15.11.1977
Sameinað þing: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

31. mál, rannsóknir á djúprækjumiðunum fyrir Norðurlandi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Vegna þeirrar till., sem hér liggur fyrir um að láta nú þegar hefja ítarlega leit að djúprækju fyrir Norðurlandi, vil ég upplýsa það, að á síðustu tveimur árum hefur verið varið miklum fjármunum til leitar að rækju, og þá djúprækju, sérstaklega á s.l. ári og nokkuð á þessu ári. Sá landsfjórðungur, sem ítarlegast var leitað fyrir, var Norðurland og með nokkuð góðum árangri. Hins vegar var mjög takmörkuð leit framkvæmd fyrir Austfjörðum, og beiðnir hafa verið um leit að rækju annars staðar, út af Suðvesturlandi og sömuleiðis út af Vesturlandi.

Á þessum tíma held ég að sé illmögulegt að leita að rækju með nokkrum árangri. Við höfum verið að gera tilraunir bæði með þessa leit og eins með leit og veiðar á kolmunna á þessu ári. Þær tilraunaveiðar og vinnsla hafa gefið að sumu leyti nokkuð góða raun, en nú undanfarið hefur útkoman verið mjög léleg í veiði á kolmunna vegna þess hve veður hafa verið hörð og leit verið allt of dýr miðað við þann árangur sem fengist hefur. Var þó vitað fyrir um mjög mikið magn af þeirri fisktegund. Ég hygg að alveg óhætt sé að segja að það sé heppilegast að hefja þessa leit snemma vors og fram eftir sumri. Hún hefur gefið bestan árangur. Sömuleiðis hafa bátar sjálfir fundið veruleg mið allt frá því norðan Ísafjarðardjúps og norður og norðaustur með landi. Hér er auðvitað um að ræða hve mikið fjármagn fæst í fiskleit og fiskrannsóknir umfram það, sem Hafrannsóknastofnunin hefur úr að spila.

Ég vildi aðeins að þetta kæmi hér fram, að varið hefur verið miklu fjármagni til leitar að djúprækju á síðasta og þessu ári. En hitt er alveg rétt hjá hv. flm., að það er þörf á því að auka bæði þessa leit og leit að ýmsum öðrum fisktegundum og þörf á verulegri breytingu til að nýta okkar flota, en sækja ekki um of í veiðar á fiskstofnum, eins og verið hefur á undanförnum áratugum.