15.11.1977
Sameinað þing: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

58. mál, íslensk stafsetning

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Ég mun gera mér far um að verða að þessu sinni stuttorður um þetta mál, enda margt um það búið að segja allan þann tíma sem það hefur verið á dagskrá hér á Alþ. Erindi mitt hér í ræðustól er fyrst og fremst að lýsa afstöðu minni til þeirrar till., sem fyrir liggur, og gera nokkrar aths. við það sem fram kom í máli hv. frsm., 3. þm. Austurl.

Ég tel að þótt hv. frsm. hafi lýst yfir að till. þessi sé tilraun til sátta og gerð af einlægum hug, þá beri efni hennar þó með sér að ekki eigi þessi orð hv. frsm. við að öllu leyti, því að í raun og veru villir till. á sér heimildir samkv. þeim skýringum sem hv. 3. þm. Austurl. gaf á upprunanum. Hann vildi halda því fram, að í þessari till. hans og 10 annarra þm. væri reynt að fara í þá slóð sem prófessor Halldór Halldórsson, formaður n. sem undirbjó stafsetningarbreytingarnar 1974, hafi markað á ráðstefnu um stafsetningarmál sem hæstv. menntmrh. efndi til. Þetta er alrangt hjá hv. frsm, Að vísu er rétt að prófessor Halldór sló því fram og kvaðst gera það sem uppástungu, ekki sem till., að z yrði haldið í stofni, en það var þá undirskilið að stafsetningarreglurnar frá 1974 héldu sér að öðru leyti, að breyting yrði gerð varðandi z-una, en reglurnar héldu sér í öllum meginatriðum að öðru leyti eins og þær voru þá settar.

Í till. þeirra 11-menninga er farið þveröfugt að. Þar er lagt til að reglurnar frá 1929 taki gildi að öllu leyti fyrir utan þá breytingu á z-reglunni sem felst í þáltill. Það er sem sagt lagt til að slegið verði striki yfir allt sem í reglunum frá 1974 fólst, Þótt það atriði þeirra, sem mestum umr. hefur valdið, sé ákvörðunin um niðurfellingu z úr skólastafsetningunni, er öðru nær en hún sé inntak þeirra og aðalefni. Þvert á móti, reglurnar frá 1974 eru að meginstofni framhald og frekari útfærsla á stafsetningarreglunum frá 1929. Þar eru tekin fyrir ýmis atriði sem þá var engu sinnt og komið hafði í ljós af áratugareynslu að þyrfti að fjalla um, Það er varla til sá stafur í stafrófinu sem ekki eru einhver skil gerð, sérhljóðar jafnt og samhljóðar; í þessum reglum framar en gert var í reglunum frá 1929, og þar eru einnig reglur um greinarmerkjasetningu, sem alls ekki voru til í reglunum frá 1929. En þar hafði verið stuðst við mjög flóknar reglur, sem hv. 3. þm. Reykv. lýsti hér að nokkru áðan. Það er því gengið í berhögg við uppástungu prófessors Halldórs Halldórssonar í þeirri till. sem hér er flutt.

Þar að auki eru í rauninni í þáltill. fólgin atriði sem ættast er til að hafi lagagildi, þ.e.a.s. þar er tekið fram að stafsetningarreglum þeim, sem ákveðnar eru í ályktun þessari, verði eigi breytt án samþykkis Alþ. Ef slíkt á að ákveða, þá ætti að gera það í lögum. Og sömuleiðis fer næst á undan atriði um nefndarstörf til að fjalla um stafsetningarmál. Það er einnig atriði sem miklu hefur væri skipað með lögum heldur en setja um þau efni ákvæði í einfalda þál.

Ég er því gersamlega andvígur þessari þáltill. og tel, eins og ég sagði áður í hv. Nd., þegar frv. hæstv. menntmrh. um meðferð stafsetningarmála var til umr., að affarasælast sé að Alþ. setji lög á þeim grundvelli sem lagður er í því frv.

Það hafa farið mörg orð um það af hálfu hv. frsm. þeirra 11-menninga sem till. flytja, bæði fyrr og síðar, að hann og þeir hafi málatilbúnað sinu uppi til að binda enda á það sem þeir kalla ringulreið eða upplausn eða óvissu í stafsetningarmálum. Ég held því fram og hef haldið því fram áður, að hér séu höfð hausavíxl á hlutunum, þá fyrst kæmi upp ringulreið og óvissa ef farið væri nú að breyta þeim reglum sem settar voru 1973 og 1974 og hefur verið mjög vel tekið í skólunum, þar sem þær eiga fyrst og fremst við. Það kom glöggt í ljós í lok þings vorið 1976, að skólamenn fylkja sér mjög eindregið um reglurnar frá 1974.

Þessi till, er að mínum dómi tilraun flm., sem sjá að málstaður þeirra er í rauninni óverjandi, til að gera tilraun til að veifa heldur röngu tré en öngu, eins og sjá má af því að rökin í grg. hníga öll í þá átt, að hvergi megi hagga við stafsetningunni frá 1929, henni beri að halda óbreyttri um aldur og ævi, skilst manni, en efni þáltill. sjálfrar er svo einmitt að breyta z-reglunni í þessum stafsetningarreglum, en nema að öðru leyti úr gildi þær reglur sem settar voru fyrir 4 árum til þess að fylla upp í reglurnar frá 1929, fylla þar upp í eyður sem reynslan hafði sýnt að voru fyrir hendi. Það væri mjög ógæfulega að málum staðið ef þessi háttur yrði upp tekinn.