10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

70. mál, nýr rafstrengur til Vestmannaeyja

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir áhuga hans á þessu máli. Það var í fyrra, þegar strengurinn bilaði til Vestmannaeyja, ljóst hvað mikill háski væri á ferðum ef rafmagn færi af á vertíðinni þegar orkuþörf er mest. Það var þá sem Vestmanneyingar komu að máli við ýmsa þm. Suðurl. og óskuðu eftir því, að þeir ræddu þetta við stjórnvöld. Við ræddum málið við hæstv. iðnrh. við ræddum það við hæstv. fjmrh., við ræddum það við forstjóra Rafmagnsveitna ríkisins og fengum góðar undirtektir, sbr. bréf hæstv. iðnrh. til forstjóra Rafmagnsveitna ríkisins um þetta efni, að gera áætlun um kostnað við nýjan rafstreng til Vestmannaeyja. Það er aukaatriði hvort þetta var áður en till. til þál. um rafstreng til Eyja var samþykkt. Það var áður en till. var samþykkt, en ég vil ekki fullyrða hvort það var áður en hún var flutt. Það skiptir engu máli. En bréf ráðh. var sent í kjölfar viðræðna okkar við hæstv. ráðh. um þetta mál. Till., sem hér hefur verið minnst á, var samþ. á Alþ., að ég ætla, með öllum atkv. viðstaddra, svo sjálfsagt þótti alþm. að samþykkja þessa till. ef það mætti verða málinu til styrktar.

Það er gert ráð fyrir að rafstrengurinn kosti 220 millj. kr. Gera má ráð fyrir að það þurfi að borga um 20% af verðinu við undirskrift, en eftirstöðvarnar fáist til 5–7 ára

Í fjárlagafrv., á bls. 131, er liður sem nefnist:

Fjárfestingar almennar, hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Ég hef spurt forstöðumann Rafmagnsveitna ríkisins hvort gert væri ráð fyrir rafstrengnum í þessari upphæð. Það vildi hann ekki segja og taldi að það væri æskilegt, ef ekki nauðsynlegt að hækka þennan lið eitthvað ef rafstrengurinn ætti að koma með. Ég hef sannfæringu fyrir því, að fjvn. muni leggja sig fram um að fá þann lið hækkaðan ef þörf er til þess að rafstrengurinn til Vestmannaeyja verði með. En það þarf að ákveða kaupin á honum nú fyrir áramót. Afgreiðslufrestur mun vera sjö mánuðir, og það má ekki verða seinna en í ágústmánuði n.k. sem strengurinn verður lagður.