10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

322. mál, Orkubú Vestfjarða

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Með ályktun Alþingis 5. apríl 1971 var ríkisstj. falið að kanna óskir sveitarfélaga á Vestfjörðum um þátttöku í virkjunarframkvæmdum með það fyrir augum að stofna sameignarfyrirtæki ríkisins og sveitarfélaganna. Þáltill. þessi var flutt af öllum þm. Vestfjarða.

Málið lá að mestu í láginni næstu ár. Ávallt var þó mikill áhugi hjá Vestfirðingum á því að taka orkumálin í eigin hendur í samvinnu við ríkið.

Á aukaþingi Fjórðungssambands Vestfjarða í júnímánuði 1975 er hvatt til þess að stofnað verði sameignarfyrirtæki ríkis og sveitarfélaga er hafi með höndum rekstur orkumannvirkja í fjórðungnum. Sams konar hugmyndir höfðu einnig komið fram í niðurstöðum á ráðstefnu Sambands ísl. rafveitna 1972 um skipulag orkumála. Iðnrh. skipaði í júlí 1975 n. til að vinna að orkumálum Vestfjarða og kanna viðhorf sveitarfélaga á Vestfjörðum til stofnunar Vestfjarðavirkjunar. N. þessi hlaut nafnið orkunefnd Vestfjarða, var skipuð 23. júlí 1975 og áttu 7 menn sæti í henni, þeir Jóhann T. Bjarnason, Engilbert Ingvarsson, Karl E. Loftsson, Ólafur Kristjánsson Guðmundur H. Ingólfsson, Ingólfur Arason og Þorvaldur Garðar Kristjánsson, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar.

Þessi n. vann starf sitt af miklum dugnaði. Hún fékk til liðs við sig sérfræðinga og ræddi við fjölmarga menn sem höfðu til að bera staðarþekkingu, sérþekkingu eða voru í fyrirsvari í orkumálum Vestfjarða.

Þegar n. hafði mótað till. sínar efndi hún til 8 funda á Vestfjörðum með sveitarstjórnarmönnum þar. Till. voru kynntar og skipst á skoðunum. Kom fram mikill einhugur og áhugi á framgangi þessa máls. Einnig átti n. fundi með þm. og Fjórðungssambandi Vestfjarða.

Í lok mars 1976 skilaði n. till. sínum fullmótuðum til iðnrh. Var þar í fyrsta lagi um að ræða frv. til l. um Orkubú Vestfjarða og í öðru lagi till. um framkvæmdir í orkumálum. Var gerð ítarleg úttekt á orkumálum í því sambandi.

Megininntak frv. var þetta:

1. Ríkissjóður og sveitarfélög á Vestfjörðum skulu setja á stofn orkufyrirtæki er nefnist Orkubú Vestfjarða.

2. Orkubúið er sameignarfyrirtæki ríkisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum. Eignarhlutur ríkisins skal vera 40%, en eignarhlutur sveitarfélaganna skulu vera samtals 60%.

3. Tilgangur fyrirtækisins skal vera að virkja vatnsafl og jarðhita á Vestfjörðum þar sem hagkvæmt þykir. Skal Orkubúið eiga og reka vatnsorkuver og dísilraforkustöðvar til raforkuframleiðslu ásamt nauðsynlegum mannvirkjum til orkuflutnings og dreifingar. Fyrirtækið skal eiga og reka jarðvarmavirki og nauðsynlegt flutningskerfi og dreifikerfi fyrir heitt vatn. Skal fyrirtækið eiga og reka fjarvarmakyndistöðvar ásamt nauðsynlegu dreifikerfi. Fyrirtækið skal annast virkjunarrannsóknir og aðrar undirbúningsrannsóknir eftir því sem ákveðið er hverju sinni.

4. Rafmagnsveitur ríkisins og ríkissjóður svo og orkuveitur sveitarfélaga á Vestfjörðum skulu afhenda Orkubúinu til eignar sem stofnframlag öll mannvirki og dreifikerfi sín á Vestfjörðum og taka við skuldum vegna þeirra eftir nánara samkomulagi.

5. Stjórn Orkubús Vestfjarða skal skipuð 5 mönnum. Á aðalfundi fulltrúa sveitarfélaga skulu kosnir 3 menn, iðnrh, og fjmrh. skipa einn mann hvor.

6. Iðnrh. skal gangast fyrir að sameignasamningur sé gerður og stofnfundur haldinn.

Frv. orkunefndar Vestfjarða um Orkubú Vestfjarða var síðan lagt fram á Alþ. sem stjórnarfrv. og tekið til 1. umr. í Ed. hinn 7. apríl 1976. Frv. var samþykkt og afgreitt sem lög frá Alþ. 18. maí 1976.

