16.11.1977
Efri deild: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

81. mál, söluskattur

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv, þm. Ragnari Arnalds að endurflytja frv. sem við fluttum í lok síðasta þings um breyt, á l. nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum, en 1. gr. frv. er þannig að 1. tölul. 7, gr. laganna orðist svo:

„Vinna við húsbyggingar og aðra mannvirkjagerð, sem unnin er á byggingarstað svo og í verksmiðju, á verkstæði eða starfsstöð. Sama gildir um vinnu við endurbætur og viðhald slíkra mannvirkja.“

Hér er um það að ræða, að undanþága frá söluskatti er nú miðuð við húsbyggingar og aðra mannvirkjagerð sem unnin er á byggingarstað, en ekki varðandi þá vinnu sem unnin er í verksmiðju, á verkstæði eða starfsstöð, eins og segir í lögunum. Söluskattsinnheimtunni er sem sagt þannig háttað, að við hinar svokölluðu einingabyggingar, sem nú færast æ meira í vöxt, er söluskattur innheimtur af nákvæmlega sams konar verkþáttum og um er að ræða á byggingarstað við venjulegar húsbyggingar.

Mig langar til að fara nm húsnæðismálin örfáum orðum í tilefni af þessu frv., áður en ég kem að efni þess, en eins og við vitum eru húsnæðismálin einn snarasti þátturinn í okkar félagslegu þjónustu, þ.e.a.s. aðstoð við húsbyggjendur til að koma þaki yfir höfuð sér. Þar er um að ræða aðalhlutverk Húsnæðismálastofnunar ríkisins og þetta hlutverk hefur einnig færst yfir á lífeyrissjóði í landinu. Það er þó staðreynd að þó að margt hafi verið í þessu vel gert, þá er aðstoð okkar við húsbyggjendur hér á landi mun minni en í öðrum löndum í nágrenni okkar. Við erum að vísu með nokkra flokka íbúða þar sem um verulega lánsupphæð er að ræða eða verulega lánsprósentu, þar sem eru verkamannabústaðirnir, leigu- eða söluíbúðir, útrýming heilsuspillandi húsnæðis, þar sem um er að ræða allt að 80% lána, en þá eru vaxtakjörin slík í okkar verðbólgu, með þeirri verðtryggingu sem er á þessum lánum, að það reynist illkleift fyrir venjulegt fólk að standa undir afborgunum og vöxtum af þessum lánum. Mér er t.d. sagt í sambandi við þessar söluíbúðir á vegum sveitarfélaganna, að þar sé upphæðin í vöxtunum og verðtryggingunni milli 800 og 900 þús. kr. á ári og sjá menn þá sína sæng upp reidda varðandi það að hinn venjulegi maður geti við það ráðið.

Viðbótarverkefni eru auðvitað ýmis, en sannleikurinn er sá, að að þeim hefur verið enn verr staðið. Þar á ég við lán til kaupa á eldri íbúðum. Til þeirra eru mjög lág lán, og það veldur því aftur að margar þokkalegar íbúðir eru ekki seldar. Þær grotna niður. Hér á það einnig við að endurbóta- og viðgerðalán þau, sem áður voru nokkur um tíma, hafa nú verið felld niður og ekkert komið í þeirra stað. Þessi nauðsyn varðandi eldri íbúðirnar og endurbyggingu og viðgerðir á þeim, þessi þáttur hefur sem sagt verið sorglega vanræktur af þeim ástæðum að þarna hefur verið um mjög lágar upphæðir að ræða og endurbyggingar- eða viðgerðalán hafa aðeins verið til öryrkja þó að það hljóti auðvitað að teljast mikil bót — aldraðra og öryrkja.

Ég var hér einu sinni á þingi með till. um að a.m.k. 10% af ráðstöfunarfé Húsnæðismálastofnunarinnar rynnu til þess að lána til kaupa á eldri íbúðum, og einnig var ég með vissa tillögu hvað snertir viðgerðir og endurbætur á húsum. Þetta náði þá ekki fram að ganga. En því var þá lýst yfir jafnframt, að við endurskoðun á húsnæðismálalöggjöfinni í heild mundu þessi atriði bæði verða tekin inn. Og ég man eftir því, að í fyrra var flutt í Nd., að mig minnir, frv. af framsóknarmönnum þar um ákveðin endurbóta- og viðgerðalán.

