

a.

Lögð fyrir neðri deild

47

b.

Lögð fyrir efri deild

65

c.

Lögð fyrir sameinað þing

3

115

2.

Þingmannafrumvörp:

a.

Borin fram í neðri deild

53

b.

Borin fram í efri deild

23

76

Úrslit urðu þessi:

191

a.

Afgreidd sem lög:

Stjórnarfrumvörp

88

Þingmannafrumvörp

20

108

b.

Fellt:

Þingmannafrumvarp

1

c.

Vísað til ríkisstjórnarinnar:

Þingmannafrumvörpum

7

d.

Afgreitt með rökstuddri dagskrá:

Þingmannafrumvarp

1

e.

Ekki útrædd:

Stjórnarfrumvörp

27

Þingmannafrumvörp

47

83

'

191

II. Þingsályktunartillögur

:

Bornar fram í sameinuðu þingi

65

Bornar fram í neðri deild

4

Bornar fram í efri deild

2

71

Úrslit urðu þessi:

Ályktanir Alþingis

15

Vísað til ríkisstjórnarinnar

3

Afgreiddar með rökstuddri

dagskrá

3

Ekki útræddar

50

71

III. Fyrirspurnir:

Í sameinuðu þingi 96. Sumar eru fleiri saman á þskj., svo að

málatala þeirra er ekki nema .

48

Öllum þessum fyrirspurnum var

svarað nema 13.

Mál til meðferðar í þinginu alls

310

Skýrslur ráðherra voru

8

Tala prentaðra þingskjala

966

Yfirlit þetta ber það með sér að mál þau, sem lögð hafa verið fyrir Alþingi, eru fleiri en oftast áður. Allflest hafa þau komið til umtæðu, en mörg stjfrv. hafa verið lögð fram til kynningar og eru þar með komin á umræðustig. Þessi háttur á kynningum mála er gamalþekktur á Alþ. og hefur oft leitt til þess, að lagasetning hefur orðið haldbetri en annars, þar sem ýmsir þeir, sem til þeirra mála þekkja, kynna sér þau og gefa vissar ábendingar.

Á þingi þessu hafa verið samþykkt lög um margvísleg málefni, m, a. lög um þjóðleikhús, hlutafélög, vátryggingarstarfsemi, búnaðarmenntun, heilbrigðisþjónustu, almannatryggingar, rannsóknarlögreglu, verðlag, samkeppnishömlur og viðskiptahætti og iðnaðarlög með meiru. Þá hafa verið samþykkt ný skattalög, sem hlotið hafa langan og góðan undirbúning og auk þess verið mikið rædd hér í þingsölum nú og einnig á undanförnum árum.

Ég hef áður sagt það og endurtek það, að skattheimtan og framkvæmd hennar er hyrningarsteinn velferðarþjóðfélags, og það varðar alla þegna landsins, hvernig þar tekst til. Sameiginlegar þarfir þjóðarinnar eru miklar og rúmum helmingi ríkisútgjalda er með ýmsu móti varið til þess að bæta lífskjör þeirra sem erfiðara eiga. Efnahagsmálin hafa tekið mikinn tíma á þessu þingi, oft komið til umræðu í sambandi við önnur mál, utan dagskrár og ekki síst í sambandi við lagasetningu þar að lútandi. Ein mesta höfuðnauðsyn til þess að geta búið í haginn fyrir framtíðina er að draga úr verðbólgu, skapa meira jafnvægi í efnahagsmálum, auka sparifé og búa sem mest á flestum sviðum að því, sem er innlent, og á þann hátt að spara gjaldeyri og draga úr erlendum lántökum.

Íslenska þjóðin býr við góð lífskjör á flestum sviðum. Atvinna hefur verið mikil og framfarir stórstígar á undanförnum árum og áratugum. Sex áratugir eru senn liðnir síðan Íslendingar öðluðust sjálfstæði, og segja má að hver sigurinn á fætur öðrum hafi unnist síðan. Ég minni á í því sambandi stofnun lýðveldis 1944 og útfærslu fiskveiðilögsögu íslands í áföngum á aldarfjórðungi úr 3 mílum í 200 mílur. Í kjölfar þessa hefur þjóðlífið breyst. Óskir hafa ræst og vonir orðið að veruleika. Fátæktin, sem flestir bjuggu við áður fyrr, smækkaði ekki íslensku þjóðina, en hvatti hana til drengskapar og dáða. Þessa er vert að minnast um leið og ég minni á það, að ekki er minni vandi að gæta fengins fjár en afla, og þess skulum við einnig minnast og hafa í huga, að sameinaðir stöndum vér, en sundraðir föllum vér.

