10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

322. mál, Orkubú Vestfjarða

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að ræða nú slíkt mál sem Orkubú Vestfjarða er, og það er ekki tími til þess. Árið 1976 voru samþykkt á Alþ. heimildarlög um stofnun Orkubús Vestfjarða og varðandi afstöðu mína vil ég aðeins vísa til þess sem ég sagði þá. Hins vegar voru mörg atriði óljós þegar þau lög voru afgreidd, og ég vil leyfa mér að spyrja hvort það sé ekki rétt skilið að breytingar þurfi að verða á einhverjum lögum, t.d. lögum um verðjöfnun raforku, áður en Orkubú Vestfjarða tekur til starfa. Það hefur komið hér fram, að áætlað er að þetta fyrirtæki taki til starfa 1. jan. 1978, og ég vil aðeins leyfa mér að koma því á framfæri sem minni skoðun og spyrja að því, hvort ekki væri eðlilegra, áður en þetta mál kemst miklu lengra, að Alþ. samþykkti þær breyt, sem eru fyrirhugaðar, og hvort þessi frv., a.m.k. frv. um breyt. á verðjöfnunargjaldinu, séu ekki væntanleg. Ég tel að Alþ. hafi ekki endanlega staðfest vilja sinn í þessu máli fyrr en slíkar lagabreytingar hafa verið samþykktar.