15.11.1977
Sameinað þing: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

58. mál, íslensk stafsetning

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það er ekki í fyrsta skipti sem stafsetningarmál her á góma hér á Alþ. Það hafa vart orðið lengri umr. um önnur mál en þetta sem hér liggur fyrir. Ég vil, án þess að lengja þessar umr. um of, taka undir með þeim hv. þm. sem hafa mótmælt því að hér sé um hégómamál að ræða. Ég álit, að umgengni við íslenska tungu og varðveisla íslenskrar tungu sé og muni alltaf verða meginmál okkar Íslendinga ef við viljum varðveita þá menningu sem við hyggjum á enn í dag. Hitt er svo annað mál og ég skal lýsa því yfir strax, að ég er í þessu máli kannske meðalmanneskja eins og víðar, ég vil fara þarna veg sveigjanleikans að vissu marki. Ég er mótfallin því að gera bókstafinn z að eins konar pyntingartæki eða jafnvel fallöxi í íslenskum skólum. Við getum gjarnan sýnt þarna meira umburðarlyndi og meiri sveigjanleika en gert hefur verið hingað til. Jafnframt lýsi ég stuðningi við þessa þáltill. á þskj. 64 sem 11 hraustir alþm. standa að. Ég tel að hún boði sáttaleið sem við getum öll vel við unað. Og sannleikurinn er nú sá, að það, að þetta mál var tekið upp á þingi, hefur þegar gert það til góðs að hinar fráleitu reglur um ritun stórs og lítils stafs hafa aftur verið afnumdar góðu heilli, því að sá háttur, sem þar var lagður til, miðaði að því að gera ritað mál flatneskjulegra og um leið órökréttara en það var áður.

Það hefur mikið verið talað um, að z-an sé vandkennd í skólum, og vitnað í marga kennara sem hafa verið þeirrar skoðunar. Ég hygg að það sé hér eins og stundum áður, að hinn háværi minni hl, verði meira áberandi heldur en hinir, sem láta ekki eins hátt í málinu, en þeir eru örugglega margir, kennararnir sem mundu sjá eftir z-unni í íslensku máli, Það er örskammt síðan ég átti tal við kornungan íslenskukennara, harðduglegan og samvískusaman, og hann sagði: Með því að afnema z-una mundi ég missa eitt mitt mikilvægasta hjálpargagn í að skýra fyrir nemendum mínum uppruna orða og kenna þeim að þekkja stofn frá endingum. Það er nefnilega dálítið ósamræmi í því, þegar íslenskukennarar fárast yfir z-unni hvað hún sé erfið, af því að það er verið að burðast við ýmislegt í okkar íslenskukennslu í dag sem ég fyrir mitt leyti tel heldur fánýtt. Þar get ég aðeins drepið á setningafræðikennslu sem nú er farið að kenna allt niður í 13–14 ára unglinga með svokallaðri kvíslgreiningu. Ég efast um að nokkur eða margir hv. alþm. hafi heyrt það orð nefnt. Í mínum augum, og ég hef kynnt mér málið örlítið, þó alls ekki nóg til að geta farið nákvæmlega út í það, — að mínu áliti er þar verið að fara inn á leiðir sem ekki gera annað en að flækja og gera málin óskýrari fyrir nemendum sem eiga að nema íslenskt mál.

Það hefur einnig hér verið vilnað í þjóðir eins og Frakka og Breta, og það er alveg rétt, að Bernard heitinn Shaw, sem var nú sérvitur vel og snillingur mikill, barðist heitri baráttu fyrir því að fá enska stafsetningu einfaldaða. Ég er viss um að þeir alþm., sem kunna góð skil á enskri tungu, eru sannfærðir um að þar er mikill munur á, hvað íslensk stafsetning er þó einfaldari og meira í átt við hið talaða mál en enskan. En rök Breta á móti því að einfalda stafsetninguna um of hafa verið þessi: Við viljum að þjóð okkar í framtíðinni geti átt aðgang að rithöfundum eins og Shakespeare og helst að þeir geti lesið Chaucer gamla frá miðöldum, að ég tali ekki um fornenskuna, Bjólfskviðu og fleira sem við Íslendingar í dag lesum okkur til gagns, fornenskuna, þó að Bretum sé hún harla torskilin. Hvers vegna? Hvernig stendur á því að við Íslendingar lesum mál Breta frá 6. og 6. öld eða eitthvað síðar, 8. og 9. öld? Það er vegna þess að við höfum haldið fast við okkar fornu tungu. Það er vegna þess að við erum læs á bókmenntir, bæði okkar og samnorrænar bókmenntir, sem skrifaðar voru löngu áður en við fluttumst eða landnemar norskir fluttust hingað til Íslands. Þetta hljótum við að hafa í huga. Og ef við sýnum of mikla undanlátssemi og linku í því að málið sé skrifað rétt, þá líður ekki á löngu þangað til það afbakast og með tímanum glatast. Og hvar er þá stolt Íslendinga af menningu sinni komið? Mér finnst þetta liggja nokkuð í augum uppi.

