17.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að vekja athygli á einu atriði, en það var ræða hv. 2. þm. Austurl.

Þótt oft hafi ég verið á öndverðum meiði við hv. þm., þá er það nú svo eftir þann langa tíma sem ég hef átt sæti á þingi, að mér þykir leitt að sjá að hv. þm. er brugðið í málflutningi. Hv. 2. þm. Austurl. gleymdi í fyrsta sinn, svo að ég muni eftir, að setja upp andlitið. Það er svo að flokkur hans hefur verið flokka lagnastur við að taka á sig ný gervi og setja upp ný andlit, eftir því sem við hefur átt. Hv. þm. sagði samt núna: Aldrei hefur verið háð verkfall í landinu svo að menn hafi ekki haldið fram að lög hafi verið brotin. — Hann sagði enn fremur: Menn vissu auðvitað, er lög þessi voru sett, að deila yrði um framkvæmdina, en þetta er ekkert aðalatriði. — Þarna kemur ljóslega fram hið rétta andlit Alþb. og þeirra afla sem þar eru sterkust. (Gripið fram í.) Sem sé: lögin í landinu, þau eru ekkert aðalatriði, það er ekki í fyrsta sinn að haldið er fram að lög séu brotin, það er ekkert aðalatriði. Ég leyfi mér að segja það sem mína skoðun, og ég fullyrði að það er skoðun mjög margra borgara, sem sitja alls ekki við samningaborð þegar kaupum og kjörum er skipað í landinu, að við teljum það ekkert aukaatriði, heldur meginatriði að lögum landsins sé fylgt. Til hvers setjum við hér á Alþ. og samþykkjum lög, ef okkur dettur alls ekki í hug að þeim sé fylgt? Við vitum að auðvitað verður deilt um framkvæmdina. Hv. þm. telur það bara ekkert atriði. Hv. þm. sagði: Þetta er ekkert aðalatriði. Aðalatriðið er að leysa deiluna.

Vitanlega þarf að leysa deiluna. Það er hver einasti maður bæði í þingsölum og utan þings vafalaust á þeirri skoðun, að það verði að leysa deiluna. Ríkisstj. gerði það sem hún gat, áður en skarst í odda og verkfallið skall á, og lýsti því meira að segja yfir, sem hér er mjög gagnrýnt, að lengra treysti hún sér ekki til að ganga. Það lá fyrir að menn höfðu teygt sig eins langt og þeir töldu fært án þess að verulegt tjón yrði að. Það skarst í odda. Ég nefni nú ummæli sem mér hafði sést yfir að nefna í minni fyrri ræðu. Það voru ummæli formanns BSRB, sem höfð voru eftir honum í Ríkisútvarpinu á mánudeginum, daginn áður en verkfallið skall á. Kunngert hafði verið lokatilboð ríkisstj. og þá sagði formaður BSRB ekki annað en þetta: „Nú, það er ljóst að ríkisstj. stefnir í verkfall.“ Ég hugsa að það hafi verið fleiri en ég sem urðu hvumsa.

Menn geta auðvitað haft þá skoðun að þetta sé frambærileg rökhugsun. Mér finnst það ekki. Það er hins vegar ekki aðalatriði í þessu máli, hvort þessi setning var réttmæt heldur vil ég undirstrika: Aðalatriðið er í þessu verkfalli, í öðrum verkföllum og endranær, að lög séu haldin. Agaleysið í þjóðfélagi okkar er allt of mikið. Agaleysið veldur borgurunum öryggisleysi, og það er alvarlegra en svo, að við getum horft á það sem eitthvað er ekkert þurfi um að tala.

Ég tíunda ekki frekar yfirlýsingar hv. 2. þm. Austurl. um álit hans á þessu atriði, hvort lög skuli haldin í framkvæmd verkfallsins. Hann notaði orð eins og fánýtt og fráleitt og fleira.

Mér dettur ekki í hug að það þurfi neina sérstaka yfirlýsingu af minni hálfu frekar en frá öðrum þm., auðvitað erum við öll sammála um það, að deiluna verði að leysa. Vitanlega erum við líka a.m.k. mörg okkar sammála um að það sé eðlilegt að opinberir starfsmenn leiti réttar síns. En ég held að það væri ekki í þökk hinna almennu meðlima BSRB ef rétti þeirra væri ekki beitt með fyllilega löglegum og eðlilegum hætti. Ella er unnið á móti þeirra markmiðum. Ég sé ekki eftir því að opinberir starfsmenn fái kjarabætur. Þeir eiga ekki að gjalda þess að þeir vinna hjá ríkinu. Opinberir starfsmenn, sem vinna mjög sérhæfð ábyrgðarstörf, eru margir í afar lágum launaflokkum sem vafalaust þættu ekki frambærilegir á hinum almenna vinnumarkaði. Þess vegna finnst mér í sjálfu sér engan veginn hneyksli að opinberir starfsmenn geri kjarakröfur, slíkt er viðurkennt í okkar þjóðfélagi, og það er eðlilegt að þessir launþegar leiti réttar síns eins og aðrir.