14.11.1977
Neðri deild: 14. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

21. mál, kosningar til Alþingis

Ingvar Gíslason:

Hæstv. forseti. Ég skal hvorki vera allt of langorður né ætla ég heldur að hvarfla allt of mikið frá efni þessa frv., þó að það gefi náttúrlega tilefni til nokkuð víðtækra umr. um kosningamálin og um stjórnarskrármálefni almennt. En hér hafa orðið allmiklar umr. um þetta mál og er það kannske að vonum.

Þetta frv. er ekki mikið að vöxtum í prentuðu máli, en eigi að síður er það býsna efnismikið. Það felur í sér mjög róttæka breytingu á kosningaháttum, þannig að það er kannske ekki hægt að ganga öllu lengra í því, og það ætti því að vera fyrirgefanlegt þó að menn staldri ögn við og reyni að átta sig á þessu máli og athugi hvað felst í þessu máli. Og hvað skyldi það þá vera sem felst í þessu frv.? Það felst í því, að það skuli raða frambjóðendum til Alþ. eftir starfrófsröð á lista. Síðan á það að vera hlutverk kjósenda, ef þeir vilja, ef þeir óska eftir því, að raða nöfnunum í töluröð. En ef kjósendur nota ekki rétt sinn til þess að raða í töluröð, þá skilst mér að stafrófsröðin eigi að gilda. Þetta er hið fullkomna lýðræði, skilst mér á hv. flm. En ætli þessi fullyrðing hans um hið fullkomna lýðræði fái staðist? Ég held að hún standist ekki, því að ef annmarkar eru á núverandi fyrirkomulagi, þá er till. hv. 4. þm. Reykn. ekki síður gallagripur. Og það er því miður svo um þetta frv., að það er reglulegur gallagripur. Frv. hefur að vísu góðan tilgang, en ég er ósköp hræddur um, að minn ágæti vinur, hv. 4. þm. Reykn., eigi eftir að komast að því, eins og stendur einhvers staðar í uppbyggilegum sálmi eða fræðum, að góð meining enga gerir stoð. Tilgangurinn er sá að gera kosningarnar lýðræðislegri með því að þær verði persónubundnari og þar með persónulegri, geri ég ráð fyrir, þannig að kjósandinn finni til mikilvægis síns, þegar hann gengur til kosninga, og finni að hann er að fela á persónulegan hátt pólitískt umboð sitt þeim frambjóðanda sem hann helst óskar, og slíkan tilgang get ég ekki lastað. Hann er ákaflega góður og hann lýsir göfugu hugarfari hv. flm. En gallinn við frv. er sá, að þótt tilgangurinn sé góður, þá er frv. ófært um að ná tilgangi sínum um hið fullkomna lýðræði. Því miður óttast ég að árangurinn verði alveg þveröfugur, nefnilega lýðskrum í stað lýðræðis.