En þegar svona er staðið að þessum þáttum hlýtur að skipta máli að leggja höfuðáherslu á það við byggingarnar að þær séu sem ódýrastar. Ég veit vel um erfiðleikana af því að við gerum miklar kröfur, of miklar kröfur að mínu mati, til húsnæðis, bæði hvað stærð og íburð snertir, og virðast fæstir kunna sér þar hóf þótt margra ára skuldabaggi sé á bak bundinn með því ráðslagi. Annað er það svo, að hér á landi þarf af ýmsum orsökum að gera meiri kröfur til vandaðra og sterkra bygginga og alls ytri búnaðar húsa en víða þarf að gera.

Í 3. gr. laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins eru stofnuninni lagðar vissar skyldur á herðar, og ein af þeim, sem fyrst er upp talin, er einmitt að vinna að umbótum á byggingaraðferðum og vinna að lækkun byggingarkostnaðar. Síðan kemur löng upptalning á hinum ýmsu þáttum sem inn þar koma til greina. Ég efa ekki að eitthvað hefur verið gert, en þó áreiðanlega minna en skyldi. Ég lít sem sagt á það sem höfuðhlutverk þessarar stofnunar að skipuleggja sem best byggingar í landinu, með langtímaáætlunum að svo miklu leyti sem unnt er og með góðri yfirsýn og áætlun um það sem viðkemur nánustu verkefnum, með beinum tilraunum í byggingarstarfsemi með hagkvæmni sem aðalmarkmið og með því að beina fjármagni stofnunarinnar til þeirra þátta sem mest þörf er á á hverjum tíma, þ.e.a.s. ekki aðeins að vera sá úthlutunar- og eftirlitsaðili sem stofnunin er í dag að yfirgnæfandi hluta. Að vísu er gott eitt um það að segja svo langt sem það nær, einkum hvað snertir nauðsynlegt aðhald og eftirlit, þannig að innan skynsamlegra marka sé verið og ekki lánað til bygginga sem eru langi umfram alla þörf, svo sem þó eru um ótalin dæmi. En af þessari upptalningu, sem kemur fram í lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins, er þó þýðingarmest að mínu viti að stuðla að hagkvæmni og sparnaði í húsbyggingum, gera þær eins ódýrar og unnt er án þess í nokkru að skerða nauðsynleg gæði. Þá er ekki síður nauðsyn að stuðla að því að byggingartími verði sem stystur, að sem stystur tími liði frá því að húsbygging er hafin þar til viðkomandi aðili getur flutt inn í nýtt húsnæði fyrir sig og sína. Þó að hvergi skuli vanmetið starf ýmissa aðila, sem hafa að þessu stefnt, einkum byggingarsamvinnufélaga ýmiss konar þar sem alls konar samhjálp og samstarf margra hefur auðveldað verkið og sparað mikla fjármuni, gert þetta mikla átak léttara æðimörgum húsbyggjanda, þá er það skoðun okkar flm., að merkustu tilraunir til hagkvæmni og sparnaðar hafi komið fram í því sem einingarverksmiðjurnar hafa verið að gera að undanförnu hér á landi, þótt langt í frá hafi verið þar nógu vel að staðið, hvorki um uppbyggingu, fjármagn í upphafi né nauðsynlegt rekstrarfé, hvað þá nauðsynleg lágmarksafköst til þess að verulegur sparnaður geti af orðið. Flest hefur verið af vanefnum gert og allt of lítill stuðningur fylgt af hálfu þeirra aðila sem best ættu hér að vinna að, svo sem Húsnæðismálastofnunar og lánsfjáraðila þeirra sem stofnframlögum ráða. Engu að síður er hér um umtalsverðan árangur að ræða, einkum hvað snertir hagkvæmni ýmiss konar og eins varðandi styttingu byggingartíma, og á ég þar sér í lagi við timburhúsin. Væri hér um fullkomnari aðstoð að ræða, raunverulega húsaverksmiðju með t.d. 100 húsa ársframleiðslu með fullkomnum vélbúnaði, þá er ljóst að um mjög umtalsverðan sparnað yrði að ræða fyrir húsbyggjendur, jafnvel um 10–15% lækkun kostnaðar, miðað við það sem ég hef séð í skýrslum sem ekki hafa verið vefengdar af þeim sem gerst þekkja til í byggingarmálum.

