15.11.1977
Sameinað þing: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

58. mál, íslensk stafsetning

Magnús Kjartansson:

Hæstv, forseti. Mig minnir að hv. þm. Sverrir Hermannsson hafi greint mér einhvern tíma frá því að hann sé borinn og barnfæddur Vestfirðingur, Er það ekki rétt munað, Sverrir? (SvH: Jú. — HFS: Eðalborinn, sagði einhver.) Eðalborinn, já. Samt er það svo, að þessi hv. þm, notar ekki vestfirskan framburð í ræðum sínum hér á hinu háa Alþ. Hann hefur oft yrt á mig og ég minnist þess ekki að hann hafi nokkurn tíma kallað mig Manga og hann hefur stundum gert hríð að mér, en hann hefur aldrei gert að mér hardan nordangard, eins og Vestfirðingar sögðu fyrir tiltölulega skömmum tíma. Hann ber engan ræktarhug til vestfirsks framburðar, og þó að þessi ágæti þm, búi yfir mjög skemmtilegum fjölbreyttum orðaforða er það ekki vestfirskur orðaforði. Þessi orðaforði hv. þm. er sóttur til rithöfundar sem fæddist hér í Reykjavík, en hefur lengstum alið aldur sinn uppi í Mosfellssveit, en að vísu heyjað sér orðaforða úr íslenskri tungu úr öllum hlutum landsins og raunar frá mörgum kynslóðum Íslandsbyggðar. Ræktarsemi þessa hv. þm. við íslenska tungu er þannig dálítið einkennileg. Hann bindur framburðinn ekki við uppruna sinn og hann hefur ekki reynt að koma sér upp vestfirsku tungutaki, heldur bergmálar hann þetta mjög svo merkilega og skemmtilega tungutak, sem rithöfundur sá, sem ég nefndi áðan, Halldór Laxness, hefur komið sér upp með löngu og þrotlausu starfi. Við heyrum það oft í ræðum þessa hv. þm., að þar kemur einmitt fram bergmál frá Halldóri Laxness, hann notar þar orðaforða, sem er sóttur í bækur hans og er oft skemmtilegt á að hlýða, þó að mér finnist raunar að hann hafi ekki sömu tilfinningu fyrir stíl og hann þyrfti að hafa þegar hann notar þessi orð. Það á ekki alltaf við að nota sérkennileg og málandi orð í sambandi við umr. um lítilsverða hluti, eins og stundum kemur fyrir þennan hv. þm. Mér þótti það satt að segja afar átakanlegt þegar það gerðist núna fyrir nokkrum dögum, að þessi mjög svo aðdáunarfulli lærisveinn Halldórs Laxness varð fyrir því, að Halldór tók hann mjög óþyrmilega í karphúsið í grein í Vísi og brigslaði honum um allt mögulegt. Ég held að það hljóti að hafa verið ákaflega sársaukafullt fyrir þennan hv, þm. (Gripið fram í: Óbeint.)

Ég hef áður gert grein fyrir hugmyndum mínum um íslenska stafsetningu. Ég gerði það í sambandi við frv. sem hæstv. menntmrh. lagði fram í þingbyrjun. Ég er þeirrar skoðunar að ritmál og talmál eigi að vera sem líkast, að það eigi að vera sem allra auðveldast fyrir íslendinga að rita íslensku og að menn eigi ekki að leika sér að því að setja einhverjar reglur um ritmál sem geri það að verkum að aðeins nokkur hluti þjóðarinnar, þeir sem eiga kost á því að vera í langri skólagöngu, geti farið eftir þessari stafsetningu, en allur almenningur, sem hefur skamma skólagöngu, geti það ekki. Með því erum við að búa til menningarlega stéttaskiptingu á Íslandi sem er mjög hættulegt fyrirbæri. Þá stéttaskiptingu höfum við sem betur fer sjaldan haft hér á Íslandi. Ég tel að við eigum að láta framburð og stafsetningu haldast í hendur og við eigum meira að segja að vera ákaflega umburðarlyndir hvað þetta snertir. Ég hef t.a.m. ekki vitundarögn við það að athuga þó að Norðlendingar skrifi gata með t, en að okkur Sunnlendingum sé þá heimilað að skrifa gata með d. Ég sé ekki nokkurn skapaðan hlut mæla gegn þessu. Þannig hefur verið ástatt hér á Íslandi þangað til á síðustu öld, að hver maður skrifaði sína eigin stafsetningu, og það hefur sannarlega ekki hamlað því að hér á landi voru samdar bókmenntir, sem ber ákaflega hátt í gervallri veraldarsögunni — af mönnum sem kunnu engar stafsetningarreglur sem betur fór.