Ég fæ ekki betur séð en lýðskrum fari stórvaxandi með þjóðinni og það sé síst ástæða til þess að kynda undir slíku með yfirborðslegum hugmyndum um endurbætur á kosningalögum og kjördæmaskipun. Sannleikurinn er sá, að kosningafyrirkomulag og kjördæmaskipun eru hvergi nærri eins bölvuð og margir vilja vera láta. A.m.k. er víst, að kosningafyrirkomulagið hentar vel þeirri kjördæmaskipun sem við búum við. Um kjördæmaskipunina sjálfa má sjálfsagt deila og sitthvað segja. Ef eitthvað er að kjördæmaskipuninni nú, þá finnst mér það liggja í því að kjördæmin séu of stór og þau séu of sundurleit. Hins vegar er ég sammála hv. 4. þm. Reykn. um það, að einmenningskjördæmi séu ekki í öllum tilfellum eftirsóknarverð. Þó er það svo með einmenningskjördæmin, að þar eru kosningar óneitanlega persónulegar, því að þar á sér stað útsláttarkeppni milli frambjóðenda, þannig að einn þeirra, ein persóna, stendur yfir höfuðsvörðum andstæðinga sinna. Þeir, sem því líta stærstum augum á persónuleg vopnaviðskipti og einliðaleik í framboðum til Alþingis, telja sennilega einmenningskjördæmin æskilegust, næstum að segja hvernig sem á stendur. Ég tel að einmenningskjördæmi geti átt rétt á sér í vissum tilfellum, en að þau séu fráleit í öðrum. T.d. tel ég fráleita þá hugmynd að skipta Reykjavík í einmenningskjördæmi eða stærstu kaupstöðum, svo sem Akureyri og Kópavogi. Þar finnst mér hlutfallskosning ein eiga að koma til greina, þó að einmenningskjördæmi geti átt við í fámennari félagsheildum, t.d. í fámennum sýslufélögum, ef við færum út í það að búta niður núverandi kjördæmi. Annars held ég að breyting á kjördæmaskipun sé ekki mjög aðkallandi vandamál.

Menn eru sagðir ræða mikið um kosningafyrirkomulagið. Ég held að það sé rétt, að talsvert hefur verið rætt um það í fjölmiðlum og e.t.v. manna á meðal, að kosningar til Alþ. þyrftu að vera persónubundnari — persónubundnari og persónulegri — en þær eru. Í sjálfu sér finnst mér ósk um þetta efni ekki óeðlileg og þar af leiðandi er nauðsynlegt að ræða þetta mál hér á Alþ. og athuga það gaumgæfilega. En ég held að athugun muni leiða í ljós, að það er engan veginn auðvelt að verða við ýmsum kröfum í þessu efni eins og þær eru stundum settar fram, enda eru þær oft lítið hugsaðar og þjóna ekki lýðræðisfyrirkomulaginu þegar til kastanna kemur. Þær eru ekki einungis ranghverfa einstaklingshyggjunnar, heldur líka mistúlkun á þeirri skoðun sem allir lýðræðissinnar hafa, að persónufrelsi sé eitt aðaleinkenni lýðræðis. Og hver er það t.d. í þessum sal sem vill ekki persónufrelsi? Slíkur maður finnst auðvitað ekki í þessum sal. Samt held ég að allir geri sér grein fyrir því, að persónufrelsi er ekki í því fólgið að maður hafi leyfi til að aðhafast hvað sem honum kann að detta í hug né heldur að menn komist hjá því að móta sér skynsamlegt þjóðskipulag sem byggt er á lögum og reglu, á stjórn og valdbeitingu og á því að menn skerði eitthvað persónulegt frelsi sitt.

Við Íslendingar höfum komið á hjá okkur þjóðskipulagi sem byggt er á lýðræði og þingræði og margflokkakerfi. Þetta þjóðskipulag er auðvitað ekki gallalaust fremur en önnur mannaverk. Um lýðræðið hefur verið sagt að það sé mjög slæmt þjóðskipulag, en þó sé það skárra en annað sem í boði er. Lýðræðisþjóðskipulagið leysir okkur t.d. ekki undan klafa valdsins, þeirri kvöð að híta lögum og reglu, og allra síst þeim „ágalla“ að þurfa að taka tillit til annarra. Sannleikurinn er sá, að lýðræðisskipulagið krefst þess fyrst og fremst að menn vinni saman. Það krefst félagshyggju engu síður en persónufrelsis. Þessi krafa um samvinnu og félagshyggju hefur orðið að veruleika á þann hátt, að fólk stofnar með sér félög og samtök til þess að hafa áhrif í þjóðfélaginu, en berst ekki algerlega eitt í einhverri sérvisku og sérgæðingsskap. Þó er slíkt engum bannað. Menn geta, ef þeir vilja, verið sérgæðingslegir og andfélagslegir í okkar þjóðfélagi. En sem betur fer eru það næsta fáir sem velja sér slíkt hlutskipti. Yfirgnæfandi meiri hluti fólks lítur á samtök og félagsskap sem sjálfsagðan hlut og í rauninni undirstöðu þess þjóðskipulags sem við köllum lýðræði, — þjóðskipulags sem er ekki gallalaust, en er þó skárra en annað sem um er að velja. Ég vona að sem flestir átti sig á því, að stjórnmálaflokkar eru félagsleg samtök og eru ómissandi í lýðræðis- og þingræðislandi. Það er a.m.k. víst, að margt væri á annan veg og örðugra ef ekki væru í landinu þau skipulögðu fjöldasamtök sem nefnast stjórnmálaflokkar.

