15.11.1977
Sameinað þing: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

58. mál, íslensk stafsetning

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð, þótt ég muni með þeim tala mig dauðan í málinu. Ég get að vísu ekki tekið undir með hv. þm. Jónasi Árnasyni og hv. þm. Sverri Hermannssyni á þá lund, að ég sé allsendis viss um að Halldór Laxness sé mesti rithöfundur, skáldsagnahöfundur, sem ég hafi lesið, hef ég þó sennilega lesið minna í heimsbókmenntunum en Jónas Árnason og þeir báðir. Ég treysti mér ekki til þess að kveða upp slíkan dóm. Stundum hefur mér fundist Hamsun vera fullt eins gott sagnaskáld og Halldór Laxness, stundum hefur mér fundist, þegar ég les Hemingway, að hann sé eins mikið sagnaskáld og Laxness. En það breytir engu um það, að mér finnst Halldór Laxness gott sagnaskáld og ég dái ritsnilld hans og þekkingu hans á íslensku máli, stíl hans, smekk og tilfinningu fyrir þessu blessaða tungumáli okkar. En ekki er það vegna neinnar dýrkunar sem ég las upp Vísisgrein hans áðan, heldur var það fyrst og fremst sökum þess að í hana hafði verið vitnað mikið hér við umr. Sumir gerðu það ekki öldungis rétt. Ég tel að þingtíðindin með umr. um z-málið kunni síðar meir, m.a. vegna yfirburðaþekkingar ýmissa ræðumanna — og þá náttúrlega ekki síst frummælandans, Sverris Hermannssonar — að þykja fróðleg lesning og þá hægt að spara þeim, sem fræðast vilja af þessum umr., geysimikla fyrirhöfn með því að hafa þessa grein Halldórs Laxness, sem vitnað var í bæði með réttu og röngu, við höndina til samanburðar.

Það gleður mig að hv. þm. Jónas Árnason er genginn í salinn, þar sem ég var nú rétt í þessu að reyna að vekja athygli hans á nauðsyn þess að Vísisgrein Halldórs Laxness fylgdi með í stingtíðindum til þess að menn hefðu hana til samanburðar, sérstaklega vegna þess að í hana var vitnað allmikið og sumir vitnuðu í hana ranglega. Þetta mun auðvelda ákaflega mikið þeim, sem vilja lesa hinar spaklegu umr. um bókstafinn z sem hafa átt sér stað hér á Alþ., en þetta stafaði ekki af neins konar dýrkun á alvisku Halldórs Laxness í þessu máli.

En svo að ég víki aðeins að þeirri tilgátu hv. þm. Sverris Hermannssonar, að framtennur hefði hlotið að vanta í mann þann sem ekki næði þýsku blísturshljóði í framburði, og orsökin hefði tæpast legið undir tungurótum, þá leyfi ég mér að vitna í norskan prófessor, sem lýsir einnig — og að því er virðist af allmikilli alvöru — aðferðinni við að mynda þessi sérstöku þýsku blísturshljóð með tungunni. Það hljóðar þannig í lauslegri þýðingu:

„Verpa ber tunguna þannig, að jaðrar hennar íhvolfrar nemi við innstu jaxla og broddur tungunnar sveigist aftur á við þannig að litlu muni að hann snerti úfinn“.

Vildi ég gjarnan, að hv. þm. Sverrir Hermannsson bæri fram þessi þýsku blísturshljóð fyrir okkur með þessum hætti, þannig að við mættum glögglega verða þess vísari hvort hægt er að ná þessum árangri án þess að ganga undir sérstaka skurðaðgerð.

Ég hef áður lýst yfir þeirri skoðun minni, að stafsetning, tjáningartorfærur eins og afkáralegir bókstafir, sem ekki eiga sér stoð í töluðu máli, séu ekki til þess fallnar að örva íslensk börn og unglinga til áhuga á íslensku máli, og fært hef ég fyrir þeirri skoðun minni nokkur rök. Ég ætla ekki að tíunda þau hér aftur, en vildi gjarnan vekja athygli hv. þm. á því, að þágufallssýkin, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson minntist á hér áðan, virðist halda áfram að dafna hér og lifa góðu lífi þrátt fyrir lögboðna stafsetningu.

Um flámælið, sem hv. þm. bar sér í munn hér áðan, væri e.t.v. hægt að halda býsna langa fyrirlestra. Ég hefði m.a. haft gaman af því að geta gefið mér tóm til þess að fjalla dálítið um þetta, þar sem ég geri ráð fyrir því að hann eigi við hljóðvilluna sem ég ólst upp við á Suðausturlandi og heyrði hljóma spaklega af munni margra góðra manna sem kunnu að kveða rétt að íslensku og brast ekki orð, og kynni nú að koma þar niður málið að til álita kæmi hvort íslensk tunga hefði sem slík fegrast mikið við þess háttar sigur sem unninn var á hljóðvillu, er leiddi m.a. til þess að ungir Íslendingar þora ekki lengur að kveða að hugsun sinni á íslensku máli.

Ég sé nú ekki beinlínis, að hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir þurfi endilega að lenda í stórvandræðum þótt íslenskum unglingum yrði ekki í kennt til frambúðar að skrifa best, hástigsorðið, með z. Hún á þess kost eftir sem áður að skrifa t.d. best með s-i þegar hún meinar það ekki, en með z, þegar hún meinar það, í líkingu við ónefndan alþm., sem ég vissi að skrifaði á sínum tíma — sá nafn hans — undir skjal það sem Gylfi Þ. Gíslason bar hér um sali og bað menn skrifa undir, kröfuna um uppvakningu z í ritkennslumáli í skólum. Þóttist ég þá hafa séð reikning, sem þessi hv. þm. hafði skrifað upp á einu sinni synjun: „Þessum reikningi neyta ég“. Hann skrifaði það með ypsíloni af því að hann meinti það.

Þm. eiga kost hinna fjölbreytilegustu afbrigða í stafsetningu eftir sem áður, þeir sem læra vilja að skrifa íslensku með z geta gert það þegar þeir hafa hlotið til þess þroska og mótun skapgerðar sem til þess þarf að taka slíka ákvörðun af fúsum og frjálsum vilja. En það verður að bíða þess tíma. Og ég er þeirrar skoðunar, að við eigum að hlífa ungum börnum, sem ekki fá borið hönd fyrir höfuð sér, við þess háttar píslun.