Að því er varðar Frakka er alveg það sama uppi á teningnum. Þeir vilja hvorki einfalda sína múlbyggingu né stafsetningu með tilliti til þess að þeir vilja að frönsk þjóð í framtíðinni, og það alþýða manna, en ekki bara lærðir menn, eigi aðgang að því sem best hefur verið skrifað fyrr og siðar á franska tungu. Ég held því að bæði að því er varðar z-una og annað skulum við fara varlega og taka það ekki upp í okkur, að það sé íslenskum ungmennum ofraun að læra jafneinfaldan hlut og það að nota z, a.m.k. ef við föllum nú frá því sem erfiðara er, að nota hana rétt í miðmyndarendingum.

Ég tek orð — þetta er kannske fastheldni mín og þá er ég gamaldags — við skulum taka orð eins og orðið bezt. Mig hryllir við því að þurfa að skrifa best (með s-i). Við höfum verið vön því, og jafnvel áður en við lærðum nokkuð í stafsetningu, að skrifa þetta hástig af lýsingarorðinn góður með z. Við gætum tekið eitt lítið dæmi. Við erum þrjár konur á þingi og nú skulum við taka þær eftir stafrófsröð og segja: Ragnhildur er góð, Sigurlaug er betri, Svava er bezt. Ef við skrifuðum nú Svava er bezt (með z), þá er enginn vafi á því að við erum að slá Svövu Jakobsdóttur gullhamra. Ef við skrifum það hins vegar með s-i, hvað kemur þá út? Ragnhildur er góð, Sigurlaug er betri, Svava er svínabest, því að best (skrifað með s-i) þýðir í íslensku máli — ja, orð sem við ógjarnan tökum okkur í munn, það þýðir svínabest. Og ég er sannfærð um að hvorki samþm. okkar, Svava Jakobsdóttir, né hvorug hinna né neinn alþm. á þetta orð skilið. Orðið best er sennilega komið af enska orðinu beast, án þess að ég hafi fræðilega athugað það, og skrifast með s-i, og ég hygg að allir þeir, sem heyra það skammaryrði um hönd haft, viti hvað við er átt.

Það er augljóst mál af því, sem hér hefur komið fram, að það að líta um of yfir þýðingu stafsetningarinnar hefur stórfellda hættu í för með sér, Hv. frsm. þessarar till. nefndi orð eins og kless í staðinn fyrir kletts, vass í staðinn fyrir vatns. Hvað skyldu margar kynslóðir héðan í frá spyrja sig; hvað er þetta vass með tveimur essum, hvað er þetta kless? Eru það einhver klessuverk sem um er að ræða? Ef við förum út í svona hluti, þá skulum við vera raunsæ. (Gripið fram í: Hvað segirðu um orðið kvalir?) Það vitum við allir Íslendingar, Sunnlendingar með hv. og Vestfirðingar með kv. Við Sverrir Hermannsson segjum sjálfsagt kvalir, en ekki hvalir.

En ég ætla ekki að orðlengja þetta miklu meira. Ég mótmæli því, sem hefur komið hér fram, eða það er mitt álít, að varfærni í að breyta stafsetningu til einföldunar muni eyðileggja skilning manna á íslensku máli. Þvert á móti, hún ætti að glæða málauðgi og málsmekk, ef rétt er farið með kennslu í þessari grein.

Um hitt get ég verið sammála hv. 3. þm. Reykv. og mörgum fleiri, sem telja að það sé í rauninni allt of lítil áhersla lögð einmitt á að kenna nemendum í skólum lifandi notkun málsins. Málfræðistagl hefur verið fram til skamms tíma óþarflega mikið. En það hefur gróflega mikið verið slegið af kröfunum. Það veit, vænti ég, hv. 5. þm. Vesturl. sem hefur kennt í gagnfræðaskóla, að þær kröfur, sem gerðar voru til svokallaðs landsprófs fyrir 10 árum, eru orðnar sýnu rýrari og margfalt færri en þær voru fyrir einum áratug. Og við hljótum að taka tillit til þess, hvað aðrar þjóðir gera í þessum efnum. Ég sem kennari í erlendum tungumálum hef orðið vör við það, svo að ekki verður um villst, að kunnáttu íslenskra nemenda í almennri íslenskri málfræði hefur hrakað svo feiknalega á undanförnum árum að það fer að verða meira en lítill vandi að kenna þeim málfræðihugtök í erlendum málum, hliðstæð íslenskunni, sem þeir hafa ekki hugmynd um. Þó að við drögum úr málfræðistaglinu og innleiðum meira af lifandi bókmenntum og lifandi máli inn í kennslu skólana, þá skulum við flýta okkur þar hægt og einfalda ekki hlutina um of og draga úr þeirri virðingu fyrir uppruna íslensks máls sem okkur ber skylda til að viðhafa.