Þó er ekki því ekki að leyna, að oft og tíðum gætir misskilnings og mistúlkunar að því er varðar störf og stöðu stjórnmálaflokkanna. Ég er ekki frá því að afflutningur á mikilvægi stjórnmálaflokka sé meiri hér á landi en annars staðar í nálægum lýðræðislöndum. Má með nokkrum sanni segja að um alllangt skeið hafi flætt yfir landið linnulaus áróður gegn stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum, og þessi áróður hefur jafnvel gengið út yfir Alþ. sem stofnun, að ekki sé minnst á alþm, sem einstaklinga. Þessi áróður hefur verið mjög neikvæður og þjónar ekki góðum tilgangi, og eins og yfirleitt er um neikvæðan áróður, þá hefur þessi gagnrýni á stjórnmálaflokkana verið lýðskrumskennd og yfirborðsleg, m.a. persónuleg í vondri merkingu þess orðs.

Að sjálfsögðu er ekkert vit í því að frábiðja stjórnmálaflokkana gagnrýni. Þá ber að gagnrýna og þeir veða alltaf gagnrýndir. Eigi að síður verða menn að átta sig á því, að stjórnmálaflokkarnir eru aðalmáttarstólpar lýðræðisins og alger grundvöllur þingræðisins. Ef ekki væri stjórnmáaflokkar, þá mundi öll stjórnmálastarfsemi leysast upp í eins konar frumskógahernað, skipulagslausa klíkustarfsemi, lýðskrum og atkvæðaveiðar af verstu tegund. Ef það er þess konar pólitík sem menn óska eftir, þá er auðvitað ráðið að halda áfram að jaga stjórnmálaflokkana og veikja álit þeirra meðal almennings. En að mínum dómi er slíkt hið mesta óþurftarverk. Að mínu áliti fer best á því, að framboð séu á vegum stjórnmálasamtaka, og í því sambandi hlýt ég að leggja á það sérstaka áherslu, að ég tel að ekki komi til greina annað en að röðun framboðslista sé ákveðin af stjórnmálasamtökum, um leið og ég tek það fram að kjósendur eiga að hafa rétt til að breyta þeirri röð eins og kosningalög gera ráð fyrir. E.t.v. er hægt að rýmka um möguleika kjósenda í þessu efni og er eðlilegt að ræða það mál sérstaklega. En það frjálsræði kjósenda, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., yrði ekki til bóta, heldur yrði það til þess að auka pólitískan. glundroða og magna upp lýðskrumsaðferðir sem alltaf er hægt að eiga von á á vettvangi stjórnmála, ekki síst þegar mönnum hitnar í hamsi í kosningabardaga og í hlut eiga menn sem hættir til að beita ofurkappi þegar hagsmunir þeirra eru í veði.

Sú aðferð, sem stungið er upp á í þessu frv., mundi verða til þess að draga úr málefnalegri stjórnmálabaráttu, en magna upp persónu- og eiginhagsmunabaráttu. Þessi aðferð getur aldrei leitt til annars. Með þessari aðferð er verið að efna til innbyrðis sundrungar manna sem eiga að vera samherjar og málsvarar sameiginlegrar stjórnmálastefnu.