Það er hins vegar leiður kapítuli í öllu því, sem gert hefur verið hingað til í þessum efnum, að vera með verksmiðjubyggð hús í einni eða annarri mynd, að ég tel nokkuð hafa á skort um nauðsynlegt samstarf á milli byggingaraðila og húsnæðismálastofnunar. Oft hefur myndast þar misskilningur og tortryggni og má eflaust kenna báðum um þar sem þessi hefur orðið raunin. Sums staðar hefur jafnvel verið um hálfgildings kalt stríð að ræða, m.a. um gæðakröfur og lánshæfni. Nýjasta dæmi þessa er þegar Húsnæðismálastofnun ríkisins ákvað, sem ég taldi mikla framför, að greiða 2/3 hluta láns út á íbúðarhús gegn ákveðnum skilyrðum um hve langt þessi einingahús þyrftu að vera á veg komin, þ.e.a.s. greiða 2/3 láns út við fokheldni. Þetta var ótvírætt hagræði fyrir báða aðila, bæði húskaupanda og söluaðila. En þrátt fyrir þessa ákvörðun og reglugerð þar um hefur þó einhver hnútur myndast þarna, svo að afgreiðsla eftir þessum nýju reglum um 2/3 hluta láns við fokheldni í sambandi við einingahúsin hefur ekki enn farið fram og þarna ganga klögumálin á víxl. Segja þeir, sem eru að selja þessi hús, að um þetta gildi of strangar reglur hjá Húsnæðismálastofnun. Hins vegar segir Húsnæðismálastofnunin að það sé ekki nógu langt gengið eða vel fyrir öllu séð hjá þessum aðilum. Um þetta vil ég ekki neitt dæma, en það er ljóst að þetta mikilvæga atriði næst ekki fram meðan ekki ríkir betra samstarf og samvinna á milli þessara aðila. Það er þó ljóst, að það er skylda stjórnvalda að ýta hér undir og auðvitað tryggja þá um leið sambærileg gæði þessara húsa, hjálpa til við uppbygginguna og gæta þess alveg sérstaklega að íþyngja ekki þessu merka framtaki umfram aðrar húsbyggingar.

Þá er komið að aðalefni frv. okkar, sem sé því misrétti sem hér viðgengst og tæpast verður við unað, sem ég vék að áðan, að ekki er innheimtur söluskattur af vinnu við húsbyggingu sé hún framkvæmd á byggingarstað, en hins vegar af sömu vinnu ef hún fer fram í verksmiðju við svokallaðar einingabyggingar. Með síhækkandi söluskatti, sem eflaust sér enn ekki fyrir endann á, er hér um síaukna mismunun að ræða sem hlýtur að vera bæði óeðlileg og ranglát í senn. Hér hlýtur það að eiga að gilda, að hið sama gangi yfir í skattheimtu hvort sem hús eru byggð á byggingarstað eða í verksmiðju.

Ég spurði um þetta mál á Alþ. í fyrravor, hvort líkur væru á breytingu. Margir þeir, sem hér að standa nú eða hyggja á hreyfingu varðandi einingahús og hugðu gott til að þessu yrði aflétt, töldu sig jafnvel hafa um það vilyrði. Því var um þetta spurt. En svar ráðh. var algerlega neikvætt. Hann lýsti réttilega þeim mikla vanda sem hvers kyns undanþágur varðandi söluskattinn sköpuðu, og það er rétt að slíkum undanþágum fylgir ætíð viss misnotkunarhætta. En þó skal það undirstrikað, að ekki er hún meiri á nokkurn hátt hvað þetta snertir en annað, nema síður sé, því að hér er um mjög hreina verkþætti að ræða og algerlega sambærilega þeim sem í dag eru hvort sem er undanþegnir söluskatti. Það má hins vegar vel vera að um þetta þurfi skýrara orðalag en er í frv. okkar, þannig að ekki fari á milli mála að við ætlum hér að taka inn í undanþáguna aðeins fyllilega sambærilega verkþætti og nú eru unnir á byggingarstað, en erum á engan hátt með aðra frekari útfærslu á þessari undanþágu — aðeins það að þessar byggingar njóti fulls jafnréttis við aðrar í landinu.

