15.11.1977
Sameinað þing: 17. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

32. mál, rafmagn á sveitabýli

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Hv. þm. tóku eftir því, að hæstv. ráðh. sagði að 5. sept. hefði rn. hans borist vitneskja um að fjármagn skorti til tenginga við ný hús á jörðum víðs vegar um landið. En þegar þessi vitneskja barst brá rn. við og kippti þessu í lag. Það er til marks um að þetta er eitt af því sem mætti kalla fasta liði, eins og venjulega, að þegar hæstv. ráðh. svaraði fsp. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar í fyrra, þá var svar hans m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar rn. barst vitneskja í byrjun septembermánaðar um þessa fjárvöntun brá það strax við og tókst að útvega þetta fjármagn, sem nam um 50 millj. kr., upp úr miðjum sept., og var Rafmagnsveitum ríkisins falið að sinna öllum beiðnum um tengingu.“

Svarið er m.ö.o. alveg það sama og í fyrra að öðru leyti en því, að nú eru það 60 millj. í staðinn fyrir 50.

Ég vona nú að hæstv. ráðh. standi við það fyrirheit, sem hann gaf hér áðan, að ekki þurfi að endurtaka þennan leik enn eitt haustið, og að hann sjái til þess að nóg fjármagn verði fyrir hendi til þessara verka tímanlega á næsta ári. Eitt er það, sem menn skyldu t.d. gefa gaum í þessu sambandi, og það snertir kostnaðinn. Það verður að sjálfsögðu mikill aukakostnaður við framkvæmdir eins og þessar þegar þær eru látnar dragast svona oft á tíðum fram á vetur, þegar hann er lagstur að með frost og klaka í jörð.