Þá vil ég geta þess, að á borð þingmanna hefur verið lögð bók sem ber nafnið Alþingi — það er um húsakost Alþingis og væntanlegar byggingar yfir Alþingi í framtíðinni. Um leið og ég þakka húsameistara ríkisins og starfsmönnum hans fyrir mikilvæg störf í þágu þessa, þá vona ég, að störf þeirra auðveldi alþm. að átta sig á því, hvernig best og hagkvæmast verður að haga framkvæmdum um byggingar yfir þingheim í framtíðinni.

Ég vil líka geta þess, að Alþingismannatalið, sem nær til ársloka 1975, er komið í prentun og verður vonandi tilbúið í næsta mánuði.

Ástæða væri fyrir mig að gefa nánari skýrslu um ýmislegt sem snertir Alþ., en ég læt þetta nægja.

Störfum Alþingis á þessu 99. starfsári frá endurreisn Alþingis er að ljúka og þetta er síðasta þing þessa kjörtímabils. Þess vegna veit maður ekki hverjir eiga afturkvæmt hingað á þingbekki að kosningum loknum. Þó er það vitað, að eftirtaldir alþm. og fyrrv. ráðh. verða ekki í kjöri við þær alþingiskosningar sem í hönd fara:

Ingólfur Jónsson, sem átt hefur sæti á Alþ. í 36 ár og verið ráðh, í nær 15 ár.

Gylfi Þ. Gíslason, sem átt hefur sæti á Alþ. í 32 ár og verið samfleytt ráðh. í 15 ár.

Jóhann Hafstein, sem átt hefur sæti á Alþ. í 32 ár og verið ráðh. í 8 ár og þar af forsrh. í eitt ár.

Eggert G. Þorsteinsson, sem átt hefur sæti á Alþ. í 25 ár og verið ráðh. í 6 ár.

Magnús Kjartansson, sem átt hefur sæti á Alþ. í 11 ár og auk þess oft mætt sem varamaður og verið ráðh. í 3 ár.

Guðlaugur Gíslason, aldursforseti Alþingis, sem átt hefur sæti á Alþ. í 19 ár.

Axel Jónsson, sem setið hefur á 15 þingum.

Jón Árm. Héðinsson, sem átt hefur sæti á Alþ. í 11 ár.

Ingiberg J. Hannesson, sem setið hefur hluta af þessu kjörtímabili á Alþingi.

Allir hafa þessir hv. þm. og fyrrv. ráðh. sett svip sinn á Alþingi og unnið mikilvæg störf í þágu lands og þjóðar, bæði á Alþingi og sem ráðherrar og markað spor á framfarabraut þjóðarinnar. Ég færi þeim öllum bestu þakkir Alþingis við þetta tækifæri og óska þeim gifturíkrar ævi í framtíðinni.

Sérstakar kveðjur Alþingis flyt ég þeim Jóhanni Hafstein, fyrrv. forsrh., og Magnúsi Kjartanssyni, fyrrv. iðnrh., en þeir eru báðir fjarstaddir vegna veikinda. Ég óska þeim góðs bata.

Þá er það þingheimi kunnugt, að ég hef ákveðið að hætta þingmennsku. Ég þakka ykkur öllum samstarf og kynni á liðnum árum. Ég minnist líka við þetta tækifæri hinna fjölmörgu manna sem ég hef kynnst á Alþingi og unnið með í lengri eða skemmri tíma. Þetta hefur verið viðburðaríkur og lærdómsríkur tími í ævi minni, og ég minnist hans með þakklæti og virðingu fyrir alþm. og Alþingi sem æðstu stofnun þjóðarinnar.

Ég þakka hæstv. ríkisstj. og hv. alþm., skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis umburðarlyndi í minn garð og einnig ánægjulegt samstarf á þessu þingi og á undanförnum árum. Sérstakar þakkir færi ég deildarforsetum sem ávallt hafa verið mjög samvinnuþýðir í öllu því sem að stjórn Alþingis lýtur. Ég þakka einnig varaforsetum sem jafnan hafa veitt mér ágæta aðstoð. Skrifurum þingsins þakka ég frábær störf. Skrifstofustjóra Alþingis og öllu starfsfólki þakka ég mikil og vel unnin störf, og sérstaklega þakka ég þá ró og festu sem allir hafa sýnt í því mikla annríki sem verið hefur síðustu sólarhringana.

Ég óska hv. alþm. góðrar heimferðar og heimkomu og árna ykkur öllum heilla um leið og ég þakka. Landsmönnum öllum óska ég árs og friðar.