14.11.1977
Efri deild: 14. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

38. mál, iðnaðarlög

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Iðnaðarlöggjöfin á Íslandi er að meginstofni til frá árinu 1927 og að því leyti orðin um hálfrar aldar gömul. Nokkrar breytingar hafa þó verið gerðar á henni, m.a. 1970, og voru þær breytingar þá felldar inn í fyrri lög og þau endurútgefin sem lög nr. 79/1971.

Síðan lögin frá 1927 voru upphaflega sett hafa að sjálfsögðu margvíslegar breytingar orðið, ekki aðeins í þjóðfélaginu almennt, heldur varðandi iðnað og iðju og því vissulega tímabært að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar. Á Alþ. 1915 flutti Gunnar J. Friðriksson þáltill. um að fela ríkisstj. að láta endurskoða lög um iðju og iðnað og Leggja fram frv. til nýrra iðnaðarlaga. Þessi till. var samþ. á Alþ. og í framhaldi af því skipaði iðnrh. n. manna til að vinna að þessu máli. Í n. voru Páll S. Pálsson, skv. tilnefningu Félags ísl. iðnrekenda, Sigurður Kristinsson, skv. tilnefningu Landssambands iðnaðarmanna, Axel Gíslason, skv. tilnefningu Sambands ísl. samvinnufélaga, Guðmundur Þ. Jónsson, skv. tilnefningu Landssambands iðnverkafólks, Sigurður Guðgeirsson, skv. tilnefningu Iðnsveinaráðs Alþýðusambands Íslands, auk þeirra Björgvin Frederiksen, fyrrv. forseti Landssambands iðnaðarmanna, og Þorvarður Alfonsson, sem jafnframt var skipaður formaður n. Iðnnemasamband Íslands fór fram á það við iðnrn. að fulltrúi þess fengi að taka þátt í störfum n. og var það að sjálfsögðu heimilað. Fulltrúi þess, Steindór Jóhannsson, sótti fundi n. með tillögurétti. Starfsmaður og ritari n. var Gísli Einarsson lögfræðingur.

Í n. náðist samkomulag um það frv. sem hér liggur fyrir. Er ítarlega rakið í grg. frv. í hverju breytingar og nýmæli eru fólgin frá gildandi lögum. Ég skal því aðeins rekja það stuttlega.

Í fyrsta lagi er sú orðnotkun í gildandi lögum að þar er talað um iðju og iðnað, en n. taldi rétt að nota heitið iðnað sem samheiti um allan iðnað, hvort sem væri handiðnaður eða verksmiðjuiðnaður. Frv. heitir: Frumvarp til iðnaðarlaga.

Í 3. gr. frv. er rætt um skilyrði til iðjuleyfis eða iðnaðarleyfis og eru þar nokkur nýmæli á ferð. Í fyrsta lagi er tekið upp það skilyrði að íslenskan ríkisborgararétt þurfi til iðnaðarleyfis, enn fremur gerðar kröfur um bókhaldsþekkingu, sem ekki hefur áður verið, og loks, að ekki megi veita þeim, sem hlotið hefur dóm fyrir verknað sem varðar sviptingu starfsréttinda skv. hegningarlögum, iðnaðarleyfi.

Þá er í frv. fjallað um það mál sem stundum hefur verið nokkur vafi á hvernig túlka skyldi. Það er í fyrsta lagi hvort aðrir en iðnlærðir mættu starfa við iðnað. Ákvæði voru um það í gildandi lögum, en hefur e.t.v. ekki að öllu leyti verið fylgt fram í reynd. En n. varð sammála um að leggja til að í 8. gr. frv. yrði ákveðið að ráða megi verkafólk til iðnaðarstarfa. Það er oft og tíðum talið nauðsynlegt að ráða til iðnaðarstarfa ófaglært aðstoðarfólk, en hins vegar rétt að taka skýrt fram að iðnlært fólk hefur að sjálfsögðu alltaf forgang til iðnaðarstarfa skv. kjarasamningum og mundi þetta ákvæði að sjálfsögðu engin áhrif hafa á það.

Þá er í gildandi lögum ákvæði um að dyravörðum og öðrum umsjónarmönnum við ríkisstofnanir skuli heimilt að vinna algenga iðnaðarvinnu til viðhalds húsum og munum slíkra stofnana. Í frv. er gert ráð fyrir að halda þessu ákvæði, en rýmka það þannig að það nái einnig til annarra starfsmanna ríkis- og einkafyrirtækja. Hins vegar er orðalaginu breytt þannig að í staðinn fyrir „algenga iðnaðarvinnu“ segir: „minni háttar viðhald“, en n. tekur fram að hér sé ekki um efnisbreytingu að ræða.

Þá er ákvæði í gildandi lögum um það, að í sveitum og kauptúnum með 300 íbúa eða færri megi óiðnlærðir menn vinna að byggingariðnaðarstörfum. Nú er það þannig að skv. skipulagslögum frá 1964 er gerður greinarmunur á kauptúnum, sem í eru færri en 100 íbúar eða fleiri. Þótti n. rétt að miða nú við það mark, að í sveitum og kauptúnum með 100 íbúa eða færri mættu óiðnlærðir menn vinna að iðnaðarstörfum, en ef fjölmenni er meira í kauptúni er þar skipulagsskylda til komin. Í gildandi lögum náði þessi heimild til byggingariðnaðarstarfa, en er nú rýmkuð þannig, að hún nái til hvers konar iðnaðarstarfa.

Þá er það nýmæli að iðnaðarmenn skuli hafa lögvernd um starfsheitt sitt að sínu leyti eins og verkfræðingar, tæknifræðingar og húsameistarar hafa og er um það ákveðið í 9. gr.

Í 10. gr. frv. er fjallað um skilyrði til þess að fá meistarabréf og eru þar nokkur nýmæli. M.a. vil ég benda á það, að í gildandi lögum er ákveðið að sá geti öðlast meistararéttindi sem hefur sveinspróf í iðn sinni og að sveinsprófi loknu hefur unnið ekki skemur en 3 ár samtals sjálfstætt og undir stjórn meistara. Um þetta orðalag, túlkun þess og framkvæmd hafa menn ekki verið á einu máli, hvort nægilegt væri að annaðhvort væri unnið sjálfstætt eða undir stjórn meistara í þessi þrjú ár eða hvort ætti að skipta þessu til helminga, 11/2 ár á hvorum stað, eða túlka það á annan hátt. Hefur menn þar greint á. Þótti rétt að gera þetta ákvæði alveg skýrt þannig að nú segir, að maður þurfi að hafa unnið undir stjórn meistara í iðngreininni að loknu sveinsprófi eigi skemur en 2 ár.

Ég tel mikla bót að fá löggjöfina um iðju og iðnað endurskoðaða og tel að þær breytingar, sem n. hefur lagt til að gerðar verði, séu yfirleitt til bóta. Samstaða varð um þetta frv. í undirbúningsnefndinni.

Ég vænti þess, að frv. fái góðar undirtektir í þessari hv. d., og legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.