15.11.1977
Sameinað þing: 17. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

50. mál, framkvæmd laga um Framleiðslueftirlit sjávarafurða

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. kærlega fyrir svörin, en hann svaraði þessari fyrirspurn ágætlega. Maður kynni að draga þá ályktun af þessu svari að e.t.v. kæmist ríkissjóður hjá því að borga þarna 37 mönnum ef 19 menn geta starfað utan greiðslubyrðar af hálfu ríkissjóðs og haldið framleiðslunni gangandi. Hvort sem þetta er nú rétt metið hjá mér fyrirvaralaust eða ekki, þá vil ég samt vekja athygli á því, að þegar af störfum láta 37 menn vegna verkfalls sem eru taldir óhjákvæmilegir og skulu starfa samkvæmt lögum, þá hlýt ég að álykta að þessi lög hljóti að vera jafnrétthá öðrum lögum í landinu, þegar þeir séu ekki í starfi vegna verkfalls, þá hljóti starfsemin að leggjast niður — eða hvernig fer um kjötmat í landinu og annað mat á vinnsluvörum hér til manneldis.

Mér finnst að við megum ekki vanvirða þessi lög fremur en önnur lög í landinu, og ég vildi vekja athygli á þessu máli. Aflinn er hér 11–12 þús, tonn sem fer í gegnum vinnslu sem þessir menn hefðu þá fjallað um eða metið og úrskurðað um heilbrigði, hvort fiskurinn væri ferskur o.s.frv., svo hér er ekki um lítið mál að ræða — alls ekki. En málið er mjög viðkvæmt og það kann að vera hægt að finna lausn á því í framtíðinni sem væri þannig að hún hindraði ekki þessa menn í þátttöku síns kjarafélags né heldur að framleiðsla stöðvaðist. En þetta er mál sem verður að íhuga vegna þess umfangs sem það hefur og að lögin verði virt eins og önnur lög í landinu.