10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

70. mál, nýr rafstrengur til Vestmannaeyja

Þórarinn Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins undirstrika það, að þetta er mál sem okkur Sunnlendingum er ákaflega mikilsvert. Það er ákaflega mikið atriði og nauðsynlegt að geti náð fram að ganga, að við höfum meira öryggi en verið hefur í rafmagnsmálum fyrir þessa útgerðarstöð og fólkið sem býr í Eyjum. Það búa hátt í 5 þús. manns í Vestmannaeyjum og þarna er stærsta útgerðarstöð landsins, og ef rafmagn eða orka er ekki fyrir hendi er þarna vá fyrir dyrum.

Það vildi svo til á síðasta vetri, að tvisvar sinnum slitnaði þessi strengur. Það varð til þess að opna augu manna fyrir því, að þarna er um að ræða alvarlegt mál sem getur orðið til þess að Vestmanneyingar hafi ekki nema litinn hluta þess rafmagns sem þeir þurfa, þann tíma sem er þýðingarmestur, þ.e. um vertíðina. Það er rétt, eins og kom hér fram hjá hv. þm. Garðari Sigurðssyni, að það getur orðið mjög hæpið að hægt sé að gera við bilanir á vissum tíma vetrarins. Það er oft svo, að það er erfitt að eiga við lagfæringu þegar vont er í sjóinn og jafnvel ekki hægt. Þess vegna getur það dregist allt of lengi að slíkar bilanir fáist viðgerðar. Því er mikil nauðsyn að tryggja það fyrr en seinna að Vestmanneyingar geti fengið aukastreng sem mundi tryggja þeim að þetta gæti vart komið fyrir, eða þá að þeir fengju varastöð úti í Eyjum. En ég vil taka það fram, að með því móti er líka stofnað til mikils kostnaðar, og ég veit ekki betur en á síðasta vetri hafi það valdið Rafveitu Vestmannaeyja miklum kostnaði að þessar bilanir urðu. Ég vil þess vegna leggja áherslu á það, að það er okkur ákaflega mikils virði og mikið atriði að þessi stóra verstöð ásamt því þéttbýli, sem þarna er, fái það öryggi að nýr strengur verði lagður.