Nýleg skýrsla Iðnþróunarsjóðs sýnir okkur að hér er um vaxandi starfsemi að ræða. Allmargir aðilar eru þegar í dag við byggingu þessara einingahúsa, ýmist í sambandi við steyptar einingar eða timbureiningar: Húseiningar á Siglufirði, Húsasmiðjan hér í Reykjavík, trésmiðaverkstæði á Selfossi, Trésmiðja Fljótsdalshéraðs á Hlöðum, og eins er um verksmiðju í Kópavogi. Og alls staðar virðist samkv. þessari skýrslu að um verulega aukningu og sums staðar margföldun sé að ræða. Sú er líka raunin, eins og ég kom inn á áðan, að hér þarf að verða um allmikla fjöldaframleiðslu að ræða ef takast á að ná því höfuðmarkmiði að lækka byggingarkostnað verulega, eins og þá ætti að vera unnt.

Á mínum heimastað hafa verið uppi hugmyndin í þessa átt, og bendir allt til þess samkv. þeim tölum sem við höfum þar og ekki hafa verið beint vefengdar, að unnt verði að ná byggingarkostnaðinum mjög niður. Ef þær áætlanir standa sem þar hafa verið gerðar, og þó að þær stæðust ekki að öllu leyti, þá mundi vera um verulega lækkun á byggingarkostnaði að ræða. Hins vegar hefur þessi hugmynd mætt, vægast sagt, tómlæti og enn er þar allt á huldu um framhald. En af þeim athugunum og áætlunum, sem þar hafa farið fram, og í viðræðum við fjölda aðila um þessi mál hef ég sannfærst æ betur um réttmæti þessa byggingarforms. Raunar ættu allir aðilar að taka fagnandi á þessu máli og styðja hér við, þar sem unnið er að þessu af alvöru, auðvitað með sjálfsagðri gát og gagnrýni, en jákvæðu hugarfari. á það hefur mér of víða þótt skorta. En ríkið sjálft hlýtur þó a.m.k. að standa þannig að, að ekki verði um aukningu á skattheimtu að ræða miðað við aðrar byggingar, ekki beina mismunun á öfugan veg til þess eða þeirra aðila sem eru hér að ryðja brautina. Það segja mér færustu menn í þessum efnum, hvort sem þeir eru jákvæðir gagnvart þessum framkvæmdum beint í dag eða ekki, að í þessu liggi framtíðin varðandi okkar byggingarmál.

Í fyrra var gerð aths., að mínu viti réttilega, ég hygg frá hv. 5. þm. Austurl., að við værum þarna að fara út á nokkuð hálan ís í sambandi við orðalagið „í verksmiðju, á verkstaði eða starfsstöð. Þetta er tekið beint eftir núgildandi orðalagi, þar sem tekið er fram að undanþágan nær ekki til þessarar vinnu: í verksmiðjum, á verkstæðum eða starfsstöð. Ég segi það fyrir mig, að ég hefði gjarnan viljað hafa þetta skýrara og miða við verksmiðjur einar, svo sem er raunar ætlunin. Hins vegar er það nú svo með a.m.k. einn eða tvo, kannske fleiri af þessum einingaframleiðendum, að vægast sagt er hæpið að tala um verksmiðjur. Það á reyndar enn við um þá alla, að það er varla hægt að tala um verksmiðjur, nema þá Húseiningar á Siglufirði, og því er orðalag þetta notað. En vafalaust mætti þarna standa eins í verksmiðju, ef það væri tekið skýrt fram í reglugerð eða grg., sem fylgdi þessu, við hvað þá væri átt og það ætti við einingabyggingarnar yfirleitt.

Þetta vildi ég í lokin taka fram, en aðeins segja það, að byggingarmáti framtíðarinnar verður án efa ekki við eina aðferð miðaður. Þó er ljóst af reynslu nágranna okkar að einingahúsin hljóta að verða mjög verulegur þáttur í húsbyggingum hjá okkur á næstunni, bæði ef framsýni ræður og viðunandi aðstaða verður sköpuð þessum aðilum til handa beinlínis til þess að gera húsin ódýrari og auka hagkvæmni í heild. Að þessu hljóta stjórnvöld að hlynna í stað þess að láta reka á reiðanum og eins og er í þessu tilfelli beinlínis Leggja stein í götu með þeirri mismunun sem hér er lagt til að leiðrétt verði.

Af fjölmörgum þáttum til úrbóta, a.m.k. í dag, þykir mér þessi þáttur hvað tilfinnanlegastur vegna þess óréttlætis sem mér þykir að hér sé sýnt. Því er lagt til að jafnrétti ríki milli einingahúsa og annarra íbúðarhúsbygginga við söluskattsinnheimtu. Í raun og veru er ekki farið fram á annað varðandi þetta frv.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að óska þess að að lokinni þessari umr. verði frv, vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.