Það er ákaflega mikils virði að þjóð geti skrifað tungu sína. Ég minntist á það á sínum tíma, þegar við ræddum frv. hæstv. ráðh., að til væru ákaflega margar þjóðir sem byggju við slíka stafsetningu á máli sínu, að öll alþýða gæti ekki skrifað það. Ég nefndi ensku og frönsku í því sambandi, og t.a.m. í Kína er þetta óhemjulega erfitt vandamál, því þar er ekki notað stafróf, heldur eru Kínverjar með tákn fyrir hvert einstakt orð, og til þess að vera sæmilega læsir og skrifandi þurfa menn að kunna milli 3000 og 5000 slík tákn. Það er margra ára nám fyrir næman nemanda að læra þó ekki sé nema þessi tákn, en í kínversku eru til milli 40 og 50 þús. tákn yfir kínverska tungu. Þegar ég var í Kína og spurði um þetta var mér sagt að það mundu vera til í landinu 1 eða 2 menn sem kynnu þessi tákn öll. Ef skrifað tungumál lendir inni á slíkum leiðum er ákaflega mikil hætta á ferðum, og ég er ansi hræddur um að við Íslendingar höfum verið að lenda inni á slíkum leiðum eftir að upp var tekin samræmd réttritun og skólahald sem fór í það að óhemjulega miklu leyti að kenna mönnum að rita einhverja stafi sem ekki eru til í framburði okkar.

Mín skoðun er sem sé sú, að breyta eigi stafsetningu til þess að gera hana sem auðlærðasta fyrir alla og vera mjög hneykslunarlaus þó menn leyfi sér að skrifa skv. eigin framburði. Það eru ekki mikil frávik í framburði á Íslandi, eins og menn vita, og ég sé ekki að það geri nokkurn skapaðan hlut til þó að þar sé leyfður sveigjanleiki.

Þessu marki, sem ég var að tala um, að hafa fullt samræmi á milli talaðs og ritaðs máls, er hægt að ná eftir tveimur leiðum. Það er hægt að gera það á þann einfalda og sjálfsagða hátt sem ég gerði grein fyrir, að haga rituðu máli sem næst framburði okkar nú. Það er einnig hægt að víkja til baka, aftur til landnámsaldar, skulum við segja, og gera mönnum að læra fornan framburð og skrifa í samræmi við hann. Þá getum við skrifað z, af því þeir höfðu þann framburð í málinu. Þá getum við skrifað y, af því þeir höfðu þann framburð í málinu. Og þá geta menn skrifað tvenns konar æ og tvenns konar ö, eins og tíðkaðist til forna. Mín till. er till. um þetta. Hv. þm. sagði að till. væri svo vitlaus að hún væri ekki umræðuhæf. Ég get svo sem tekið undir það með honum, en það stafar af því að mál það, sem brtt. er við, er svo vitlaust að það er ekki umræðuhæft. Till. mín er algerlega innan þess ramma sem lagður er með till. ellefumenninganna, og það sem þeir kunna að segja misjafnt um form þessarar till. á við um frumtill. sjálfa að öllu leyti.