Ettir samþykkt laganna varð að kanna ýmis fjármála- og framkvæmdaatriði og undirbúa sameignarstofnsamning. Voru þar ýmis atriði erfið viðfangs og tímafrek, svo sem yfirtaka lána. Að þessum undirbúningi unnu mest Þorvaldur Garðar Kristjánsson alþm., Þóroddur Sigurðsson verkfræðingur, Guðmundur Magnússon prófessor í samráði við iðrn. Í samræmi við till, og grg. orkunefndar skyldu meginforsendur fyrir stofnun Orkubúsins vera þessar:

1. Fullnægt verði orkuþörf Vestfirðinga með innlendum orkugjöfum.

2. Vestfirðingar búi við sambærilegt orkuverð og aðrir landsmenn.

3. Orkubúið hafi traustan rekstrargrundvöll. Málið var rætt á fundum ríkisstj., till. voru sendar öllum hreppsnefndum og bæjarstjórnum á Vestfjörðum og fundir haldnir með forráðamönnum orkuveitna á Vestfjörðum. Var síðan boðað til undirbúningsstofnfundar í Reykjavík 14. júlí 1977 og í framhaldi af því haldinn stofnfundur Orkubús Vestfjarða 26. ágúst 1977 á Ísafirði. Var þar undirritaður sameignarsamningur milli ríkis og sveitarstjórna á Vestfjörðum. Iðnrh. tók fram að samningsgerðin væri háð endanlegu samþykki ríkisstj, og að um sum atriði samningsins þyrfti samþykki Alþingis.

Á ríkisstjórnarfundi 25. okt. 1977 samþykkti ríkisstj. sameignarsamninginn.

Stjórn Orkubús Vestfjarða skipa Guðmundur H. Ingólfsson forseti bæjarstjórnar Ísafjarðar, formaður Jóhann T. Bjarnason framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfjarða, varaformaður Össur Guðbjartsson bóndi, oddviti Rauðasandshrepps, ritari, Engilbert Ingvarsson rafveitustjóri Rafveitu Snæfjalla, meðstjórnandi, Ólafur Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar Bolungarvíkur, vararitari.

Varamenn eru: Ingólfur Arason hreppsnefndarmaður, Patreksfirði Karl Loftsson oddviti, Hólmavík, Birkir Friðbertsson hreppsnefndarmaður, Suðureyri, Ágúst H. Pétursson hreppsnefndarmaður, Patreksfirði, Þóroddur Sigurðsson, vatnsveitustjóri í Reykjavík.

Stjórnin hefur þegar tekið til starfa. Hafnar eru viðræður við sveitarfélög og Rafmagnsveitur ríkisins um yfirtöku orkumannvirkja þessara aðila á Vestfjörðum. Skriður er kominn á undirbúning reglugerðar fyrir Orkubú Vestfjarða og auglýst hefur verið eftir framkvæmdastjóra. Stjórn Orkubús Vestfjarða stefnir að því að yfirtaka rekstur raforkumannvirkja á samveitusvæðum Þverárvirkjunar og Mjólkárvirkjunar 1. jan. 1978.

Með stofnun Orkubús Vestfjarða er stigið markvert spor í átt til betra skipulags orkumála og Vestfirðingar hafa nú fengið langþráða heimastjórn í orkumálum Vestfjarða.

Sem svar við seinni hluta fsp., um byggðalínu til Vestfjarða, vil ég taka fram:

Við samningu frv. til fjárlaga fyrir árið 1978 gerði iðnrh. till. um framlag til 132 kw. byggðalínu, áætlaður kostnaður árið 1978 639 millj. kr. og í aðveitustöðvar 54 millj. kr. Þessar till. voru ekki teknar upp í frv. til fjárlaga. Kemur til kasta Alþingis að tryggja framgang þessa máls.

Út af ummælum í fsp. um hvort staðið verði við fyrirheit iðnrh., þá kennir hér misskilnings hjá hv. fyrirspyrjanda. Það er bókað á stofnfundinum vestra varðandi Vestfjarðalínuna, að iðnrh. hefði falið Rafmagnsveitum ríkisins að hefja undirbúning að lagningu svonefndrar byggðalínu eða Vestfjarðalínu. Í samræmi við þetta hafa Rafmagnsveiturnar og iðnrn. gert till. við samningu fjárlaga fyrir 1978 um að Vestfjarðalínan verði lögð á árunum 1978 og 1979 og verði tekin í notkun haustið 1979. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við línuna verði um 2500 millj, kr, án úttaks fyrir Þverárvirkjunarsvæðið sem gert er ráð fyrir að komi síðar.