Ég vil einnig spyrja í þessu sambandi: Hver eða hverjir eiga að vera málsvarar framboðslista sem þannig er skipaður? Hafa menn leitt hugann að því hvaða praktísk vandamál fylgja slíku fyrirkomulagi sem hér er stungið upp á? Eða er það kannske meiningin að sleppa algerlega þeim þætti úr, að frambjóðendur á sama lista berjist undir sama merki og hafi sameiginlega kosningastefnuskrá? Ef svo er, þá ætti að stíga skrefið til fulls og leggja niður stjórnmálaflokka í núverandi mynd og láta það ráðast, hverjir bjóða sig fram til þings, eða öllu heldur, það ætti ekki að hafa nein framboð, heldur ætti að haga kosningum þannig að hver kjósandi skuli leggja fram eigin lista og stinga honum í atkvæðakassann á kjördegi. þá er víst frelsi kjósandans fullkomnað — eða er ekki svo? En þar með er ekki sagt að lýðræðinu sé gerður mikill greiði, og ég held raunar að það væri mikill bjarnargreiði við kjósendur að taka upp þess háttar skipulag. Ég hef þá trú þrátt fyrir allt, að almenningur í landinu sé yfirleitt ekki óánægðar með flokkaskipunina eða starfsemi stjórnmálaflokkanna, og ég hygg að það sé skoðun alls þorra manna, að stjórnmálaflokkarnir eigi að ráða framboðum, m.a. raða á lista og ákveða hverjir skulu vera í efstu sætum þeirra og þar með málsvarar og forustumenn listans. Kjósendur almennt vilja fyrst og fremst málefnalega stjórnmálabaráttu og þeir meta stjórnmálamenn eflir málefnum og hæfni þeirra til þess að túlka skoðanir. Og kjósendur aðhyllast miklu fremur flokka og baráttumál flokkanna heldur en þeir elti einhverjar persónur í algerri blindni. Það eru aðeins skrumararnir sem halda öðru fram, að vísu eru dæmi um að skrumarar hafa náð alllangt í því að safna um sig fylgi, en yfirleitt reynast þess háttar sigrar Pyrrhusarsigrar.

Nú munu e.t.v. einhverjir, sem á mig hlýða, segja sem svo, að ég sé að boða þá kenningu að engu þurfi að breyta og engu eigi að breyta og ekkert þurfi um þessi mál að tala yfirleitt. Það er þó alls ekki mín skoðun og það eru ekki mín orð. En ég er andvígur því fyrirkomulagi kosninga sem stungið er upp á í þessu frv. og ég er andvígur því að dregið sé úr valdi stjórnmálasamtaka við ákvörðun framboða og röðun á framboðslista. Þvert á móti álít ég að það þurfi að efla starfsemi stjórnmálaflokkanna og fá fleira fólk til þess að taka virkan þátt í starfsemi þeirra.

Ég álít að það þurfi að tryggja enn betur en er að lýðræðislegt skipulag stjórnmálaflokkanna fái notið sín í reynd. Að mínum dómi verður það best gert með því að efla starfsemi grunneininganna í skipulagi flokkanna, þ.e.a.s. staðbundinna fokksfélaga og samtaka þeirra í hverju kjördæmi. Því fleiri sem taka þátt í störfum stjórnmálafélaganna því lýðræðislegri er starfsemi þeirra, og því fleiri sem taka þátt í umr. og ákvörðunum um framboð því betra. Í því sambandi tel ég mjög koma til greina að efna til skoðanakönnunar eða prófkjörs meðal flokksmanna sem undanfara ákvörðunar um framboð, enda hygg ég, að flestir stjórnmálaflokkar í landinu hafi sett sér reglur um þessi efni og að þeir beiti þessum aðferðum að meira eða minna leyti. Skoðanakönnun og prófkjör eru að mína viti eðlilegur þáttur í flokksstarfi sem er því auðveldara að framkvæma sem flokksstarfið er virkara og fjörugra. Og að því þarf að vinna að stjórnmálaflokkarnir starfi af þrótti, bæði að almennri stefnumótun og baráttu fyrir stefnumálum og einnig með því að kjósa menn til trúnaðarstarfa hver sem þau eru.