Það var vitnað hér í Nóbelsskáldið okkar góða, Halldór Kiljan Laxness, og síst skal ég gera lítið úr snilli hans, snilli hans fyrst og fremst sem afbragðs stílista. En ég sé ekki að Nóbelsskáldinu heri nokkur nauðsyn til að gera lítið úr alþýðu manna, eins og ég vil telja okkur alþm. á Alþ., þó að við leyfum okkur að gera íslenskt mál og meðferð þess að umræðuefni. Og ég fæ ekki varist því, að mér finnst gæta nokkurs hroka í ívitnaðri grein í Vísi sem Halldór Kiljan Laxness skrifaði fyrir nokkru, þegar hann spyr með nokkrum þjósti: Hvað kemur Sverri Hermannssyni það við, hvort við skrifum z eða skrifum okkar mál eins og okkur sýnist? (Gripið fram í: Hann sagði þetta ekki.) Hann sagði þetta með þessum orðum, og ef þú hefur Vísi við höndina, hv. þm. Stefán Jónsson, þá muntu komast að raun um, að þetta er rétt, a.m.k. upphaf setningarinnar. Ég tel að við alþm. hljótum að setja okkar stolt í að umgangast mál okkar af virðingu og af varúð gegn því að það afbakist og verði að bráð alls konar hortittum, öfugmælum, latmæli og kæruleysi sem ógnar því úr öllum áttum, ekki hvað síst eftir að við erum orðin í þjóðbraut þjóða, og útlend áhrif frá ýmsum málum ættu að gera okkur það ljóst að við verðum að standa vel á verðinum.

Ég vil ásamt hv. 5. þm. Vesturl. mótmæla því, að verið sé að fara út í menningarlega stéttaskiptingu með því að taka upp vissar reglur og viðhalda vissum reglum í kennslu íslenskrar stafsetningar og meðferð íslensks máls. Þetta er hreinasta firra. Ég held að ég muni það rétt, að í umr. hér áður á þingi vísaði hv. 5. þm. Vesturl. því á bug, að alþýða fólks og þeir kannske, sem álitnir eru minni háttar í þjóðfélaginu, séu þess nokkuð síður umkomnir að læra grundvallarreglur í íslenskri stafsetningu heldur en þeir sem standa ofar í þjóðfélaginu. Þetta er bábilja og þetta er móðgun við íslenska alþýðu.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég endurtek: Ég styð þessa till., hún er til bóta og við ættum að sameinast um þessa sáttaleið allir þm.

Það er aðeins eitt sem ég vil vekja athygli á og mér fyndist ekki úr vegi að athuga nánar. Það er um skipun þessarar sjö manna n. Þar eru taldir upp merkir fulltrúar úr ýmsum áttum, þ. á m. einn móðurmálskennari, annaðhvort á grunnskóla- eða framhaldsskólastigi. Ég tel einsýnt að við verðum að hafa þarna grunnskólakennara, og ef um það væri að velja hvort heldur grunnskólakennara eða framhaldsskólakennara, þá vel ég grunnskólakennarann frekar því að hann á að leggja undirstöðuna. Það væri eðlilegt, finnst mér, að kennurunum væri þarna sem sagt fjölgað: einn á grunnskólastigi, annar á framhaldsskólastígi og einn hv, prófessor úr háskólanum. Og þá væru 4 menn eftir enn sem gætu skipst með eitthvað breyttum hætti frá því sem gert er ráð fyrir hér.

Ég vil draga í efa það sem hv. þm. Magnús T. Ólafsson sagði, að það sé alveg marktækt viðhorf sem hann telur hafa komið fram úr skólunum almennt. Það var að vísu hópur manna sem hóaði sig saman og skrifaði undir allsterkt áskorunarskjal um að fella niður z-una algerlega. En hinir eru býsna margir, sem mundu sjá eflir henni úr íslensku ritmáli.

En svo að ég endurtaki það sem ég byrjaði á: Við skulum ekki fella z-una niður. Við getum farið þessa sáttaleið, að halda henni í stofni. Og við skulum engan veginn beita henni af of mikilli hörku og færa nemendur niður í núll í íslenskri stafsetningu þó að þeir gerðu jafnvel 10 z-villur í ritgerð. Við þurfum að sýna visst frjálslyndi, vissan sveigjanleika, leggja ekki of mikið upp úr þessu atriði. En við megum ekki ganga fram hjá því, því að það felur í sér mikla hættu fyrir okkar kæra íslenska móðurmál.