15.11.1977
Sameinað þing: 17. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

317. mál, úrvinnsla áls á Íslandi

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 2. landsk. þm. spyr, hvort rannsakað hafi verið, hvort grundvöllur sé fyrir stofnun og rekstur íslenskra iðnfyrirtækja til úrvinnslu áls sem framleitt er í landinu, og svo hver sé niðurstaðan.

Álverið í Straumsvík framleiðir, eins og kunnugt er, álhleifa úr súráli. Framleiðsla álversins hefur nær öll verið flutt út án þess að frekari vinnsla komi til innanlands. Allt frá því að álverið hóf starfsemi sína hefur verið rætt og ritað um það, hvort, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, ekki kæmi til greina frekari vinnsla hér og hvort ekki mætti á þann hátt skjóta fleiri stoðum undir íslenskan iðnað.

Fyrir tveim árum fól iðnrn. Iðnþróunarstofnun Íslands að gera úttekt á því, hvort frekari úrvinnsla áls hér á landi gæti ekki orðið hagkvæmur rekstur. Er talið að tvær leiðir komi einkum til greina við úrvinnsluna. Í fyrsta lagi er það álsteypa, álsteypan fer fram þannig, að álhleifar eru bræddir upp aftur í þar til gerðum búnaði og hinu brædda áli helt í mót sem ýmist geta verið sandmót eða stálmót, ef um verulega framleiðslu er að ræða. Það eru einnig til sérstakar vélar er bræða ál og þrýsta því í þar til gerð málinmót, og á það einkum við þegar verið er að framleiða litla hluti úr áli. Einnig gæti komið til greina að kaupa bráðið ál frá álverinu í Straumvík og spara þannig bræðsluna.

Helstu framleiðsluvörur, er til greina kæmu, eru ýmiss konar byggingareiningar, svo sem plötur til klæðningar á hús, einnig álflot til notkunar við fiskvörpu togveiðiskipa, og enn fremur margs konar smáhlutir í bíla, svo sem blöndungar o.fl.

Iðnþróunarstofnun gerir ráð fyrir að byrjunarstofnkostnaður meðalstórrar álsteypu geti verið um 100–200 millj. kr. og mannaflsþörf 20–30 manns. Það skal undirstrikað að Iðnþróunarstofnun talar hér aðeins um byrjunarstofnkostnað. Þetta var sá möguleiki sem felst í álsteypu.

Hinn framleiðslumöguleikinn er vírdráttur eða prófíladráttur. Framleiðsluaðferð fyrir þessar vörutegundir er á margan hátt lík. Það eru steyptir sérstakir hleifar sem síðan eru látnir í þar til gerðar vélar þar sem hleifarnir eru hitaðir, og síðan er efnið dregið í gegnum formunarbúnað. Rætt hefur verið og kannað nokkuð að draga rafmagnsvír og ýmiss konar byggingarprófíla hér, Til greina kemur að húða þá síðan með ýmiss konar efnum.

Iðnþróunarstofnun telur að lauslega megi áætla að byrjunarstofnkostnaður fyrirtækis, er dragi vír eða byggingarprófíla, gæti verið á bilinu 150–250 millj. kr. og gerir ráð fyrir að allt að 60 manns gætu fengið atvinnu við slíkt fyrirtæki. Niðurstöður um hagkvæmni liggja ekki fyrir.

Þessar athuganir eru að vissu leyti á byrjunarstigi og margs konar rannsóknir eftir. En þær athuganir, sem þegar hafa farið fram, benda til þess að framhaldsvinnsla áls gæti orðið álitleg viðbót fyrir íslenskan iðnað.

Eins og ég gat um, vinnur Iðnþróunarstofnunin að könnun þessa máls. Á s.l. sumri var fenginn hingað þýskur sérfræðingur í álsteypu og áliðnaði og dvaldist hann hér um nokkurt skeið. Skýrsla er væntanleg frá honum á næstunni um helstu möguleika sem hér koma til greina. Þess má geta að nokkur þeirra fyrirtækja, sem þegar starfa hér á landi að úrvinnslu áls, hafa sýnt mikinn áhuga á aukinni vinnslu og nýir áhugaaðilar hafa leitað til rn. og Iðnþróunarstofnunar um fyrirgreiðslu og aðstoð í þessu efni.

Uppbygging nýrra iðngreina er vandaverk og í mörg horn að lita. Þarf að sjálfsögðu að gera ítarlegar hagkvæmniathuganir, markaðskönnun þarf að sjálfsögðu einnig að gera og tryggja eins og kostur er sölu á hugsanlegum framleiðsluvörum. Þá þarf að stuðla að aukinni tækni og verkþekkingu að því er varðar framhaldsvinnslu á áli, áður en ráðlegt þætti að hefja framkvæmdir á þessu sviði.

Framhaldsvinnsla á áli hér innanlands hefur þannig verið ofarlega á verkefnalista iðnrn. og Iðnþróunarstofnunar og mun verða það áfram, þangað til niðurstöður um hagkvæmni slíkrar framleiðslu liggja fyrir.