En það er z-an. Ég man eftir því, að í hirtingargrein sinni um hv. þm. Sverri Hermannsson hélt Halldór Laxness því fram, að z hefði ekki verið til í íslenskum framburði nokkru sinni síðan land byggðist. Þetta mun hafa verið mat málfræðinga fyrir svo sem hálfri öld, en er það ekki núna. Þeir telja að það hljóð, sem táknað er með z, hafi verið borið fram í stofni orða sem tannhljóð að viðbættu s, þ.e.a.s. ts, ðs eða ds, en þeir telja að í endingum sagna hafi þetta ekki verið framburður nokkru sinni frá því að land byggðist. Þessi framburður féll niður á 16. öld, eins og sjá má af handritum, og þá féll rannar einnig niður framburður á y, sem er mun erfiðara í stafsetningu fyrir nútímamenn en z, sem er tiltölulega auðvelt að læra í sjálfu sér, þeim sem eltast vilja við svo fáránlega hluti.

Í sambandi við þessar breytingar á framburði er dálítið skemmtilegt að velta því fyrir sér hvenær þær hafa mestar orðið. Það gerist á 13. öld, þeirri öld sem við missum sjálfstæði okkar, að Íslendingar týna niður að gera greinarmun á tvenns konar æ-i og tvenns konar ö-í. Það gerist á 16. öld, þegar þröngvað var upp á okkur evangelísk-lúterskri trú til þess að konungurinn gæti sölsað undir sig sem mest af eignum landsmanna að við týnum niður að bera fram z og bera fram y — og það sem háskalegast er, við týnum því sérkenni íslenskunnar sem mótaði allan fornan skáldskap, að í upphafi var gerður greinarmunur á stuttum og löngum sérhljóðum. Þeir stafir, sem núna eru skrifaðir með broddi, t.a.m. stafurinn á var í öndverðu aðeins langt a, og sama er að segja um alla aðra sérhljóða sem skrifaðir eru með broddi. Þeir voru aðeins langt afbrigði af stutta sérhljóðinu. En þetta breyttist í tvíhljóða, langt a varð að á-i, langt e varð að é-í o.s.frv. Og þessi breyting varð ákaflega afdrifarík, því að hún lokaði fyrir íslendingum skilningi á öllum fornum skáldskap íslenskum. Allur dróttkvæður skáldskapur og fleira af slíku tagi byggist fyrst og fremst á þessum framburði, á því að sérhljóðarnir voru bornir fram ýmist stuttir eða langir, og þetta hefur komið ákaflega illa við t.a.m. dróttkvæðan skáldskap, sem er yfirleitt að efni til fáránlegur leirburður, en hefur haft hljóm af músiktagi þegar hann var borinn fram í samræmi við þessar reglur. Sama máli gildir t.a.m. um hinn fræga kveðskap Egils Skallagrímssonar, Höfuðlausn sem er að mínu mati fáránlegur leirburður ef maður les efni hans. Það var framburðurinn sem gerði kvæðið stórfenglegt. Ég man ekki betur en að það standi í Egils sögu, að Eiríkur konungur hafi sagt þegar Egill var búinn að flytja kvæðið: „Hið besta er kvæðið fram flutt.“ Sumir fræðimenn hafa haldið því fram, að í þessu hafi falist eitthvert skens um það, að efnið hafi ekki verið merkilegt. En það held ég sé mesti misskilningur. Tilgangurinn var að búa til kvæði sem hljómaði vel í flutningi.

Það hafa sem sé gerst miklu meiri breytingar á framburði okkar Íslendinga en menn gera sér almennt ljóst, og það er vitað með býsna mikilli vissu hvernig íslensk tunga var borin fram í öndverðu. Það stafar m.a. af því, að við erum svo gæfusamir að menn höfðu þá enga samræmda stafsetningu, heldur skrifuðu skv. framburði sínum, og því má lesa hreytingar á framburði beint úr handritunum. Þennan fornframburð hef ég heyrt sjálfur. Hann er notaður við háskóla í Kaupmannahöfn, í Lundi og Stokkhólmi, þar sem ég hef hlýtt á fyrirlestra um forníslensku eða norrænu. Það var að vísu enginn af þessum lærdómsmönnum, sem hafði þennan framburð á valdi sinu, að því er mér fannst, nema einn, Jón prófessor Helgason í Kaupmannahöfn. En þegar hann las dróttkvæði og Höfuðlausn með þessum framburði áttaði ég mig loksins á því hvað felst í þessum yfirgengilega leirburði. Það var músík. Það var hljómurinn. Það var það sem var aðalatriðið.

