15.11.1977
Sameinað þing: 17. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

32. mál, rafmagn á sveitabýli

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Það var einhvern tíma nokkru áður en þing kom saman í haust, að til mín var leitað af hálfu ungs fólks, sem er að koma sér upp nýjum íbúðarhúsum á jörðum í kjördæmi mínu, og ég var beðinn að athuga hvort ekki væri hægt að flýta fyrir því að rafmagn fengist í þessi hús. Þetta unga fólk hafði fengið þau svör, að ekki væru peningar til þess að vinna verkið.

Og þannig stóðu málin þegar ég lagði fram þessa fsp. Ég lagði hana fram, eins og ég sagði fyrir tilmæli þessa fólks, en ég vissi líka að um slík dæmi var að ræða viðar. Það eru mörg dæmi þess að fólk kemst í vandræði vegna þess að treglega gengur oft að fá tengt rafmagn við ný hús. En nú hef ég haft spurnir af því, að þetta er eiginlega komið í lag að því er snertir a.m.k. — (Gripið fram í: Má biðja hv. þm. að tala svolítið hærra?) Já. Mætti ég þá biðja hv. þm. að tala svolítið lægra? Þá gæti þetta kannske skilað sér. — Ég hef haft spurnir af því, síðan ég lagði fram þessa fsp., að þetta væri eiginlega komið í lag að því er varðar a.m.k. tvær jarðir af þremur sem ég fylgdist dálítið með í sambandi við þetta. Iðnrn. mun hafa útvegað fjármagn til þessa. En þetta er sem sagt ekki í fyrsta sinn, sem fólk lendir í vandræðum af þessu tagi. Þetta virðist vera næstum því árvisst. Fsp. eins og þessi, sem ég hef leyft mér að beina til hæstv. ráðh., var flutt í fyrra af einum þm. Austurl., hv. þm. Lúðvík Jósepssyni. Þá vissi hann dæmi þessa sama úr sínu kjördæmi, æðimörg. Það er því full ástæða til að vekja athygli á þessu, að þessi dráttur, sem virðist eiga sér stað ár eftir ár, veldur fólki miklum erfiðleikum. En fsp. mín er á þessa leið:

„a) (sem er aðalatriðið í þessu sambandi): Hver er ástæðan til þess að Rafmagnsveitur ríkisins geta ekki sinnt beiðnum um tengingu íbúðarhúsa í sveitum við rafveitukerfi Rafmagnsveitna ríkisins?

b) Hve margar beiðnir liggja nú fyrir um tengingu, sem Rafmagnsveiturnar hafa ekki getað sinnt?

c) Hve mörg eru þau sveitabýli, sem enn hafa ekki fengið rafmagn frá samveitum, en þó er ráðgert að fái það síðar?“