14.11.1977
Efri deild: 14. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

38. mál, iðnaðarlög

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vil fagna framkomu þessa frv. Mér finnst það að mestu leyti skýrt og þar kemur skýrt fram við hvað er átt. En þar sem ég á ekki sæti í þeirri n. sem fjalla mun um þetta frv. vil ég aðeins benda hér á tvö atriði.

Það stendur í 14, gr., að í hverjum kaupstað skuli vera iðnráð sem hefur það hlutverk að halda uppi eftirliti með ákvæðum þessara laga og starfa skv. lögum um iðnfræðslu. Nú er það svo, að það er mjög mismunandi hvaða aðilar óska eftir kaupstaðarréttindum. Það eru til mjög fjölmenn byggðarlög í landinu sem gætu út af fyrir sig fengið kaupstaðarréttindi, en hafa ekki æskt eftir því, þannig að mér finnst til athugunar hvort ekki beri að hafa þarna aðra viðmiðun, því ég hygg að það sé eins þörf fyrir iðnráð á ýmsum fjölmennum stöðum sem hafa ekki kaupstaðarréttindi. Ég vildi aðeins benda á þetta.

Einnig er vert að íhuga það aðeins betur sem kemur fram í 4. gr. um skilyrði til þess að reka iðnað. Þar kemur fram að ef félag er hlutafélag, þá skuli enn fremur meira en helmingur hlutafjárins vera eign manna búsettra á Íslandi. Ég hygg að það mundi vera tryggara að það væri gerð krafa til þess að viðkomandi menn hefðu verið búsettir hér ákveðinn tíma, því að það er svo, að menn geta að vísu sest hér að og verið nýlega komnir hingað til landsins. Ég vildi aðeins varpa því fram, að það væri rétt, að íhuga hvort ekki bæri að gera það að skilyrði að viðkomandi aðilar hefðu búið hér ákveðinn tíma, t.d. 2 ár eða svo, þannig að það væri ljóst að menn væru raunverulega búsettir í landinu og ætluðu sér að búa hér.

Að öðru leyti vil ég vonast til að þetta frv. nái fram að ganga eftir þá athugun sem það mun fá í nefnd.