Hér er sem sé um ákaflega fjölbreytta og langa þróun að ræða, ákaflega merkilega þróun fyrir þá, sem kunna að hafa áhuga á þessari sérgrein, en ekki til þess að kenna í almennum barnaskólum. Það tel ég fáránlega endileysu. Við verðum að sætta okkur við þau óblíðu örlög að hafa glatað niður úr framburði hljóðum, sem enn eru til í hljóðtáknum. Enn þá eru til í skrifuðu máli stafir eins og z og y, þó við kunnum ekki lengur að bera þá fram. Og lesi menn fornrit sjá þeir tvenns konar æ og tvenns konar ö. Þessir bókstafir höfðu allir framburð að baki.

Ég sagði áðan að framburðarbreytingar virtust vera háðar efnahagsafkomu þjóðarinnar og almennri stjórnmálaþróun. Við höfum týnt niður stöfum á 13. öld, þegar Norðmenn lögðu okkur undir sig, og við höfum týnt niður stöfum á 16. öld, þegar danskur einveldiskonungur þröngvaði upp á okkur evangelísk-lúterskri trú til þess að ræna eignum okkar, og raunar munaði þá minnstu að hann rændi einnig tungumálinu af okkur, því að þá var svo fyrir mælt, að ekki mætti nota við kirkjusöng kaþólska sálma, og farið var að snúa á íslensku svokölluðum lúterstrúarsálmum á tungutak sem var alveg herfilegt. Ég vil minna á það, að það gerðist einmitt í Noregi á þessum sama tíma, að norsk tunga var drepin með siðaskiptunum vegna þess að sálmar og kirkjutextar voru fluttir þar á dönsku, og síðan hefur norskan orðið eins konar grein af dönskunni. Þessi hætta vofði yfir okkur Íslendingum á 16. öld. En sem betur fór voru forustumenn í klerkastétt það raunsæir og vitrir og höfðu það miklar mætur á íslenskum skáldskap, sérstaklega Guðbrandur biskup, að þeir snerust gegn þessu. Þeir kváðu niður þessa dönskuskotnu sálma sem ætlunin var að innræta þjóðinni, og Guðbrandur gaf út fræga bók. Vísnabókina, sem hefur að geyma ákaflega mikið af kaþólskum skáldskap. Sem betur fór komu upp menn sem kunnu að yrkja andleg ljóð í samræmi við þessa nýju trúarkreddu sem troðið var upp á þjóðina á 16 öld.

Og ég vil minna menn á að í minna okkar allra, sem hér erum, óð uppi hljóðbreyting sem virtist geta heltekið alla tunguna á stuttum tíma. en hún var flámælið. Það kom upp hér á Íslandi um mjög svipað leyti og heimskreppan og það munaði ákaflega litlu að þessi hljóðbreyting yrði sigursæl. Það var svo komið í ýmsum skólum, að jafnvel kennararnir höfðu ekki meira vald á tungu sinni en svo, að þeir kenndu börnunum að gera greinarmun á e-i með gati og e-i með punkti. Þeir höfðu misst allan skilning á framburðinum og voru komnir út í það, að þetta var orðið að innantómu formi. Sem betur fer tókst að snúast gegn þessari hljóðbreytingu þannig að nú hygg ég að hún sé engin hætta lengur. En þeir, sem hafa setið hér á þingi dálítinn tíma, muna að í hópi þm. hafa verið menn sem voru helteknir af þessari hljóðbreytingin, ýmist menn, sem notuðu e í staðinn fyrir i, og þm., sem voru með öfuga hljóðvillu. Þeir vissu að e-ið gat verið rangt og lentu á þeirri braut að bera í fram í staðinn fyrir e.

Þessar breytingar allar eru, eins og ég sagði áðan, ákaflega merkilegur þáttur í menningarsögu okkar, og við skulum gera okkur fullkomlega ljóst, að þarna er um að ræða mjög merkilega þróun. Við erum að gera okkur hlægilega ef við tökum einn einstakan þátt út úr þessu og berum hann fram eins og hann sé eitthvert heilagt mál, eins og gert er með till. um að viðhalda z í stofni orða. Í þessu felst ekkert annað en ómerkileg rómantík og getur ekki haft neitt gildi annað en að koma upp eða stuðla að því að reyna að koma upp andlegri stéttaskiptingu í landinu.

