10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

70. mál, nýr rafstrengur til Vestmannaeyja

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) ; Herra forseti. Á Alþ. 4. maí 1977 var samþykkt svo hljóðandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela Rafmagnsveitum ríkisins að gera nú þegar framkvæmda- og kostnaðaráætlun um lagningu nýs rafstrengs til Vestmannaeyja.“

Þá hafði þetta mál verið mjög til umr. að undanförnu milli iðnrn. og Rafmagnsveitna ríkisins. Nokkru áður en þessi þáltill. var afgreidd frá Alþ., eða 29. apríl sama ár, ritaði iðnrn. svo hljóðandi bréf til Rafmagnsveitna ríkisins:

„Í framhaldi af fyrri viðræðum milli rn. og Rafmagnsveitnanna um lagningu nýs sæstrengs til Vestmannaeyja óskar rn. eftir því, að upplýsingum og kostnaðaráætlun verði hraðað til þess að hægt sé að undirbúa aðgerðir til fjáröflunar og framkvæmda.“

Þessi áætlun liggur fyrir og er gert ráð fyrir að kostnaður við nýjan sæstreng muni vera um 220 millj. kr. Iðnrn. gerði till. um að tekið yrði inn í frv. til fjárl. framlag til nýs sæstrengs milli Vestmannaeyja og lands eins og hér greinir. Við meðferð fjárlagafrv. á Alþ. og/eða lánsfjáráætlunar verður á einn eða annan hátt að tryggja fjármagn til þessa nýja strengs milli lands og Eyja.