10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

322. mál, Orkubú Vestfjarða

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Aðeins fáein orð í tilefni þess að hæstv. orkumálaráðh. hefur flutt skýrslu um stofnun Orkubús Vestfjarða. Ég vil af þessu tilefni láta koma fram, að það hefði verið ómögulegt að koma þessu máli í höfn svo sem nú hefur gerst, þó að Alþ. hefði samþykkt heimildarlög um stofnun Orkubús Vestfjarða, nema fyrir ákveðnu vilja og stuðning og forustu hæstv. iðnrh. í þessu máli. Og ég vil nota þetta tækifæri til þess að láta heyrast hér og flytja þakkir sem hvarvetna á Vestfjörðum eru efst í hugum manna fyrir það sem hæstv. ráðh. og hæstv, ríkisstj. í heild hefur gert í þessu máli.

Það eru vonir allra og ekki síst Vestfirðinga, að það, sem nú hefur gerst í orkumálum fjórðungsins, verði giftu- og heillaspor í sögu Vestfjarða. Ég held að það sé ekki ástæða til þess nú í upphafi og við þetta tækifæri að fara að vefengja það eða bera brigður á það, að staðið verði við elna meginforsenduna fyrir stofnun Orkubús Vestfjarða, þ.e.a.s. að séð verði fyrir orkuþörf Vestfirðinga með innlendum orkugjöfum. Ég, eins og allir aðrir sem hafa komið nálægt þessum málum, treysti auðvitað því, að svo verði haldið á þeim að bæði þessi og aðrar mikilvægustu forsendur fyrir stofnun Orkubúsins standist.