Það er í sjálfu sér dálítið umhugsunarefni, hvernig háttað hefur verið íslenskukennslu í skólann síðan skólakerfi var komið upp hér á Íslandi. Við skulum gera okkur það ljóst, að við lifum á ákaflega miklum umbreytingatímum, líka að því er varðar málfar. Þjóðfélag okkar hefur gerbreyst á tiltölulega stuttum tíma og orðaforði, sem var ákaflega algengur og bundinn við forna verkhætti, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi, hefur nú enga merkingu lengur hjá ungu fólki sem er að alast upp á Íslandi. Í staðinn hefur þetta unga fólk komið sér upp annars konar orðaforða. Það kann deili á öllum hugsanlegum hlutum í bilum t.a.m. Það kann deili á öllum hugsanlegum heitum í sambandi við nútímatónlist, sem svo er kölluð. En því miður er þarna að ákaflega litlu leyti um íslenskan orðaforða að ræða eða orð sem hafa verið löguð að íslenskum framburði og íslensku beygingakerfi. Þarna held ég að taka verði ákaflega myndarlega á ef við viljum reyna að halda tungumáli okkar eða varðveita það, sem okkur hefur tekist að varðveita af tungumáli okkar, til frambúðar og tel það vera algerlega menningarlega nauðsyn. En þá skiptir það ákaflega miklu máli að fjallað sé sérstaklega um tungutakið sjálft. Það er tungutakið sjálft sem skiptir máli að því er íslensku varðar, ekki stafsetning. Ég minnist þess vel þegar ég kom í menntaskóla fyrir rúmum 40 árum. Þá var þar ákaflega góður íslenskukennari, Björn heitinn Guðfinnsson, sem síðar varð prófessor við Háskóla Íslands, ákaflega hæfur kennari og duglegur. Hann byrjaði á því að kenna okkur setningafræði sem er heldur ómerkileg vísindagrein, en þetta hafði tilgang. Setningafræðin var kennd til þess að nemendurnir gætu lært að setja punkta, semíkommur og kommur skv. ákveðnum, mjög ströngum, reglum og um þetta var þusað allan þann tíma sem ég var í menntaskólanum. Það var meira að segja þannig, að ef við vorum að lesa Íslendingasögur eða Eddukvæði, þá vorum við látin greina orðin skv. setningafræðinni og ég man ósköp vel eftir því, að þetta orkaði þannig á marga félaga mína í skóla, að þeir sögðust aldrei mundu opna Íslendingasögur eftir að vera búnir að ganga í gegnum þessa sérkennilegu kennslu á því, þeir mundu aldrei líta í Eddukvæði heldur. Þarna var búin til óbeit á bókmenntum, sem geta vakið mönnum ákaflega mikla gleði, með því að hengja sig í ómerkilegt form. Og þessi kommusetning var þar að auki fáránleg endileysa. Þetta var upprunnið í Þýskalandi, en þýsk tunga er, eins og margir vita, ákaflega flókin, full af innskotssetningum og hvers konar ómerkilegu kraðaki, þannig að það er oft erfitt að lesa þýskan texta nema innskotssetningar og annað slíkt sé afmarkað með kommum. Íslensk tunga er sem betur fer ekki þannig. Þegar atvikin höguðu því svo, að ég fór að hafa starfa af því að skrifa, áttaði ég mig fljótlega á því að þessi kommusetning var tóm endileysa, að greinarmerkjasetning er hluti af stíl. en ekkert annað.

