17.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

Umræður utan dagskrár

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér hafa langar ræður verið fluttar í víðkvæmu deilumáli. Það er ekki ætlun mín að bæta miklu við. Því síður er ætlun mín að ræða afstöðu þá, sem ég eða aðrir alþm. höfðum til þessarar lagasetningar. Það er mál út af fyrir sig. Nú er þetta orðið að lögum og ekki um annað að gera en skýra þau og framfylgja þeim eftir bestu getu. En hitt veit ég, að það voru fjölmargir hér á þingi sem samþ. þessu lög í trausti þess, að þeim yrði beitt af hófsemi, og mönnum var fyllilega ljóst að ekki var hér um svokallaðan fullkominn verkfallsrétt að ræða.

En aðalástæðan fyrir því, að ég tek hér til máls, er að ég er einn alþm. sem var skikkaður til að taka sæti í hinni svokölluðu kjaradeilunefnd með atkv. fundarmanna hér í salnum á sínum tíma. Og þessa kjaradeilunefnd hefur nokkrum sinnum borið á góma í þessum umr. Tel ég því rétt að ég segi hér örfá orð.

Í raun og veru hófst þessi umr. á því, að hæstv. forsrh. gat um bréf kjaradeilunefndar til ríkisstjórnar Íslands og stjórnar BSRB þar sem hæstv. ríkisstjórn var skýrt frá gangi mála. Það er vitanlega ekki nægjanlegt að kveða upp úrskurði ef þeim er ekki framfylgt.

Af þessu tilefni ætla ég að rifja upp í örfáum orðum hvað kjaradeilunefnd er og hvert er hlutverk hennar. Þetta er ekki mikið mál. Það eru aðeins tvær greinar sem fjalla um þetta efni, 26. og 27. gr. laga um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Kjaradeilunefnd er skipuð 9 mönnum. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja skal nefna til 3 menn, fjmrh. skal nefna til 3 menn, 2 skulu kosnir af Sþ. og 1 nefndur af Hæstarétti og skal hann vera formaður nefndarinnar. Og í 26. gr. segir svo um hlutverk nefndarinnar:

„Þótt löglegt verkfall sé hafið er starfsmönnum, sem í verkfalli eru, skylt að starfa svo að haldið verði uppi nauðsynlegri öryggisvörslu og heilsugæslu“.

Að þessu er vikið enn nánar í grg. með frv. þar sem segir:

„Hér er gert ráð fyrir að verkfallsrétti verði þau takmörk sett að öryggi og heilsu fólks verði ekki stefnt í hættu.“

Það er þetta viðfangsefni sem við fulltrúarnir í kjaradeilunefnd höfum nú við að glíma, að koma í veg fyrir á þessum verkfallstímum að öryggi og heilsu fólks sé stefnt í hættu.

Það hefur verið vikið að því hér, mig minnir sérstaklega af hv. 5. þm. Norðurl. e., að efni bréfa kjaradeilunefndar og úrskurða muni oft orka tvímælis. Lét hv. þm. orð falla hér áðan um það, að kjaradeilunefnd hefði sýnt mjög svo ákveðna tilhneigingu í þá átt að halda fram málstað annars deiluaðila, þ.e.a.s. ríkisstjórnarinnar.

Ég skal vera manna fyrstur til að viðurkenna að störf okkar orka tvímælis. Allt orkar tvímælis þá gert er. Okkur berast fjölmörg mál, smá og stór, sem við verðum að reyna að greiða úr eftir bestu getu, og það gildir um störf okkar, að þau verða yfirleitt að vinnast fljótt. Það er ekki mjög langur tími til gagnaöflunar né uppsagnar úrskurða. Að þessu leyti er starf okkar líkara starfi dómara á knattspyrnuvelli, sem verður að kveða upp úrskurð á stundinni, heldur en dómara t.d. í Hæstarétti. Þó er það svo, að jafnvel dómurum í Hæstarétti getur missýnst. Hæstiréttur okkar, Hæstiréttur Íslands, hefur starfað frá 1920 með miklum ágætum. Ég hygg að það sé almennt viðurkennt að störf hans hafi verið mjög vel af hendi leyst. Þó getur honum skjátlast, og það er tiltölulega auðvelt að taka sér í hendur hæstaréttardóm, eða a.m.k. finna hann, sem getur orkað tvímælis. Og fyrir kemur að dómurinn skiptist, fimm manna dómur skiptist í meiri og minni hl.

Ég held að af þessu getið þið, góðir þm., séð að okkur er nokkur vandi á höndum í kjaradeilunefnd. Það er líka svo, eins og hv. 7. þm. Reykv. nefndi áðan, að hér er um fyrsta verkfall að ræða af þessu tagi. Það er reynsluleysi beggja aðila. Og fleiri en hann hafa nefnt að lögin væru meingölluð.

Ég ætla ekki, held ég, á þessu stigi að hafa þessi orð fleiri. Að sjálfsögðu mun ég alls ekki ræða einstök mál eða einstaka úrskurði kjaradeilunefndar. Ég geri það ekki á þessum vettvangi. Það er nógu erfitt að setja sig í dómarasæti og dæma í málum annarra þó að þeir dómar séu ekki gerðir að umræðuefni á slíkum vettvangi, hver og einn út af fyrir sig. Hitt vil ég benda á, að samstarf þessara 9 aðila í kjaradeilunefnd hefur verið ágætt. Þeir hafa yfirleitt komist að samhljóða niðurstöðu, aðeins örsjaldan verið gerðir eða bókaðir minni háttar fyrirvarar. Því ber að fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. forsrh., að niðurstaða fundar ríkisstjórnar Íslands með fulltrúum kjaradeilunefndar, sem ég gat því miður ekki mætt á í dag, hafi verið jákvæð. Þá leyfi ég mér og að vona að góð samvinna geti haldist milli kjaradeilunefndar og beggja deiluaðila, úrskurðum nefndarinnar verði fylgt í framkvæmd. Og loks ber að vona af einlægni að deilan leysist sem fyrst.