16.11.1977
Efri deild: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

59. mál, eignarráð yfir landinu

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði í raun og veru ekki hugsað mér að taka til máls við þessa umr., og er það fyrst og fremst vegna þess að ég hef lagt drög fyrir upplýsingar sem ég taldi mig þurfa að hafa í höndunum til þess að ræða málið fyrst og fremst eða m.a. frá þeim sjónarhóli sem ég vildi fjalla um, en það eru eignarráð á afréttum. Ég gerði það lítils háttar að umræðuefni fyrir nokkru í þessari hv. d. vegna hliðstæðs máls eða till. sem flutt var af þm. Alþb. En það verður að bíða, því það hefur vafist meira fyrir mér en ég ætlaði að ná þeim upplýsingum sem ég átti von á og á von á að fá. En umr., sem orðið hafa um þetta mál hér, leiða til þess, að ég tel rétt að koma fram með fáeinar ábendingar.

Ég vil þá í fyrsta lagi minnast á það ákvæði 4. gr. frv., að ríkinu skuli vera skylt að kaupa bújarðir af bændum ef þeir óska, en ég sé ekki í frv. að ríkið sé skyldugt að kaupa af öðrum en bændum. Það er að vísu sagt að landið skuli vera eign ríkisins, en ég sé ekki að það sé hugleitt að það eru fleiri landeigendur í landinu en bændur, og ég er ekki í vafa um að ef menn óttast að eigendur jarðanna torveldi almenn not af landinu, þá eru það fyrst og fremst þeir, sem búa ekki á jörðunum, sem torvelda afnot annarra af landinu, og þess vegna væri það vissulega meira til þess að þjóna þeirri bugmynd, sem að baki þessa frv. liggur, að gera það fyrst og fremst að skyldu að kaupa þær bújarðir sem eru ekki í sjálfsábúð. Þetta er mín meining, og þetta vildi ég láta koma fram við þessa umr.

Ég held að það verði ekki heldur hægt að ganga fram hjá því, að þær kvaðir, sem með þessu frv. eru lagðar á ríkið, eru það miklar, að ég hygg að það verði torvelt að sinna þeim miðað við getu ríkisins til þess að sinna því sem um er beðið.

Það er að vísu eitt allgott ráð sem bent er á í 5. gr„ og það er að það megi láta það vera t.d. að kaupa upp veiðiréttinn með því að lofa manni að nota hann í 20 ár og éta hann út, þá kosti það ekkert fyrir ríkið á eftir því að verðmætið minnki um 1/20 á ári. Hvernig fer maður með þessi réttindi, ef hann má nota þau í 20 ár og fær svo ekkert fyrir þau þegar hann stendur upp? Hafa flm. hugleitt það, ef ríkið er skyldugt til að kaupa þennan rétt, hvað það muni kosta og hvernig muni ganga að afla þess fjármagns sem til þess þarf? Ég efast um að það hafi verið hugsað til enda.

Ég gat um það áðan að mig vantaði enn þau gögn sem ég ættaði mér að hafa í höndunum þegar ég ræddi um ákvæði 7. gr. þessa frv. Ég ætla því að sleppa því að koma að því núna. E.t.v. gefst tækifæri til þess síðar.

Þá vil ég aðeins víkja að þeim ákvæðum, sem eru í 8. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir að ríkið sé skyldað til að anna eftirspurn þéttbýlisbúa eftir leigulóðum undir sumarbústaði og láta skipuleggja slík bústaðahverfi. Ég er að sjálfsögðu þakklátur fyrir viðurkenningu og hrósyrði sem ég fæ hér, aumur maður, fyrir það sem ég hef gert í þessum málum. En vegna þess að ég hef haft afskipti af þessu, þá er mér ljóst að það að gefa kost á slíku kostar peninga. Þetta, sem við höfum staðið að í Gnúpverjahreppi, að skipuleggja sumarbústaðalönd, er ekki stórt mál. Það hverfi mundi spanna yfir, ef ég man rétt, 24 sumarbústaði. En það kostar allmikið að girða land af í einu lagi, leggja um það vegi til þess að það geti verið nothæft fyrir þá sem ætla að njóta þess, og ég tel að ef slíkir staðir eru á annað borð skipulagðir þurfi að ganga frá vissum þáttum félagslega eða sameiginlega fyrir þá sem eiga að njóta þeirra. En þetta kostar allmikið fé, og ég held að það verði ekki hægt að fjármagna allt það, sem gera á í þessu efni, með því að fella niður útflutningsbætur og nota þær til Jarðakaupasjóðs og annarra hluta. Ég vil einnig benda á það, vegna þess að 1. flm. frv. kom inn á það áðan að það væri hollara að greiða fjármuni í Jarðakaupasjóð heldur en að greiða Norðmönnum fyrir að borða okkar kjöt, að það er ekki það sem við erum að gera. Með útflutningsbótunum er ekki verið að gera neitt annað en að gera tilraun til þess að tryggja bændum að þeir fái laun fyrir sína vinnu. Við getum deilt um það, hvort sú aðferð sé rétt eða röng, en þeir fjármunir, sem til þess þarf, verða ekki notaðir til annars. Ég á ekki von á því, að með því einu að kaupa eignir af bændum, sem fyrir einhverra hluta sakir vilja losna við eign sína, annaðhvort vegna þess að þeir hafa komist illa af eða þeir eru orðnir fullorðnir menn og þurfa, að hætta búskap, — ég á ekki von á því, að það verði launatrygging til þeirra þó að það sé hægt að kaupa af þeim jarðirnar, og þess vegna ekki réttlætanlegt að tala um það í sömu andránni að fella niður útflutningsbæturnar og nota þær í þessu efni.

Það var um það fjallað hér áðan eða kom fram í ræðu síðasta hv. ræðumanns, 1. landsk. þm., að veiðimálin væru erfið viðfangs og mundu sjálfsagt verða auðveldari í höndum ríkisins en í höndum margra veiðiréttareigenda, og á það bent í sömu andrá að fyrst og fremst stæði hér á Árnessýslu, sumir hefðu sagt, að ef ekki væri um veiðiréttareigendur að ræða í Árnessýslu, þá mundi þetta vera í himnalagi yfir allt landið. Það má vel vera að svo sé. En Árnessýslu verður ekki kúplað út úr þessum málum. Það eru mikil veiðihlunnindi, en þau eru sérstæð og það þarf vissulega bæði samkomulagsvilja og skipulag til þess að þau geti verið í lagi. Það hefur verið torvelt að koma því á. En þó svo að ríkið ætti þennan veiðirétt, þá mundi trúlega ekki verða þess fyrsta verk að fleygja burt öllu fólki af árbökkunum. Ég er alveg viss um það, að á meðan menn búa meðfram ánum, þá verður alveg jafnvandasamt að fást við það að sameina menn um viss átök í veiðiréttar- og fiskræktarmálum þó að veiðieigandinn sé einn, því það er nú einhvern veginn þannig, að mannvistin sjálf veldur oft mestu og torleystustu verkefnunum þegar skipuleggja á hlutina.

Ég hef lítið undirbúið þetta mál mitt af þeim sökum sem ég greindi frá áðan. En ég er búinn að lesa þetta frv. nægilega vel til þess að ég get ekki fallist á efni þess eða stutt það.