En þessi þróun, að hamrað sé í skólum á alls konar ómerkilegum þáttum í sambandi við íslenskt mál. er stórhættuleg. Í skólum þarf fyrst og fremst að vekja áhuga barna á íslenskri tungu og íslenskum bókmenntum. Það á ekki að kenna fræði sem fæla nemendur frá því að lesa fornar íslenskar bókmenntir, heldur á að halda þannig á kennslunni að hún laði menn til þess að leita í þennan gleðibrunn og hagnýta sér hann sem allra best. Kreddur í sambandi við kennslu á íslensku máli eru herfilegar. Þessi till. um z er ekki annað en fyrirlitleg, ómerkileg kredda, til þess borin fram að eyðileggja skilning ungs fólks á íslensku máli eða áhuga á því að geta notið íslenskra bókmennta.

Ég er ekki einn um þessa skoðun. Það hittist svo á að núna rétt áðan var ég að fá í hendur bréf frá manni sem skrifar fegurri íslensku en flestir menn aðrir okkar tíma. Hann heitir Friðrík Þórðarson og er lektor í samanburðarmálfræði við háskólann í Osló. Hann hefur þýtt á íslensku bækur eins og Grísk ævintýri og Dafnis og Klói á algerlega frábæru máli. Við gerum okkur það til skemmtunar að við skrifumst stundum á, og það hittist svo á að bréf, sem ég fékk í dag, fjallar um brtt. mína á þskj. 82. Hann er þar með brtt. frá sjálfum sér sem ég vil gjarnan koma á framfæri í heyranda hljóði, að á eftir síðustu málsgrein í till. minni komi viðbót á þessa leið:

„Þá skal og skáldum skyldugt að yrkja skv. þeim undirstöðureglum norrænnar bragfræði sem héldust fram á daga Jóns biskups Arasonar, er síðastur var réttur biskup á Íslandi, og breyting sú varð á íslensku máli sem kennd er við hljóðdvalarbyltingu. Alþ. lýsir því yfir að öll skáld, sem ort hafa á Íslandi síðan Jón biskup andaðist, skuli heita leirskáld, og gengur yfirlýsing þessi í gildi við næstu áramót.“

Síðan komi ný málsgrein:

„Nú brýtur maður gegn þessum lýðræðislegum vilja þjóðarsamkundu vorrar, og skal hann dæmdur í þrælkunarvinnu. Skal setja á stofn vinnusveitir þessu til framkvæmdar og sé það verkefni þeirra að rífa niður, sprengja í loft upp og brenna að köldum kolum víghreiður þau er vesturheimsmenn hafa komið sér upp á Rosmhvalanesi og annars staðar á landinu, og afmá þau uns þeirra sér engan stað framar. Er það vilji Alþ. að það verði mjög í sama mund að fullnuð séu ákvæði þessarar þál. og sauðfjárhagar eru algrónir á Rosmhvalanesi.“

Þetta er mjög góð till. og ég vil koma henni á framfæri í ræðu a.m.k. En meginatriðið er hitt, að menn verða að gera sér ljóst að það, sem skiptir máli í sambandi við kennslu á íslensku í skólum, er að kenna mönnum að meta íslenska tungu eins og hún er töluð en engin formsatriði í sambandi við það, og að meta íslenskar bókmenntir án þess að útbía þær í einhverju fáránlegu málvísindastagli.

Ég vil minna menn á það, að öll hljóð hafa breyst á Íslandi síðan landnámsmenn fluttu hingað. Það á við um alla bókstafi íslenskrar tungu: a, b, c, d, e, f, g, h, i, j, k, l, m, n, o, p, q, r, s, t, u, v x, y, z, þ, æ, ö. Þetta er hægt að kenna. Þetta hefur allt saman gerst skv. ákveðnum reglum, og til eru margar reglur sem eru ekki síður merkilegar en hljóðvörp, sem menn telja að séu ákaflega girnileg til skilnings á íslenskri tungu. Það eru til fjölmargar reglur aðrar. Þessar framburðarbreytingar hafa allar gerst þannig að málvísindamenn geta fundið reglur um hvernig þessar breytingar hafa gerst. En þetta er hreinn hégómi nema fyrir þá sem af vísindaástæðum eða einhverjum sérstökum ábuga vilja kynna sér það, það er algert hégómamál, og að staglast á slíku í skólum áorkar því einu að eyðileggja skilning barna okkar á íslenskri tungu, og það er skaðræði.

Ég læt svo lokið máli mínu herra forseti.