10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

322. mál, Orkubú Vestfjarða

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég hef oft lýst þeirri skoðun minni, að stefna eigi að heildarskipulagi orkumála hér á landi, setja á fót landshlutaveitur í einstökum landshlutum, en landsveita sjái um alla meginorkuöflun og dreifingu um landið í heild. Ég hef litið á Orkubú Vestfjarða sem lið í þessari stefnu, þótt ég hefði að vísu heldur kosið að heildarstefna hefði verið ákveðin áður en Orkubúið var sett á fót. Ég hef oft rætt þetta mál við hæstv. iðnrh. og fleiri og ég hef ávallt lýst þeirri skoðun minni, að skilyrði til þess að Orkubú Vestfjarða fengi staðið nokkurn veginn sjálfstætt væri lína inn á Vestfirði. Raunar hef ég einnig lýst þeirri skoðun minni, að það væri hyggilegra, bæði fyrir Orkubúið og fyrir landið í heild, að meginorkuverin á Vestfjörðum yrðu rekin með einni landsveitu, þ.e.a.s. Mjólkárvirkjanir. Úr því hefur ekki orðið enn, en vel getur það að sjálfsögðu breyst ef landsveita verður sett á fót.

Mér sýnist raunar verið að deila hér um keisarans skegg. Það kom raunar fram í svari hæstv. ráðh., að hann hét því á fyrrnefndum fundi að lina skyldi lögð vestur á firði á næstu tveimur árum, enda hlyti það samþykki Alþ. Þannig skildi ég þetta. Ég held að það skipti ekki öllu máli, hvort í bókun sé sagt að iðnrn. og Orkustofnun geri till. um slíkt. Þetta eru tvær stofnanir sem eru undir stjórn hæstv. ráðh.

Það hefur valdið mér og fleiri mjög miklum vonbrigðum að þetta hefur ekki komist inn í fjárlagafrv. Ég treysti því, að hæstv. iðnrh. beiti sér fyrir samþykkt á þessari framkvæmd hér á hinu háa Alþ. Ég veit að við þm. Vestf. munum allir standa með honum að því. Og ég tek undir það, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að það er áreiðanlega mjög ofarlega í hugum margra, sem inn í Orkubúið gengu, að þessi framkvæmd hæfist, og reyndar skilyrði fyrir þátttöku þeirra. Ég hygg að þeir líti svo á, að vilyrði ráðh., sem var gefið með fyrrnefndum fyrirvara, sé það þungt á metum að slíkt hljóti að nást fram.