15.11.1977
Sameinað þing: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

58. mál, íslensk stafsetning

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Mér þykir nú þessar umr. hafa dreifst allvíða og vera komnar í ýmsum tilvikum nokkuð langt frá því máli sem hér er til umr., en það hélt ég væri till. til þál. á þskj. 64, um íslenska stafsetningu, eins og þar nánar greinir.

Ég skal ekki halda hér langa ræðu um þetta mál, enda ekki til þess fær að blanda mér í þær hálærðu umr. sem hér hafa farið fram um þróun íslensks máls frá upphafi vega. En ég hef ávallt verið þeirrar skoðunar og er enn, að þær breytingar, sem gerðar voru á íslenskri stafsetningu 1973 og 1974, hafi ekki verið til bóta, enda sýnist mér að nú þegar sé horfið frá þeim að talsverðu leyti. Og ég sé ekki hvaða ástæða er til þess að útrýma stafnum z, sem ekki hefur sjálfstæðan framburð í málinu, fremur en öðrum stöfum sem eins er ástatt um. Það er mér hulið, Þeir sem vilja standa vörð um ypsilon, sem þó aldrei heyrist, en útrýma z, sem raunar heyrist ekki heldur, hljóta að hafa til þess einhverjar ástæður, einhver rök sem ég hef ekki enn þá heyrt, og væri æskilegt að þau kæmu fram, þegar þessi mál eru til umr.

Það er mikið gert úr því, að erfitt sé að læra að rita z. Ég hef ekki þá reynslu. Það er létt að rita z, ef maður lærir það í skólum snemma, eins og t.d. ég tel mig hafa gert. Það er meiri vandi að rita ypsilon eða vita, hvar það á að gerast. Og ef þetta er til þess að auðvelda ungmennum að rita málið, þá held ég að ypsilonið ætti að fara líka, en ég vil hvorugan stafinn missa. Það má vera einhver fastheldni í því, en þetta er mín skoðun.

Ritun málsins eftir framburði er hlutur sem mér líst ekki á, og satt að segja hygg ég að þingtíðindin yrðu erfið í prentun, ef slík regla yrði upp tekin, og menn yrðu þá væntanlega að skrifa þau sjálfir eins og þeir vildu rita þau, og þannig væri auðvitað með fleiri fregnir heldur en þingtíðindi. Það verður t.d. erfitt að prenta ræðu hv. þm. Jónasar Arnasonar, þar sem hann talaði um framburð okkar Sunnlendinga á hljóðinu hv. Ég sé ekki betur en það þurfi að búa til nýjan staf, ef því á að verða fullnægt. Verður það auðveldara í framkvæmd og meðferð en þær reglur, sem við höfum alist upp við, þær reglur sem hafa verið hér í gildi í áratugi og nú er farið að hringla með þannig að enginn veit hvað er upp og hvað er niður og unglingar telja sig ekki þurfa að læra raunar neina stafsetningu, af því að allt eigi að vera frjálst? Ég tel þetta ekki til bóta.

Það var minnst hér á hljóðvillu, að hún hefði verið að heltaka málið. Það hefði tekist að koma í veg fyrir hana, en hún hefði verið orðin svo útbreidd, að kennarar urðu að gera greinarmun á e með gati og e með punkti — var það ekki? — eða eitthvað í þá veru. En það skyldi þó aldrei vera, að það hefði verið þessi kennsla og þessi lögboðna eða regluboðaða stafsetning sem kom í veg fyrir að hljóðvillan varð allsráðandi, þannig að skyr hét hjá sumum skyr, en hjá öðrum sker o.s.frv. Ég held þess vegna, að það sé mjög þýðingarmikið að hafa festu og samræmi í ritreglum og að allar breytingar í þeim séu varhugaverðar, jafnvel þær að fella niður stafi sem ekki heyrast í framburði.

Allar hugleiðingar hv. þm. Stefáns Jónssonar um læknisaðgerðir til þess að þessi þáltill. geti fengið framgang eru algerlega út í hött. Þessi till. er ekki um framburð, hún er um stafsetningu, og ég vænti þess að ekki þurfi að framkvæma neina skurðaðgerð á munni eins eða neins til þess að hann geti skrifað stafinn z fremur en aðra stafi. Slíkar hugleiðingar eru kannske skemmtilegar fyrir einhverja, en þær koma þessu máli ekkert við.

Menn hafa mikið vitnað hér í Halldór Laxness og grein sem hann ritaði í blað um það efni sem við erum hér að fjalla um, og menn hafa séð ástæðu til þess að tjá afstöðu sina til hans sem rithöfundar í þessu sambandi og láta þess getið í leiðinni, hvaða aðra rithöfunda þeir hefðu lesið sem nokkurs séu metnir í heimsbókmenntum. Ég ætla ekkert að fara út í þetta. Ég hef lesið nokkrar bækur líka og hef mínar meiningar um það. Ég hef mikið álit á Halldóri Laxness sem rithöfundi. En ég held að alveg óhætt sé að slá því föstu, að Halldór Laxness fékk ekki Nóbelsverðlaun fyrir stafsetningu, menn ættu að gera sér það algerlega ljóst, vegna þess m.a. að hún naut sín ekki í þýðingum. Í öðru lagi held ég líka, að hann hafi ekki öðlast frægð sína og vinsældir á Íslandi fyrir það, hvernig hann ritar orðin, heldur hvaða orð það eru sem hann ritar og hvernig hann raðar þeim saman. Þannig a.m.k, er minn skilningur. Ég hef ekki fallið í stafi af því að orðin eru rituð eftir framburði, heldur hinu, hvaða orð eru valin á hverjum stað og hvernig afstaða þeirra til annarra orða í ritum hans er.

Ég held þess vegna, að sú till., sem hér er fram borin, sé til þess að leita sátta, og ég veit að hún er það, — til þess að leita sátta í því máli sem er til leiðinda í þjóðfélaginu. Það er stríð um þennan bókstaf sem er orðið víðtækt og margir taka þátt í. Og ég held, að Alþ. ætti að sjá sóma sinn í því að vera ekki að halda endalausa maraþonfundi um íslenskt mál frá upphafi vega í sambandi við þetta, heldur reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Og ég hef ekki séð þó einlægari leið til þess að samræma sjónarmiðin en sú till., sem hér er á ferðinni, gerir ráð fyrir.