10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

322. mál, Orkubú Vestfjarða

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er hafa verið samþ. hér á hinu háa Alþingi lög um Orkubú Vestfjarða. Þessi lög kveða á um nýskipan á skipulagsmálum orkumála í Vestfjarðakjördæmi, og sú tilraun, sem þar er gerð, hefur án efa mikil áhrif á frambúðarskipan þessara mála í öðrum landshlutum. Þess vegna er fylgst mjög vel með því, ekki aðeins á Vestfjörðum, heldur víðar á landinu, hvernig þessi tilraun tekst.

Nú í sumar var að tilhlutun iðnrn, og fyrir forgöngu þess hraðað mjög öllum undirbúningi að stofnun Orkubús Vestfjarða, hraðað meira en margar sveitarstjórnir á Vestfjörðum áttu von á, jafnvel meira en sumar sveitarstjórnir í kjördæminu voru fyllilega sáttar við. Hvað sem því líður, þá urðu málalyktir þær að nú í haust var gengið formlega frá stofnun Orkubúsins á fundi á Ísafirði þar sem heimamenn m.a. kusu stjórnarmenn sína í stjórn Orkubúsins. En síðan gerðist harla lítið. Hæstv. ráðh. skipuðu ekki fulltrúa sína í stjórn Orkubúsins. Vikum saman hefur stjórnin því verið óstarfhæf og gat því ekki tekist:í við verkefni sin, sem m.a. voru á þá lund að semja við ýmis sveitarfélög sem gert höfðu fyrirvara þegar þau samþykktu að gerast stofnaðilar, m.a. vegna þess að ekki hafði gefist tími til þess að svara ýmsum erindum þessara sveitarfélaga.

Ég lagði því fram á sínum tíma fskj. til hæstv. iðnrh, á þskj. 53 þess efnis:

„Hvað veldur því, að svo lengi hefur dregist að ráðh. skipi fulltrúa ríkisins í stjórn Orkubús Vestfjarða?“

Fljótlega eftir að þessi fsp. var lögð fram bar hins vegar svo við að fulltrúar ríkisvaldsins í þessa stjórn voru skipaðir, og fagna ég því að sjálfsögðu. Því er fyrirspurnin í sjálfu sér óþörf að öðru leyti en því, ef hæstv. ráðh. hefur sérstaka skýringu á hvernig stóð á að þetta dróst svo mjög.

Í annan stað vil ég vekja athygli á að á undanförnum missirum hefur verið mjög alvarlegt ástand í raforkumálum á Vestfjörðum. Í stuttum ræðutíma er ekki tími til að rekja það ástand, en það gerði ég mjög rækilega á Alþ. í fyrra þegar ég lagði fram og mælti fyrir till. um lagningu byggðalínu til Vestfjarða á tveim næstu árum. Þessi till. átti ríkan stuðning heimamanna og enn fremur hér á þingi ríkan stuðning þm. Vestfjarðakjördæmis. Till. var hins vegar ekki afgreidd þrátt fyrir það. Þegar undirbúningur hófst hins vegar að stofnun Orkubúsins nú í sumar var vitað að Rafmagnsveitur ríkisins höfðu tekið lagningu byggðalínu til Vestfjarða inn á framkvæmdaáætlun sína og ætluðu að leggja til við stjórnvöld að útvegað yrði fé til þess að leggja þessa linu á næstu tveim árum.

Eitt af áhyggjuefnum Vestfirðinga í sambandi við stofnun Orkubúsins var hvort stofnun Orkubúsins mundi verka letjandi eða hvetjandi á þessa nauðsynlegu framkvæmd. Ýmis sveitarfélög gerðu þann fyrirvara fyrir samþykkt sinni að ganga til stofnunar Orkubúsins að þessi byggðalína yrði lögð, og á umræddum fundi, sem haldinn var vestur á Ísafirði, lofaði að mínu viti hæstv. orkuráðh. að þetta yrði gert á næstu tveim árum og Vestfirðingar þyrftu ekki að óttast að þessi lína kæmi ekki. Þegar frv, til fjárlaga var hins vegar lagt fram, kom í ljós að þar er ekki gert ráð fyrir svo mikið sem einni einustu krónu til lagningar á þessari linu. Á bls. 187 er skýrt frá því að samtals sé ráðgerð 2306 millj. kr, lántaka vegna byggðalína. Þar er síðan sagt frá, hvernig á að ráðstafa þessu fé og ekki eitt orð um það, að ein króna af þessu fjármagni eigi að fara til lagningar byggðalínu til Vestfjarða. Ég tel ekki ástæðu til að ætla að hæstv. iðnrh. ætli ekki að standa við það loforð sem hann gaf Vestfirðingum, að því er ég ætla að vona í nafni ríkisstj. allrar, á fundinum þegar Orkubúið var stofnað. En til þess að fá þetta loforð hans endurtekið hér og upplýst að hæstv. ríkisstj. muni við það standa hef ég leyft mér að flytja svo hljóðandi fsp, á þskj. 53 til hæstv. ráðh.:

„Verður ekki staðið við þau fyrirheit, sem ráðh. hefur gefið Vestfirðingum um, að „byggðalína“ til Vestfjarða verði lögð á næstu tveim árum? Hvað veldur því, að í fjárlagafrv. ríkisstj, og því, sem vitað er um lánsfjáráætlun fyrir 1978, er engin till. gerð um fjárveitingar eða fjáröflun til framkvæmda við slíka línulögn?“

Hæstv. forseti. Ég vil svo, þó að það sé ekki í sambandi við þetta mál, vekja athygli á því, að á þessu sama þskj, er fsp. frá mér til hæstv. samgrh. um sjósamgöngur við Vestfirði sem ég veit ekki betur til en að samþykkt hafi verið hér á hinu háa Alþ., en hún hefur að einhverjum ástæðum ávallt fallið niður úr dagskrá fyrirspurnafunda í Sþ. og vil ég koma á framfæri við hæstv. forseta að það verði leiðrétt.