Að einu leyti er ég mjög sammála hv. flm. að því er varðar skoðanir sem hann hefur látið uppi, en það er sú gagnrýni á seinagang í störfum stjórnarskrárnefndar sem hann hefur hreyft. Núv. stjórnarskrárnefnd var kosin fyrir fimm og hálfu ári, eins og var upplýst áðan af einum nm. í þeirri n. En því miður hefur verið ákaflega hljótt um störf þessarar n. Þó er vitað að í n. sitja bæði áhugasamir menn og vel hæfir menn. Ég óttast að ástæðan fyrir seinvirkni n. sé sú, að hér sé um vandasamara og umfangsmeira starf að ræða en svo að önnum kafnir menn geti sinnt því í hjáverkum.

Gísli heitinn Guðmundsson alþm., sem var annar aðalhvatamaður að því að stjórnarskrárnefndin var sett á laggirnar, lét sér koma til hugar að nauðsynlegt kynni að reynast að stofna til sérstaks stjórnlagaþings til þess að fjalla um breytingar á stjórnarskránni. Ýmsum mun þykja slík hugmynd fjarlæg veruleikanum. En hvað skal segja þegar svo seint miðar hjá stjórnarskrárnefndinni? Ég er þeirrar skoðunar að okkur sé þörf á að endurskoða stjórnarskrána. En ég er ekki þeirrar skoðunar að nauðsynlegast sé að endurskoða þá kafla sem fjalla um kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag. Ég held líka að það væri mjög gagnlegt að vekja meiri umr, um stjórnarskrármálefni í heild og auka almennan skilning á hlutverki stjórnarskrár og mikilvægi hennar fyrir mannréttindi og fyrir virkt stjórnskipulag. Mannréttindaákvæði eru að sjálfsögðu eins og blómi hverrar lýðræðislegrar stjórnarskrár. En stjórnarskráin er líka til þess gerð og kannske fyrst og fremst til þess gerð að tryggja meiri hl. Alþ. snurðulausa stjórn á málefnum ríkisins. Stjórnarskráin á að vera grundvöllur að valdskiptingunni í þjóðfélaginu. Hún er eins konar útdeiling valds milli æðstu stjórnvalda. Ég fyrir mitt leyti held að það sé full ástæða til þess að kanna hvernig ástatt er í þessu efni. Ég held að það þurfi að rannsaka gaumgæfilega og hlutlægt hvernig nú háttar í raun valdahlutföllum í þjóðfélaginu og hvort hlutföllin séu í samræmi við eðli stjórnarskrárinnar og nauðsyn þess sem kalla má virkt stjórnskipulag. Mér finnst að það sé í verkahring stjórnarskrárnefndar að svara spurningum um þessi atriði.

Þessi orð mín verða ekki öllu fleiri, virðulegi forseti. Þó að ég viti að þetta frv. er borið fram af góðum hug, þá kemst ég ekki hjá að lýsa yfir andstöðu minni við það. Ég er sannfærður um að ef þetta frv. yrði að lögum þá mundi það siður en svo verða lýðræðinu til styrktar. Slíkt fyrirkomulag mundi auka hættu á skrumi og óvægilegum áróðri og vera hemill á málefnalega stjórnmálabaráttu. Ég álít að það sé fyrst og fremst hlutverk stjórnmálaflokka að fjalla um framboð, og ef menn vilja auka persónuáhrif á framboð, þá hallast ég að skoðanakönnunum og prófkjörum innan flokkanna eða meðal stuðningsmanna þeirra.